| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Liverpool fær fallkandidatana í QPR í heimsókn á morgun. Eftir hörmungar undanfarinna vikna er óskandi að okkar menn rísi upp og klári leiktíðina með sæmd.

Gengi Liverpool í apríl var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Eftir góðan sprett mánuðina þar á undan sigraði liðið aðeins 2 af 6 leikjum í aprílmánuði. Liðið datt út úr FA-bikarnum og missti líklega endanlega af Meistaradeildarlestinni með afleitri frammistöðu gegn WBA og Hull.

Pressan á Brendan Rodgers er mikil þessa dagana og margir stuðningsmenn eru komnir á „Rodgers-out" vagninn. Það er ljóst að hann finnur fyrir pressunni, rétt eins og hann viðurkenndi að hann hefði gert á aðventunni, þegar algjört svartnætti blasti við. Þá reis hann upp og náði að rífa liðið í gang.

Nú eru fjórir leikir eftir í deildinni og það verður fróðlegt að sjá hvort honum tekst að klára tímabilið með sæmd. Það mun hjálpa honum að halda starfinu, enda gefur vilji leikmanna til að standa sig og styðja sinn stjóra ákveðnar vísbendingar um ástandið í klefanum. Ef leikmenn rífa sig upp og berjast eins og menn þá er ekki víst að kallinn sé búinn að „tapa klefanum", eins og suma er óneitanlega farið að gruna. 

Miðað við frammistöðuna í síðustu leikjum er svosem alls óvíst að nokkuð fáist út úr þeim fjórum leikjum sem eftir eru í deildinni. Þetta eru þó leikir sem liðið ætti vel að geta unnið ef menn mæta almennilega einbeittir til leiks. QPR er auðvitað sýnd veiði en ekki gefin, því liðið er í bullandi fallbaráttu og kemur því örugglega gríðarlega grimmt til leiks á morgun. Reyndar hefur það sýnt sig rækilega í síðustu leikjum að engin veiði er „gefin" fyrir Liverpool eins og staðan er í dag, en það er önnur saga og sorglegri.

Hinir þrír leikirnir eru gegn Chelsea, sem verður búið að tryggja sér sigur í deildinni, Stoke og Crystal Palace, en tvö síðastnefndu liðin eru um miðja deild og hafa ekki að miklu að keppa. Það er þessvegna fullkomlega eðlileg krafa að ætlast til þess að Liverpool taki fullt hús stiga úr þessum leikjum, en hvort það er raunhæf krafa er svo aftur allt annað mál.

Erkifjendur okkar í Manchester United, sem við ætluðum að ryðja úr 4. sætinu, eiga eftir að mæta WBA, Crystal Palace, Arsenal og Hull og það verður að segjast alveg eins og er að það er afar ólíklegt að þeir tapi þeim 7 stigum sem við þurfum að vinna á þá í þessum viðureignum. Þannig að niðurstaða Liverpool í ár er að öllum líkindum 5.-7. sæti. Sem eru auðvitað vonbrigði, eftir velgengnina á síðustu leiktíð, en því miður ekki svo langt frá meðalárangri Liverpool hin síðari ár.

Lucas Leiva og Steven Gerrard eru báðir leikfærir og verða nokkuð örugglega í hópnum á morgun. Hinsvegar eru Sakho og Balotelli báðir meiddir. Fjarvera Sakho hefur reynst okkur dýr í vetur, en við getum ekki annað en fagnað fjarveru Balotelli. Hann spilaði nær örugglega sinn síðasta leik, gegn Hull á þriðjudaginn. Slík var frammistaðan.

Tölfræðin segir okkur að þegar Balotelli er í byrjunarliðinu nær Liverpool að meðaltali í 0,9 stig í leik. Þegar Balo er ekki í liðinu fær liðið að meðaltali 2,04 stig í leik. Takk og bless.

Jon Flanagan, sem var um það bil að komast á ferðina í lok mars, er síðan kominn aftur undir hnífinn og verður frá í 6-9 mánuði. Það eru hrikalegar fréttir og alveg ljóst að það þarf að kaupa öflugan mann í hans stað fyrir næstu leiktíð.

Það er ómögulegt að segja hvernig Brendan stillir liðinu upp á morgun. Ég vona þó að hann gefi Sterling frí, sá drengur má alveg setjast á bekkinn og hugsa sinn gang. Þá vona ég að yngri mennirnir fái að spreyta sig, til dæmis væri gaman að sjá Samed Yesil í liðinu og eins Brannagan sem sat sem fastast á bekknum gegn Hull.

Ég held að þriggja manna vörnin verði að duga okkur út leiktíðina, hún hefur einfaldlega gefist betur en fjögurra manna línan. Ef Lucas kemur inn í byrjunarliðið á morgun þá fær varnarlínan líka meira öryggi og skjól.

Svo er spurning hver fær að byrja á toppnum. Daniel Sturridge er á til Bandaríkjanna í allsherjarskoðun hjá læknaliði Boston Red Sox, þannig að hann er enn eina ferðina meiddur og ekki í hóp. Ég myndi veðja á Coutinho, það hefur áður gefist vel, en kannski fær Yesil sjénsinn, eða jafnvel Lambert kallinn.

Ég er bjartsýnn að eðlisfari og hef frá því í ágúst verið sannfærður um að við myndum ná 4. sætinu í vor. Ég verð að viðurkena að sú von er að dofna, en ég leyfi mér samt ennþá að dreyma. Enda er ekkert gaman að þessu ef maður gerir það ekki. Ég spái 3-0 sigri okkar manna á morgun og mér segir svo hugur að Markovic, Ibe og Yesil skori mörkin. Why the hell not?

YNWA!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan