| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

                          
Liverpool mætir Crystal Palace á Selhurst Park á morgun, sunnudag. Tekst liðinu að fylgja eftir frábærum sigri á Man. City í vikunni, eða koma enn ein vonbrigðin í vetur okkur niður á jörðina á ný?

Það er stundum erfitt að vita hvaða Liverpool mætir til leiks í þessum og þessum leik. Sérstaklega ef andstæðingurinn heitir Crystal Palace, en Suður-Lundúnaliðið er hálfgert „bogey-lið" í okkar bókhaldi og hefur alltof oft reynst okkar mönnum erfiður ljár í þúfu. 

Í fyrri umferðinni mætti Palace á Anfield og hafði sigur, 1-2. Fyrir leikinn hafði Liverpool leikið 12 leiki í röð án taps. Að vísu var enginn glæsibragur á öllum jafnteflunum í þessari taplausu lotu, en taplausir vorum við nú samt. Þangað til Crystal Palace mætti á svæðið. 

Næsti leikur eftir tapið gegn Palace var síðan stórsigur á Manchester City. Tvímælalaust besti leikur liðsins undir stjórn Klopp, eða að minnsta kosti allt þar til Liverpool og City mættust á ný á miðvikudaginn. 

Á síðustu leiktíð sigraði Crystal Palace okkar menn samtals 6-2. Seinni leikurinn fór fram á Anfield og var síðasti heimaleikur Steven Gerrard fyrir Liverpool. Frammistaðan hörmulega andlaus og hreinlega til skammar. Niðurstaðan 3-1 í báðum leikjum.

Við munum öll eftir 3-3 jafnteflinu grátlega á lokametrum leiktíðarinnar 2013-14, þegar Palace náði að jafna úr 3-0 í 3-3 á 11 mínútna kafla og gera endanlega út um veika von sem við ennþá áttum um að ná loksins að vinna deildina.

Í fyrri leik liðanna á þeirri ágætu leiktíð sigraði Liverpool reyndar næsta örugglega og árin þar á undan var Crystal Palace ekki tíður gestur í Úrvalsdeild, þannig að bogey-stimpillinn á Palace er tiltölulega nýtilkominn. En samt sem áður er afar brýnt að kveða þann draug niður sem fyrst.

Ég hef áður minnst á það að kannski var það jákvæðasta við góðu (en alltof fáu) syrpurnar sem Liverpool tók undir stjórn Brendan Rodgers, að þá var mjög lítið um óvænt töp gegn svokölluðum minni spámönnum. Leiktíðina margumræddu 2013-14 var eini óvænti skellurinn 3-1 tapið gegn Hull í byrjun desember. Og svo kannski 3-3 jafnteflið við Palace, sem áður er getið. Aðrir leikir gegn minni spámönnum enduðu með skyldusigrum. Það gekk hinsvegar afleitlega að vinna stóru liðin allan tímann sem Brendan var við stjórnvölinn. Að mörgu leyti fannst manni það jákvæðara, meðan maður trúði því að liðið væri í eðlilegri framför. En svo varð bara engin framför.

Það er í sjálfu sér ekkert óvenjulegt að lið eigi sér ákveðna andstæðinga úr hópi minni liða sem ná einhvernveginn alltaf að spila langt yfir getu þegar liðin mætast. Við munum t.d. sum hver eftir Wimbledon á 9. áratugnum. Lið sem gat ekki neitt, en náði oftar en ekki að stríða okkur. Og þá vorum við besta lið í heimi! 

Crystal Palace er orðið leiðinlegt dæmi um svona „bogey-lið". Liðið spilar jafnan langt yfir getu þegar það mætir Liverpool og ákveðnir leikmenn sýna takta sem þeir vissu ekki einu sinni sjálfir að þeir ættu til. Yannick Bolasie lítur t.d. gjarnan út eins og sambland af Messi og Ronaldo þegar hann mætir Liverpool! Það er ekkert eðlilegt við það. 
Yfirstandandi leiktíð hefur verið mjög sérstök. Staða liðsins í deildinni er alls ekki góð, en samt sem áður ríkir mikil bjartsýni meðal stuðningsmanna félagsins, sem trúa því að Jurgen Klopp muni hefja félagið til vegs og virðingar á nýjan leik. Klopp hefur lagt mikla áherslu á að liðið verði að ná stöðugleika í leik sinn - og ekki að ósekju. Liðið hefur til að mynda ekki enn náð þremur sigurleikjum í röð í deildinni í vetur. Sagan margfræga ætti því að segja okkur það að Crystal Palace fari með sigur af hólmi á morgun, því nú hafa tveir síðustu leikirnir í deildinni unnist. Og það með miklum myndarbrag meira að segja; Aston Villa lá 0-6 úti og Manchester City 3-0 heima.  

Það er semsagt dauðafæri hjá okkar mönnum á morgun að gera sögu félagsins fallegri og betri. Í margvíslegum skilningi. Fyrir það fyrsta þýðir sigur á morgun að liðið hefur þá loksins náð þremur sigurleikjum í röð á tímabilinu. Það væri jákvætt. Í öðru lagi væri sigur á morgun mikilvægur áfangi í að kveða niður Palace drauginn í eitt skipti fyrir öll og í þriðja lagi þýðir sigur á morgun að það verður hægt að leyfa sér að leiða hugann aftur að 4. sætinu dýrmæta. Reyndar hefur það oftar en ekki verið ávísun á tap í næsta leik þegar leikmenn eða framkvæmdastjórar Liverpool hafa leyft sér að nefna 4. sætið á blaðamannafundum, líkt og þeir gerðu í vikunni, þannig að í sögulegu tilliti er nokkurnveginn hægt að bóka sigur Crystal Palace á morgun. 

Það bætir ekki okkar stöðu fyrir leikinn á morgun að framundan eru tvær styrjaldir gegn erkifjendunum í Manchester United í Evrópudeildinni og ekki ólíklegt að menn séu aðeins farnir að leiða hugann að þeim viðureignum. Sem getur haft truflandi áhrif á einbeitingu leikmanna. Hinsvegar er það svo að aldrei þessu vant hefur Klopp úr sæmilega stórum hópi ómeiddra leikmanna að moða þannig að ef menn vilja taka þátt í leikjunum gegn United þá er eins gott fyrir þá að standa sig á morgun. 

Eins og við höfum sagt frá hér á síðunni er Lucas Leiva meiddur og verður frá í 5-6 vikur. Að öðru leyti er meiðslalistinn í nokkuð góðu lagi. Joe Gomez og Danny Ings eru auðvitað ennþá frá, en flestir aðrir ganga heilir til skógar. 

Það er nokkuð öruggt í mínum bókum að Jon Flanagan hefur leik á morgun. Hann er ekki í Evrópudeildarhópnum og Klopp hefur lýst því yfir að það hafi verið mistök að skrá hann ekki til leiks þar. Hann stóð sig mjög vel á móti City og hlýtur að spila á morgun. Hugsanlega kemur Moreno aftur inn í vinstri bakvörðinn, eða jafnvel Brad Smith, þannig að Clyne fái nú smá hvíld fyrir átökin gegn United.

Annað í liðsvalinu er auðvitað fremur óljóst. Dejan Lovren verður væntanlega í miðverðinum, eftir solid frammistöðu á miðvikudaginn en svo er bara spurning hver verður við hliðina á honum; Skrtel, Toure, Sakho eða Caulker. Á miðjunni gæti ég trúað að Henderson fái smá hvíld og jafnvel Lallana líka, en hann átti stjörnuleik gegn City og hlýtur að verða í byrjunarliðinu gegn United. En þetta verður náttúrlega allt að koma í ljós.

Crystal Palace hefur gengið afleitlega að undanförnu og hefur ekki náð sigri í deildinni síðan 19. desember, þegar liðið mætti Stoke á útivelli. En við verðum að búa okkur undir það að liðið springi út á morgun, annað eins hefur gerst þegar Palace á í hlut.

Ég er að upplagi bjartsýnn og ég býst frekar við því að Klopp stilli upp mjög sterku liði á morgun. Liði sem á að sjálfsögðu að ráða við lærisveina Alan Pardew. Ég leyfi mér að spá 1-0 sigri Liverpool. Markið kemur frá Jordon Ibe.

YNWA!

 

 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan