| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Annar heimaleikur tímabilsins í Úrvalsdeildinni er gegn West Ham United og hefst hann kl. 14:00 að íslenskum tíma laugardaginn 29. ágúst.

Okkar menn hafa byrjað ágætlega í deildinni, ekki fengið á sig mark eins og allir vita og spilamennskan í síðasta leik gegn Arsenal gefur virkilega góð fyrirheit um framhaldið ef leikmönnum tekst að halda uppteknum hætti. Það verður þó að viðurkennast að stundum hafa heimaleikir gegn liðum sem fyrirfram er talið að Liverpool eigi að vinna oft reynst erfiðir. West Ham töpuðu illa heima fyrir Bournemouth í síðasta leik 3-4 og líklega hefur Slaven Bilic látið leikmenn sína æfa varnarleikinn vel og vandlega í vikunni. Í fyrstu tveimur leikjum Liverpool var liðið ekki alveg nógu beitt en sigur hafðist þó í báðum leikjum og það er það sem gildir.

Eini útileikur West Ham til þessa var einmitt á móti Arsenal og þar sigruðu þeir óvænt 0-2. Við skulum því ekki gleyma því að liðið er sýnd veiði en ekki gefin. Síðan þá hafa þeir reyndar misst markvörðinn Adrian og varnarmanninn Carl Jenkinson í leikbönn og verða þeir ekki með á laugardaginn. Auk þess eru sex leikmenn að glíma við meiðsli en þar af eru þeir Diafra Sakho og miðjumaðurinn ungi Reece Oxford sagðir líklegir til að ná sér í tæka tíð fyrir leikinn. Hinir fjórir sem ekki geta tekið þátt eru Mauro Zarate, Joey O'Brien, Enner Valencia og fyrrum leikmaður Liverpool Andy Carroll.

Hjá okkar mönnum eru þeir Adam Lallana og Jordan Henderson enn frá vegna meiðsla og ekki sagðir líklegir til að ná þessum leik. Sem fyrr eru það svo þeir Joe Allen, Jon Flanagan og Daniel Sturridge sem eru á meiðslalistanum. Aðrir leikmenn eru heilir og klárir í slaginn. Miðað við þessar upplýsingar er líklegt að Brendan Rodgers stilli upp óbreyttu liði frá mánudagskvöldinu en margir telja þó líklegt að Lucas víki fyrir meira sóknarþenkjandi leikmanni á miðjunni þar sem ekki er eins mikil þörf á honum í þessum leik. Sóknarleikurinn var hinsvegar alveg ágætur gegn Arsenal og því finnst mér óþarfi að breyta liðinu. Ef West Ham verða beittir framávið er gott að geta treyst á að Lucas hjálpi til í vörninni.

Á síðasta tímabili náðu okkar menn að sigra West Ham á heimavelli 2-0 en þar skoruðu Raheem Sterling og Daniel Sturridge mörkin í seinni hálfleik. Ljóst er að þeir tveir verða ekki með Liverpool í þessum leik. Sagan er líka með Liverpool þegar Hamrarnir koma í heimsókn en gestirnir hafa ekki sigrað á Anfield síðan árið 1963 ef undirrituðum skjátlast ekki og West Ham hafa ekki náð jafntefli síðan árið 1999. Þó svo að sagan hjálpi mönnum ekkert þegar út í leikinn sjálfan er komið skulum við vona að hún haldi áfram að vera hliðholl Liverpool eftir leik.

Spáin er á þann veginn að lokatölur verða 3-1. Loksins tekst liðinu að skora meira en eitt mark í leik á tímabilinu en að sama skapi næst ekki að halda hreinu. Eigum við ekki að segja að klaufalegt brot í vítateignum verður til þess að gestirnir skori úr víti, en þá verða heimamenn hvort sem er búnir að skora þrjú mörk og sigla öruggum sigri heim.

Fróðleikur:

- Liverpool eru í 3. sæti deildarinnar með 10 stig eftir þrjá leiki.

- West Ham eru í 11. sæti með 3 stig eftir þrjá leiki.

- Liverpool eru eitt þriggja liða í deildinni sem ekki hafa fengið á sig mark hingað til. Hin liðin tvö eru Manchester City og Manchester United.

- 8 lið hafa skorað 2 mörk í deildinni það sem af er, Liverpool er eitt þeirra liða.

- Í fyrsta skipti á leiktíðinni er leikið á Anfield á hinum hefðbundna enska tíma, eða kl. 15:00 að staðartíma.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan