| Heimir Eyvindarson

Veisla á St. Mary´s!


Liverpool rótburstaði Southampton á St. Mary´s í 8 liða úrslitum deildabikarsins í kvöld. Lokatölur urðu 6-1 og Liverpool er komið í undanúrslit, þar sem liðið mun mæta Stoke.

Jürgen Klopp gerði sex breytingar á byrjunarliðinu frá sigurleiknum gegn Swansea um helgina. Adam Bogdan stóð í markinu eins og hingað til í deildabikarnum. Connor Randall tók stöðu Nathaniel Clyne í hægri bakverði, Joe Allen og Lucas Leiva komu inn á miðjuna og Daniel Sturridge og Divock Origi voru saman í framlínunni.

Það er óhætt að segja að heimamenn hafi fengið óskabyrjun því strax eftir 45 sekúndur var Sadio Mané búinn að skora. Tadic sendi boltann fyrir frá vinstri og Mané stökk hæst allra í teignum og skallaði boltann í netið. Óverjandi fyrir Bogdan, en ég hefði gjarnan viljað sjá Moreno gera betur í dekkningunni. Engu að síður glæsilegt mark hjá Mané. Staðan 1-0 og leikurinn varla byrjaður!

Fyrstu 10-15 mínútur leiksins voru hrein eign Southampton og Liverpool má í raun teljast heppið að hafa ekki fengið fleiri mörk á sig á upphafsmínútum, slíkur var krafturinn í heimamönnum. Okkar menn komust þó smám saman í betri takt við leikinn og á 25. mínútu jafnaði Daniel Sturridge leikinn með glæsilegu marki. Joe Allen átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Southampton, beint í lappirnar á Sturridge. Fyrsta snertingin hjá Sturridge var aðeins klaufaleg, en það kom ekki að sök. Drengurinn náði að setja boltann í fjærhornið frá markteigshorninu. Glæsilega klárað og staðan orðin jöfn.

Fimm mínútum síðar var Sturridge aftur á ferð, nú eftir stórkostlega sendingu frá Can, eftir að Lallana hafði unnið boltann af miklu harðfylgi. Sturridge setti boltinn í fyrsta með hægri í gegnum klofið á Stekelenburg í marki Southampton og staðan orðin 1-2. Sturridge heldur betur mættur til leiks.

Á 45. mínútu barst boltinn til Alberto Moreno fyrir utan teiginn, eftir hornspyrnu. Spánverjinn gerði sér lítið fyrir og þrumaði honum viðstöðulaust í nærhornið, í hægri endursýningu sást reyndar að boltinn hafði örlitla viðkomu í Divock Origi sem fékk markið skráð á sig. 

Staðan 1-3 í hálfleik á St. Mary´s. Frábær staða eftir afleita byrjun okkar manna.

Seinni hálfleikur var heldur tíðindalítill framan af. Heimamenn voru þó hættulegri en okkar menn, en það var ekkert voðalega mikið að gerast. Á 69. mínútu kom síðan markið sem gerði endanlega út um leikinn. Jordon Ibe, sem hafði komið inn á 10 mínútum áður, átti þá laglega sendingu inn fyrir vörnina á Divock Origi sem þrumaði boltanum í þaknetið af vítateigshorninu. Stórglæsileg afgreiðsla hjá Belganum unga. 

Fimm mínútum síðar skoraði Ibe síðan sjálfur. Origi átti þá góða hælsendingu á Moreno úti á vinstri kantinum. Spánverjinn þeyttist framhjá varnarmönnum Southampton og sendi góða sendingu á Ibe sem stóð á 16 metrunum um það bil, tók boltann á brjóstið og lagði hann í nærhornið. Flott afgreiðsla og staðan orðin 1-5.


Á 86. mínútu fullkomnaði Origi síðan þrennuna þegar hann skallaði góða fyrirgjöf frá varamanninum Brad Smith af miklu öryggi í markið framhjá varnarlausum Stekelenburg. 1-6!

Á lokaandartökunum var Can nálægt því að bæta við marki, en Hollendingurinn sá við honum. Lokatölur leiksins 1-6 og Liverpool komið í undanúrslit. Þetta þarf vissulega ekki alltaf að vera fallegt, en mikið óskaplega er nú samt skemmtilegt þegar það er þannig.

Frammistaða Liverpool í kvöld var í raun alveg frábær. Leikurinn byrjaði illa, en þvílík endurkoma! Fjórði sigurinn á 15 dögum og liðið er til alls líklegt undir stjórn Klopp.

Að leik loknum var að vanda dregið í undanúrslitin. Liverpool mun mæta Stoke, en í hinum undanúrslitaleiknum eigast Everton og Manchester City við. 

Southampton: Stekelenburg, Cedric (Ward-Prowse á 63. mín.), Clasie (Long á 63. mín.), Caulker, Van Dijk, S.Davies (Romeo á 77. mín.), Bertrand, Wanyama, Mané, Tadic, Pelle. Ónotaðir varamenn: Yoshida, Gazzaniga, Juanmi, Martina. 

Mark Southampton: Mané á 1. mínútu.

Liverpool: Bogdán, Randall, Skrtel, Lovren, Moreno (Smith á 77. mín.), Lucas, Allen (Henderson á 73. mín.), Can, Lallana, Origi, Sturridge (Ibe á 59. mín.). Ónotaðir varamenn:

Mörk Liverpool: Sturridge á 25. og 30. mínútu., Origi á 45., 69. og 86. mínútu, Ibe á 74. mínútu. 

Gul spjöld: Can, Randall.

Áhorfendur á St. Mary´s: 31592.

 

Maður leiksins: Divock Origi og Daniel Sturridge ættu eiginlega að skipta heiðrinum á milli sín að þessu sinni. Origi spilaði vissulega hálftíma lengur en Sturridge og skoraði einu marki betur, ef Moreno fær markið ekki skráð á sig. En Sturridge lagði línurnar og skoraði tvö mikilvægustu mörk leiksins. Frábært að fá hann til baka og vonandi hefur hann ekki meiðst enn eina ferðina, en hann hélt um lærið þegar hann fór af velli. SKY valdi Origi mann leiksins og ég get engan veginn mótmælt því. Frábær leikur hjá stráknum og gríðarlega gott fyrir liðið að fá hann í gang.  

Jürgen Klopp: ,,Það er ekki oft sem maður getur leyft sér að njóta síðustu 25 mínútnanna í leiknum nokkuð áhyggjulaus. Þetta var mjög góð frammistaða, en alls ekki fullkomin."

Fróðleikur:

-Þetta var í þriðja sinn sem Southampton og Liverpool mætast í deildabikarnum og í fyrsta sinn sem Liverpool hefur betur. 

-Þetta er í þriðja sinn sem Liverpool kemst í undanúrslit deildabikarsins á síðustu fimm árum.

-Þetta var fyrsta þrenna Divock Origi fyrir Liverpool og hans önnur á ferlinum. Reyndar voru mörkin í kvöld fyrstu mörk hans í alvöru leik fyrir Liverpool. Ágætis opnun á markareikningi.    

-Fram að leiknum í kvöld hafði Liverpool aðeins skorað tvö mörk í deildabikarnum, ef vítakeppnin gegn Carlisle er undanskilin. 

-Ronald Koeman hefur nú stýrt liðum 9 sinnum gegn Liverpool. Hann hefur tvisvar haft betur, það var árið 2006 þegar Benfica lagði Liverpool tvisvar í meistaradeildinni. 

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan