| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Okkar menn héldu til Þýskalands í dag til að etja kappi við fyrrum lærisveina Jurgen Klopp í Borussia Dortmund.  Leikurinn er fyrri leikur liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar og hefst hann kl. 19:05 fimmtudagskvöldið 7. apríl.

Liðið lenti í Þýskalandi í dag og þar er það helst að frétta að Roberto Firminho ferðaðist með en þó er ekki víst enn hvort að hann verði klár í slaginn vegna meiðsla sem hann hefur verið að glíma við aftaní læri.  Hann æfði þó að fullu á æfingu liðsins á Signal Iduna Park fyrr í dag og því virðast vera allar líkur á því að hann taki a.m.k. einhvern þátt í leiknum.  Annars er leikmannahópurinn sem ferðaðist yfir skipaður eftirtöldum leikmönnum:  Mignolet og Ward (markverðir), Lovren, Clyne, Sakho, Skrtel, Moreno, Toure og Smith (varnarmenn), Henderson, Can, Milner, Alllen (miðjumenn) og Sturridge, Coutinho, Lallana, Firmino, Origi, Ibe og Ojo (framherjar og framliggjandi miðjumenn).

Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um það að Þjóðverjarnir eru gríðarlega spenntir fyrir endurkomu Jurgen Klopp til félagsins og voru móttökurnar hans í dag á blaðamannafundinum svo eitthvað sé nefnt frábærar.  Ekki var langt í grínið þegar þeir settu upp skilti til öryggis fyrir Klopp svo að hann myndi ekki fara í rangan búningsklefa en auðvitað er hann mun vanari því á þessum velli að vera í búningsklefa heimaliðsins.  Hér má sjá mynd af þessu ágæta skilti.

Hjá gestunum eru mikilvægir leikmenn að koma til baka úr meiðslum sem eru kannski ekki svo góðar fréttir fyrir Klopp og hans menn en þeir Mats Hummels, Sokratis og Ilkay Gundogan hafa allir verið að æfa í vikunni og gætu verið klárir í slaginn.  Hummels og Sokratis eru miðverðir og misstu þeir af síðasta leik liðsins, 3-2 sigri á Werder Bremen á sunnudaginn var.  Gundogan er búinn að vera lengur frá vegna meiðsla og því er ekki eins líklegt að hann verði með en þó eru alltaf einhverjar smá líkur á því.  Dortmund eru á svakalegu skriði og hafa ekki tapað síðan 19. desember síðastliðinn en þá máttu þeir þola 2-1 tap fyrir Köln á útivelli.  Síðan hafa þeir leikið 20 leiki og unnið 18 ! og aðeins tvisvar gert jafntefli.  Það þarf því ekkert að fjölyrða um það að leikurinn annað kvöld verður gríðarlega erfiður.

Liðin hafa aðeins mæst þrisvar sinnum áður í keppnisleik.  Fyrsti leikur liðanna var úrslitaleikur gömlu Evrópukeppni bikarhafa árið 1966 og þar báru Þjóðverjarnir sigurorð af okkar mönnum 2-1.  Var það jafnframt fyrsti Evróputitill félagsins.  Leikurinn fór í framlengingu og þar var Ron Yeats fyrir því óláni að skora sjálfsmark sem tryggði Dortmund sigurinn.  Næst mættust liðin ekki aftur fyrr en árið 2001 í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.  Fyrri leikurinn fór 0-0 í Dortmund og Liverpool vann seinni leikinn 2-0 með mörkum frá Vladimir Smicer og varnarmanninum knáa Stephen Wright.  Félögin hafa svo mæst alls fjórum sinnum í vináttuleikjum, síðast árið 2014 þegar 4-0 sigur vannst á Klopp og hans mönnum á Anfield.

Allt þarf að ganga upp hjá gestunum á morgun ef þeir ætla sér að ná góðum úrslitum og heimamenn mæta væntanlega dýrvitlausir til leiks.  Þeir slógu Tottenham út nokkuð auðveldlega í 16-liða úrslitum þar sem þeir unnu fyrri leikinn á heimavelli 3-0.  Jurgen Klopp kann þó sitthvað í þessum fræðum og ekki skemmir fyrir að hann þekkir hvert einasta grasstrá á vellinum, eða því sem næst.  Það þarf ekkert að búast við neinu öðru en að mikil skemmtun sé í vændum.  Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn ná að næla inn einu mikilvægu marki á útivelli en það dugir þó ekki til sigurs þar sem lokatölur verða 2-1.

Þau úrslit eru þó alls ekki slæm og seinni leikurinn á Anfield verður væntanlega enn eitt magnaða Evrópukvöldið á Anfield.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan