| Heimir Eyvindarson

Jafntefli á Emirates

                                                                     
Liverpool heimsótti Arsenal á Emirates í kvöld. Niðurstaðan var 0-0 jafntefli í ansi hreint kaflaskiptum leik. Liverpool hefur þá haldið hreinu í þremur fyrstu leikjum tímabilsins.

Eftir að hafa stillt upp sama liði í fyrstu tveimur leikjunum gerði Brendan Rodgers þrjár breytingar á byrjunarliðinu. Adam Lallana og Jordan Henderson eiga báðir við smávægileg meiðsl að striða og voru ekki í hóp í kvöld og hinn ungi Jordon Ibe varð að gera sér að góðu að byrja leikinn á bekknum. Lucas Leiva, Emre Can og Roberto Firmino komu inn í þeirra stað. 

Leikurinn byrjaði með miklum látum og strax eftir rúmlega mínútu leik átti Benteke ágætt skot að marki Arsenal eftir snarpa sókn. Rétt um mínútu síðar átti Benteke góða sendingu á Coutinho inni í vítateig og Brassinn hamraði boltanum í þverslána. Arsenal menn stálheppnir að vera ekki komnir undir strax í upphafi leiks.

Á áttundu mínútu skoraði Aaron Ramsey fullkomlega löglegt mark fyrir Arsenal eftir frábæra sendingu frá Santi Cazorla, en til allrar hamingju lyfti aðstoðardómarinn flagginu og markið var dæmt af. 

Á 23. mínútu átti James Milner skot að marki Arsenal af stuttu færi eftir góða sendingu frá Coutinho, en Petr Cech varði mjög vel. 

Á 39. mínútu varði Cech aftur, nú frá Benteke. Roberto Firmino átti þá frábæra sendingu fyrir markið og Benteke kom á fleygiferð og skaut af örstuttu færi, en Cech náði á ótrúlegan hátt að verja boltann í horn. Upp úr horninu átti Firmino ágætt skot að marki, en enn varði Cech.

Og Cech var ekki hættur að láta að sér kveða. Á síðustu andartökum hálfleiksins átti Coutinho skemmtilega syrpu inn í vítateig Arsenal sem endaði með frábæru skoti í fjærhornið. Cech náði að teygja fingurgómana í boltann og verja boltann í stöng. Stórkostleg tilþrif, bæði hjá Coutinho og Cech. 

Staðan 0-0 í hálfleik og þrátt fyrir að Arsenal hafi verið meira með boltann og skorað löglegt mark er óhætt að segja að Liverpool hafi átt mun betri færi. Virkilega góður hálfleikur hjá Liverpool.

Í síðari hálfleik var Arsenal betra liðið á vellinum og okkar menn áttu ekki mörg færi. Arsenal átti hinsvegar slatta af ágætum færum, en sem betur fer stóðst vörn okkar manna álagið.

Á 60. mínútu átti Sanchez skot í utanverða stöngina og 10 mínútum síðar átti Giroud skot af stuttu færi sem Mignolet varði mjög vel. Á 83. mínútu varði Belginn aftur mjög vel, nú frá Ramsey eftir að boltinn hafði haft viðkomu í löppunum á Lovren. Virkilega vel gert hjá Mignolet. Aðeins mínútu síðar var Martin Skrtel síðan hársbreidd frá því að setja boltann í eigið mark eftir snarpa skyndisókn Arsenal. Samt sem áður mjög góð varnarvinna hjá Slóvakanum. 

Liverpool átti ekki margar syrpur í síðari hálfleik. Á 83. mínútu átti Coutinho ágætt skot sem Cech varði út í teig og undir lokin átti Alberto Moreno góðan sprett upp allan völl, en sóknin rann út í sandinn þar sem Spánverjinn kaus að reyna að gera hlutina upp á eigin spýtur í stað þess að senda boltann á Benteke sem var kominn við hlið hans.

Lokatölur á Emirates 0-0 í kaflaskiptum, en stórskemmtilegum leik og líklega verða það að teljast ágætlega sanngjörn úrslit.

Liverpool: Mignolet, Clyne, Skrtel, Lovren, Gomez, Can, Milner, Lucas (Rossiter á 75. mín.) Coutinho (Moreno á 87. mín.), Firmino (Ibe á 63. mín.), Benteke. Ónotaðir varamenn: Bogdan, Sakho, Ings, Origi.

Gul spjöld: Skrtel, Can, Mignolet, Gomez 

Arsenal: Cech, Bellerin, Chambers, Gabriel, Coquelin (Oxlade-Chamberlain á 82. mín.), Monreal, Cazorla, Ramsey, Özil, Sanchez, Giroud (Walcott á 73. mín.). Ónotaðir varamenn: Flamini, Debuchy, Gibbs, Arteta, Ospina.

Gult spjald: Gabriel

Áhorfendur á Emirates: 60,080.-

Maður leiksins: Það er virkilega erfitt að velja mann leiksins að þessu sinni. Coutinho var besti maður leiksins fram á við og var ótrúlega óheppinn að skora ekki mark undir lok fyrri hálfleiks. Simon Mignolet var mjög góður og eins Lucas sem varði vörnina feykilega vel. Ég ætla hinsvegar að velja Martin Skrtel sem átti nokkrar lykiltæklingar í seinni hálfleik. Frábær leikur hjá Slóvakanum. 

Brendan Rodgers: Ég var ánægður með okkar leik, þegar allt er talið. Við áttum mjög góð færi í fyrri hálfleik en Petr Cech varði hvað eftir annað stórkostlega. Í síðari hálfleik snerist taflið við, en við vorum vel skipulagðir allan tímann og gáfum þeim fá færi. Þá sjaldan það gerðist þá varði Simon (Mignolet) mjög vel. 

Fróðleikur:

- Í síðustu 8 leikjum Liverpool gegn Arsenal hefur Liverpool aðeins einu sinni farið með sigur af hólmi. Það var í febrúar 2014 þegar Liverpool rótburstaði Arsenal 5-1 á Anfield.

-Í ljósi sögu undanfarinna ára má segja að jafntefli á Emirates séu góð úrslit fyrir Liverpool. Það þarf að fara allt aftur til ágústmánaðar 2011 til að fletta upp Liverpool sigri gegn Arsenal í höfuðborginni. Þá vann Liverpool 2-0 sigur, undir stjórn King Kenny. 

-Leikurinn í kvöld var einungis annar leikur Liverpool frá því að Brendan Rodgers tók við framkvæmdastjórastöðunni þar sem liðið fær ekki á sig mark gegn einu af 4 stærstu liðunum í Úrvalsdeildinni. Hinn leikurinn sem liðið hélt hreinu gegn 4 stærstu var leiktíðina 2013-2014 þegar liðið vann Manchester United 2-0. Það er eini sigur Liverpool á 4 stærstu undir stjórn Rodgers. 

-Jordan Rossiter lék í kvöld sínar fyrstu mínútur í Úrvalsdeildinni, en hann lék sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir u.þ.b. 11 mánuðum síðan í deildabikarleik gegn Middlesborough. Hann skoraði einmitt mark í þeim leik og varð þar með næst yngsti markaskorari í sögu félagsins.  




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan