| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool mætir Norwich í deildinni á morgun. Undir stjórn Brendan Rodgers hefur Liverpool alltaf unnið Norwich og vonandi breytist sá góði siður ekki á morgun.

Það hefur reyndar ansi margt breyst frá því að Liverpool mætti Norwich síðast. Kanarífuglarnir voru ekki í Úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, þannig að síðast þegar liðin mættust voru okkar menn í mesta stuði sem þeir hafa verið á þessari öld. Tímabilið 2013-14, þegar Brendan Rodgers var í guðatölu hjá stuðningsmönnum liðsins. Liverpool vann Norwich samanlagt 8-3 í leikjunum tveimur og Luis Suarez skoraði 5 og Raheem Sterling 3. Já, það hefur margt breyst.

Brendan Rodgers er ekki lengur í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool, það held ég að sé óhætt að fullyrða. Eftir leiktíðina 2013-14 hefur allt of lítið sést til snilldartakta liðsins og stjórans og margir áttu von á því að hann fengi að taka pokann sinn í vor, eftir vandræðalega frammistöðu liðsins í lok síðustu leiktíðar. Það gerðist ekki en það þykir nokkuð öruggt að Rodgers megi ekki stíga mörg feilspor á þessari leiktíð ef hann ætlar að halda starfinu.

Leiktíðin byrjaði raunar nokkuð vel. Sigur í tveimur fyrstu leikjunum í Úrvalsdeild og svo jafntefli á útivelli gegn Arsenal var betra en flestir stuðningsmenn þorðu að vona. Kannski var Rodgers rétti maðurinn eftir allt saman? En þá var líka partýið búið. Síðustu tveir deildarleikir töpuðust samanlagt 6-1 og frammistaðan algerlega óásættanleg.

Sumir vilja meina að feilspor Rodgers séu nú þegar orðin of mörg. Bent hefur verið á að leikmannakaup hans hafi að stærstum hluta verið mislukkuð. Að Coutinho og Sturridge undanskildum. Mörgum finnst að algjört ráða- og hugmyndaleysi ríki í sóknarleik liðsins og að leikkerfið sem Rodgers þráast við að nota gangi hreinlega ekki upp.

Reyndar má segja margt um Rodgers, en hann verður seint sakaður um einhæfni í leikkerfum. Ef út í það er farið. Hann hefur notað ótrúlega mörg afbrigði af 4-3-3 kerfinu, sem er það kerfi sem honum virðist líða best með. Hann hefur líka notað ótal útgáfur af 3-5-2 kerfinu sem hann greip til þegar allt var komið í óefni á síðustu leiktíð. Hann hafði reyndar stundum notað það kerfi áður en að leiknum fræga gegn Manchester United í desember s.l. kom, en þá yfirleitt gegn minni spámönnum sem ekki var talið að myndu ógna Liverpool mjög sóknarlega. Síðan hefur hann einnig notað 4-4-2 kerfið og þá einkum í demants uppstillingu með einn djúpan miðjumann og einn framliggjandi miðjumann í holunni fyrir aftan sóknarmennina.

4-4-2 demants kerfið notaði Rodgers hvað mest þegar sem best gekk hjá liðinu á leiktíðinni 2013-14. Þá voru Sturridge og Suarez frammi, Coutinho oftast þar fyrir aftan og Gerrard afturliggjandi miðjumaður. Margir hafa kallað eftir því að hann noti það kerfi oftar en einhverra hluta vegna þráast Rodgers við. Ég man ekki eftir að þetta kerfi hafi verið notað síðan snemma á síðustu leiktíð, þegar samlandarnir Borini og Balotelli voru saman í fremstu víglínu í einhverjum grútlélegum tapleiknum. En það er ekkert víst að ég muni þetta rétt.

Það sem af er þessari leiktíð hefur Rodgers leikið með aðeins einn framherja í öllum leikjum. Oftast Christian Benteke, en Divock Origi og Danny Ings fengu aðeins að prófa stöðuna í Evrópudeildinni gegn Bordeaux á fimmtudaginn. Þetta hefur engan veginn verið að gera sig og sannast sagna hefur sóknarleikurinn verið frekar dapur. Það er síðan alveg spurning hvort það sé endilega leikkerfinu eða liðsuppstillingunni að kenna. Á góða kaflanum á síðustu leiktíð stillti Rodgers oft upp með aðeins einn framherja, en samt komu einhver mörk. Að vísu ekki yfir 100 eins og á leiktíðinni þar á undan, en eitthvað var samt að gerast. Ólíkt því sem er í gangi núna.

Síðan hefur margur Liverpool aðdáandinn sett risastórt spurningamerki við vörnina. Dejan Lovren hefur verið gríðarlega óvinsæll hjá stuðningsmönnum liðsins, enda oftar en ekki einstaklega klaufalegur á velli. Hann byrjaði leiktíðina reyndar ágætlega, en hefur sýnt aðeins of mikið af gömlum og kunnuglegum töktum í síðustu tveimur deildarleikjum.

Mamadou Sakho, sem af einhverjum undarlegum ástæðum hefur ekki verið í liðinu hjá Rodgers fyrr en á móti Bordeaux var besti maður liðsins í þeim leik og hlýtur að hafa stimplað sig rækilega inn með frammistöðu sinni. Sakho skrifaði undir nýjan fimm ára samning í gær og verður vonandi í hjarta varnarinnar á morgun.  

Þá hefur það vakið talsverða athygli að Rodgers hefur kosið að nota 18 ára réttfættan miðvörð, Joe Gomez, í stöðu vinstri bakvarðar. Á kostnað Alberto Moreno. Gomez stóð sig reyndar ótrúlega vel til að byrja með, en heldur hefur hallað undan fæti að undanförnu. Þrátt fyrir að hann sé mjög efnilegur þá er vart hægt að ætlast til þess að hann leysi þessa stöðu vandræðalaust á sínu fyrstu tímabili í Úrvalsdeild.

Moreno lék allan leikinn gegn Bordeaux og var einn besti maður vallarins, að vísu í hlutverki kantmanns í afbrigði af 3-4-3 leikkerfi. Það er ekki ólíklegt að hann verði í byrjunarliðinu gegn Norwich, sérstaklega ef Rodgers stillir aftur upp þremur miðvörðum, eins og gegn franska liðinu.

Kannski er þriggja miðvarða uppstilling það skásta sem Liverpool getur boðið upp á þessa dagana? Það þýðir reyndar að öllum líkindum að Lovren heldur sæti sínu í liðinu, en Nathaniel Clyne og Alberto Moreno ættu báðir að nýtast mjög vel sem vængmenn í slíku kerfi. Báðir öskufljótir og duglegir. Og Clyne auðvitað mjög góður varnarmaður. Það kæmi mér ekki á óvart að Rodgers reyndi þetta kerfi á morgun.

En þá að andstæðingunum. Norwich vann sér sæti í Úrvalsdeild á ný í vor og liðinu hefur gengið ágætlega það sem af er. Liðið situr í 9. sæti Úrvalsdeildar með 7 stig, einu sæti ofar en Liverpool á hagstæðari markamun. Liðið er nokkuð sterkt þessa dagana og trúlega heldur sterkara en þegar Luis Suarez og félagar slátruðu því trekk í trekk. Tap Norwich gegn Southampton í síðasta mánuði var til að mynda fyrsta tap liðsins á útivelli í 15 mánuði.

Byrjunin á þessari leiktíð, 7 stig eftir 5 umferðir, er besta byrjun Norwich í Úrvalsdeild frá því árið 1993. Liðið þykir spila ágætan sóknarbolta, með Wes Hoolahan fremstan meðal jafningja, en hann er stoðsendingahæstur í Úrvalsdeild það sem af er, með 4 stoðsendingar í 5 leikjum. Þess má geta að okkar maður Andre Wisdom er í láni hjá Norwich, en hann má ekki spila á morgun.

Oft er blessuð sagan hliðholl Rauða hernum, en sjaldan jafn hliðholl og þegar Norwich á í hlut. Í síðustu 5 viðureignum liðanna er markatalan 21-5 Liverpool í vil. Í síðustu 10 deildarleikjum liðanna hefur Liverpool unnið 9 sinnum og einu sinni hefur orðið jafntefli. Síðan Úrvalsdeildin var stofnuð hefur ekkert lið skorað jafn mörg mörk gegn Norwich og okkar menn. Alls 39 mörk.

En eins fallega og þessi saga kann að hljóma þá er staðreyndin sú að það er ekkert svakalegt tilefni til bjartsýni fyrir morgundaginn. Liverpool hefur fengið á sig 6 mörk í síðustu þremur deildarleikjum og það sem verra er, liðið hefur aðeins skorað þrjú mörk í deildinni það sem af er. Þrátt fyrir að sóknarmenn hafi verið keyptir fyrir tugi milljóna í sumar. Það er ekki spennandi staða, en ljósið í myrkrinu er þó að allt útlit er fyrir að Daniel Sturridge verði í hópnum á morgun. Hann mun örugglega byrja á bekknum, en hver veit nema við fáum loksins að sjá eitthvað aðeins til hans á vellinum þegar líða tekur á leikinn.  

Jordan Henderson verður líka í hópnum og líklega í byrjunarliðinu, að því er fregnir herma nú í morgunsárið. Það er morgunljóst að það eru góðar fréttir að fá fyrirliðann til baka. Hann mun þá væntanlega verða á miðri miðjunni með Duracell kanínuna James Milner sér við hlið, en tölfræðin segir okkur að Milner sé búinn að hlaupa 62 kílómetra í leikjunum fimm sem búnir eru í deildinni. Mest allra í deildinni. Það er dálaglegur spotti.

Svo er stóra spurningin hvort Benteke verði enn einu sinni aleinn á toppnum. Ég vona að Rodgers láti af þeim ósið og setji Ings eða Firmino frammi með Belganum. Með Coutinho í holunni fyrir aftan tvo góða framherja er alltaf von á góðu.

Þrátt fyrir rysjótt gengi að undanförnu er ekki annað hægt en að gera kröfu um sigur á morgun. Ég spái 2-1 sigri þar sem Moreno og Ings skora tvö glæsimörk.

YNWA!   

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan