| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool sækir WBA heim í ensku deildinni á morgun. Sigur í leiknum heldur lífi í veikri von um Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð.

Þótt WBA sé dálítið fyrir neðan okkar menn á töflunni þá þarf ekki að fara mörgum orðum um það að liðið er sýnd veiði en ekki gefin. Við skulum ekki gleyma því að Tony Pulis er stjóri WBA og staðan er einfaldlega þannig að lið undir hans stjórn hafa aldrei tapað Úrvalsdeildarleik á heimavelli fyrir Liverpool, sem er náttúrlega alveg ferleg staðreynd.

Brendan Rodgers hefur heldur ekki gengið allt of vel með WBA síðan hann tók við Liverpool. Okkur er sjálfsagt öllum enn í fersku minni fyrsti leikur Liverpool í deildinni undir stjórn Rodgers, þann 18. ágúst 2012. Þá mættu okkar menn vígreifir á The Hawthorns, en urðu að sætta sig við 3-0 tap fyrir heimamönnum, sem þá léku undir stjórn Steve Clarke fyrrum starfsmanns Liverpool. Þegar allt er talið hefur Liverpool undir stjórn Rodgers mætt WBA fimm sinnum og þrisvar sinnum hefur WBA farið með sigur af hólmi. 

WBA sigraði Crystal Palace 2-0 um síðustu helgi, eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð þar á undan. Liverpool þarf að hrista af sér vonbrigðin að tapa fyrir Aston Villa í undanúrslitum FA bikarsins og eins þarf liðið að koma sér í gang í deildinni á nýjan leik, en töpin tvö gegn Manchester United og Arsenal hafa gert baráttuna um 4. sætið heldur erfiðari en útlit var fyrir á tímabili. Jafnvel þótt sigur hafi unnist á Newcastle 13. apríl þá var sá sigur kannski ekkert voðalega sannfærandi, því norðanmenn virðast afskaplega lítil fyrirstaða þessa dagana.

Mamadou Sakho, Lucas Leiva og Daniel Sturridge eru allir á meiðslalistanum, eins og stundum áður, en góðu fréttirnar eru þær að bæði Adam Lallana og Jon Flanagan eru um það bil að verða leikfærir. Flanagan spilaði nokkrar mínútur í góðgerðarleik Steven Gerrard um mánaðamótin, en hefur enn ekki fengið grænt ljós á að spila alvöru leik. Vonandi verður hann í hópnum á morgun, ekki veitir okkur af alvöru varnarjaxli. Tala nú ekki um ef Rodgers fer að nota fjögurra manna vörn aftur.

Það hafa verið fjörugar umræður um framtíð og frammistöðu Brendan Rodgers hjá Liverpool á samfélagsmiðlum og víðar í kjölfar tapsins gegn Aston Villa um helgina.

Það er ljóst að eftir frábæra leiktíð 2013-2014 er yfirstandandi tímabil hrein og klár vonbrigði. Frammistaðan í Meistaradeildinni og síðar Evrópudeildinni var til háborinnar skammar og staða liðsins í Úrvalsdeildinni er ekki nægilega góð. Ljósið í myrkrinu hjá mörgum var draumurinn um að spila úrslitaleik í FA bikarnum á afmælisdegi Steven Gerrard, en sá draumur varð að engu á sunnudaginn. 

Ég hef verið harður stuðningsmaður Brendan Rodgers og það hefur ekkert breyst þrátt fyrir rysjótt gengi í vetur. Ég trúi því líka enn, líkt og ég hef gert í allan vetur, að liðið muni enda á topp 4 í vor.

Auðvitað hefur Rodgers gert óþarflega mikið af mistökum í vetur og í raun fallið á hverju prófinu á fætur öðru, en ég trúi því að hann læri af mistökunum og haldi áfram að byggja liðið upp í kringum sína hugmyndafræði. Stærstu mistökin voru að mínum dómi að kaupa ekki annan striker en Balotelli s.l. sumar. Að fara úr því að vera með einn besta striker í heimi yfir í það að vera með ítalskt ólíkindatól var gríðarleg afturför og í raun heimskulegur sjéns að taka. Fabio Borini og Rickie Lambert teljast síðan ekki með þegar rætt er um framherja. 

Flest önnur sumarkaup Rodgers má svosem réttlæta, nema kannski Dejan Lovren. Hann hefur ekki getað nokkurn skapaðan hlut og það eru einhvernveginn engar líkur á að að það muni breytast. Því miður. Þá hefur ekki mikið komið út úr Rickie karlinum Lambert. Ungu strákarnir Moreno, Can og Markovic verða sjálfsagt allir ágætis fótboltamenn og eins hef ég trú á að Adam Lallana geti orðið okkur drjúgur. 

Það má segja að Rodgers sé talsverð vorkunn að kaupin á Lovren skyldu klikka svona algjörlega. Þar átti að vera kominn framtíðarleiðtogi í vörninni - og frammistaða hans með Southampton og króatíska landsliðinu gat alveg bent til þess. En hann hefur gert afdrifarík mistök í svo að segja hverjum einasta leik karlgreyið. 

Þá hefur það heldur ekki hjálpað okkur hversu slappur Steven Gerrard hefur verið í vetur. Hann er engan veginn sami leikmaður og hann var á síðustu leiktíð, hvað þá árin þar á undan. Rodgers fór inn í leiktíðina með það plan að hann hefði bæði leiðtoga í vörninni (Lovren) og aftast á miðjunni (Gerrard), en báðir hafa brugðist algjörlega. Þegar endalaus meiðsli Sturridge bætast ofan á þessi vonbrigði, þá er ekki við miklu að búast. 

Mitt glas er þrátt fyrir allt ennþá hálffullt og vel það. Ég vil að Rodgers fái tíma til að halda áfram að byggja upp skemmtilegt og samkeppnishæft fótboltalið. Ég trúi því að við náum að leggja Tony Pulis og co. á morgun og halda þannig lífi í draumnum um topp 4 í vor. Ég ætla að spá 1-3 sigri Liverpool í hörkuleik.

YNWA!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan