| Grétar Magnússon

Bragðdauft jafntefli

Liverpool og Blackburn skildu jöfn 0-0 á Anfield í 8-liða úrslitum FA bikarsins. Leikurinn var frekar bragðdaufur og greinileg þreytumerki á mörgum leikmönnum heimamanna.

Rodgers gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Í byrjunarliðið komu þeir Glen Johnson og Lazar Markovic í stað Alberto Moreno sem settist á bekkinn og Joe Allen sem meiddist á æfingu fyrir leik.

Eftir aðeins tveggja mínútna leik gerðist alvarlegt atvik er Martin Skrtel lenti illa eftir að hafa farið upp í skallaeinvígi við Rudy Gestede sóknarmann Blackburn. Skrtel lá á vellinum og virtist meðvitundarlaus. Stumrað var yfir honum í tæpar 10 mínútur og fljótlega kom í ljós að meiðslin voru ekki eins alvarleg og í fyrstu var talið. Skrtel var meira að segja frekar óhress með að vera skipt útaf en í hans stað kom Kolo Toure í vörnina.

Við það að sjá samherja liggja óvígan eftir var eins og allur vindur væri úr leikmönnum Liverpool og það gerðist ekki mikið markvert í fyrri hálfleik. Gestirnir voru fastir fyrir og lágu aftarlega. Þeir fengu besta færi fyrri hálfleiks þegar einn leikmanna þeirra var óvaldaður hægra megin í vítateignum en skot hans hitti ekki á markið. Heimamenn vildu fá vítaspyrnu þegar brotið var á Adam Lallana inní vítateig en dómari og aðstoðardómari litu svo á að varnarmaðurinn hefði náð til boltans fyrst en í endursýningu mátti sjá að svo var ekki. Mark var svo dæmt af Kolo Toure vegna rangstöðu og var það réttilega dæmt. Eftir átta mínútur af uppbótartíma var svo flautað til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var ekki mikið betri fyrir augað en sá fyrri. Mario Balotelli kom inná á 59. mínútu. Á sömu mínútu átti Coutinho aukaspyrnu sem fór á kollinn á Toure í teignum en laus skalli hans fór í stöngina og framhjá, þar hefði Toure átt að gera betur. Fleiri hálffæri heimamanna litu dagsins ljós það sem eftir lifði leiks en allur leikur liðsins bar þess merki að leikmenn væru hálf þreyttir. Sendingar rötuðu ekki rétta leið og lítil hreyfing var á mönnum án bolta. Gestirnir ógnuðu lítið í seinni hálfleik og voru sáttir með sinn hlut þegar flautað var til leiksloka. Þeir áttu þó eitt hættulegt færi í þeim seinni þegar skalli frá Baptiste eftir hornspyrnu var glæsilega varinn af Mignolet. Ljóst er að endurtaka þarf leikinn á heimavelli þeirra, eitthvað sem þeir stefndu sennilega að fyrir leik.

Liverpool: Mignolet, Johnson, Skrtel (Toure, 11. mín.), Lovren, Markovic (Balotelli, 59. mín.), Sterling, Can, Henderson, Coutinho, Lallana, Sturridge. Ónotaðir varamenn: Ward, Moreno, Sakho, Williams, Lambert.

Gult spjald: Can.

Blackburn: Eastwood, Henley, Baptiste, Kilgallon, Olsson, Williamson, Evans, Conway, Cairney, Marshall (Taylor, 68. mín.), Gestede. Ónotaðir varamenn: Steele, Spurr, Brown, Rhodes, Henry, Lenihan.

Gult spjald: Cairney.

Áhorfendur á Anfield: 43.820.

Maður leiksins: Simon Mignolet. Það eru ekki margir sem koma til greina að þessu sinni en þegar liðið er ekki að spila vel er mikilvægt að halda hreinu og Belginn gerði það í enn eitt skiptið á leiktíðinni. Frábær markvarsla í seinni hálfleik og almennt öryggi í vítateignum skipti máli í þessum leik.

Brendan Rodgers: ,,Auðvitað vildum við komast áfram, en í dag héldum við hreinu gegn liði sem getur verið skeinuhætt, sérstaklega úr föstum leikatriðum og löngum boltum inní vítateig. Mér fannst við almennt verjast vel. Við eigum enn séns á því að komast í undanúrslitin. Auðvitað vill maður ná því í fyrstu tilraun en nú höfum við nægan tíma til að undirbúa okkur. Þetta átti því miður ekki fyrir okkur að liggja í dag."

Hér má sjá myndir úr leiknum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan