| Sf. Gutt

Léttir að skora!


Hið glæsilega sigurmark Steven Gerrard gegn Queen Park Rangers kallaði fram mikinn fögnuð hjá fyrirliðanum og stuðningsmönnum Liverpool en líka létti hjá markaskoraranum. Steven hafði jú ekki löngu áður mistekist að skora úr vítaspyrnu. Hann hafði meðal annars þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.com eftir leikinn. 

,,Þetta var slakt víti hjá mér og ég er mjög vonsvikinn með það. Ég skipti um skoðun hvert ég ætlaði að skjóta í aðhlaupinu og það má vítaskytta ekki gera. Ég tek fulla ábyrgð á því en það var gaman að bæta fyrir og hjálpa liðinu að ná þremur stigum. Það skipti miklu máli fyrir okkur."

,,Kannski var ég í einhverju uppnámi því mig langaði svo mikið til að skora. Ég veit það ekki. En maður má aldrei skipta um skoðun þegar vítaspyrna er annars vegar. Ég horfði á Rob Green eins lengi og ég gat og ég hafði á tilfinningunni að hann myndi skutla sér til hægri sem sagt vinstri frá mér séð. Þess vegna skipti ég um skoðun. Ég hefði átt að hafa nógu mikla trú á sjálfum mér að ég myndi skora þótt hann færi í rétt horn."

,,Ég er mjög vonsvikinn með vítið en ánægður með skallann. Nú geta allir farið ánægðir heim því við náðum stigunum þremur."


Jú, stuðningsmenn Liverpool fóru svo sannarlega ánægðir heim eftir sigurinn og ekki spillti fyrir að Steven Gerrard skyldi skora sigurmarkið!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan