| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Fyrir dyrum er leikur í 8-liða úrslitum FA bikarsins gegn Blackburn Rovers. Leikið er á Anfield og verður flautað til leiks kl. 16:00 sunnudaginn 8. mars.

Eins og flestir vita eru Blackburn í næst efstu deild en þeir féllu úr úrvalsdeild vorið 2012 eftir 11 ára veru þar. Þeir eru sem stendur í 10. sæti deildarinnar með 48 stig og markatöluna 0. Eiga þeir í raun lítinn séns á því að ná í úrslitakeppnina í vor og ekki er heldur líklegt að þeir sogist niður í fallbaráttu þannig að segja má að þeir sigli lygnan sjó í deildinni.

Á leið sinni í 8-liða úrslitin hafa þeir sigrað tvö úrvalsdeildarlið. Þeir byrjuðu keppnina með sigri á útivelli gegn Charlton 1-2. Í fjórðu umferð mættu þeir svo Swansea á heimavelli og sigruðu 3-1. Í síðustu umferð unnu þeir svo sannfærandi 4-1 sigur á Stoke City. Það er því ljóst að þeir verða erfiðir viðureignar á Anfield og mæta klárlega með gott sjálfstraust í leikinn.

Stjóri liðsins er Gary Bower en hann er kannski ekki þekktasti stjórinn á Bretlandseyjum. Bower byrjaði feril sinn hjá Blackburn sem þjálfari U-18 ára liðsins árið 2004 og árið 2008 var hann gerður að stjóra varaliðsins. Í desember 2012 tók hann svo við stjórnartaumunum hjá aðalliði félagsins eftir að Henning Berg var sagt upp störfum. Liðið vann sinn fyrsta leik undir hans stjórn 3-1 og skömmu síðar var tilkynnt að Bower myndi stjórna liðinu út janúarmánuð. Michael Appleton var svo ráðinn stjóri liðsins en hann var ekki lengi við stjórnvölinn og Bower tók aftur við stjórn liðsins í mars árið 2013. Þann 24. maí sama ár var hann svo ráðinn stjóri félagsins til næstu 12 mánaða að minnsta kosti. Undir hans stjórn missti liðið naumlega af sæti í umspili deildarinnar á síðasta tímabili en félagið endaði í 8. sæti. Tveir leikmenn eru markahæstir hjá liðinu á tímabilinu, þeir Jordan Rhodes og Rudy Gestede með 13 mörk, báðir leikmenn eru framherjar og því má segja að þeir hafi verið ágætlega iðnir við kolann það sem af er.

Liðin hafa 11 sinnum mæst í FA bikarnum í sögunni. Fyrst mættust liðin á því herrans ári 1899 í fyrstu umferð keppninnar og sigruðu Liverpool menn 1-0. Síðast mættust liðin í þessari keppni fyrir rúmlega 15 árum síðan, þann 10. janúar árið 2000 í fjórðu umferð á Anfield. Þá sigruðu Blackburn 0-1 með marki frá Nathan Blake á 84. mínútu. Steven Gerrard spilaði allan leikinn og er hann auðvitað eini leikmaður liðsins sem enn er í leikmannahópnum síðan þá. Alls hafa Liverpool unnið 5 viðureignir liðanna í þessari keppni, Blackburn unnið 4 og tvisvar hafa liðin skilið jöfn og þurft að leika á ný.

Síðast þegar liðin mættust á Anfield endaði leikurinn með 1-1 jafntefli þar sem Maxi Rodriguez skoraði eina mark heimamanna en mark gestanna var sjálfsmark frá Charlie Adam. Leikurinn fór fram þann 26. desember árið 2011.

En snúum okkur að Liverpool liðinu sem hefur verið að spila glimrandi vel undanfarnar vikur. Steven Gerrard og Mamadou Sakho eru sagðir vera líklegir til að snúa aftur í leikmannahópinn eftir meiðsli, líklegast verða þeir þó báðir á bekknum að þessu sinni. Okkar menn hafa ekki tapað leik síðan í desember og unnið síðustu fimm heimaleiki. Síðast mistókst liðinu að skora á heimavelli í 0-0 jafntefli gegn Bolton en vonandi verður ekki það sama uppá teningnum að þessu sinni í bikarkeppninni. Ljóst er að liðið sem vinnur þennan leik mun spila til undanúrslita á Wembley og því er til mikils að vinna. Margir vilja meina að hér sé um að ræða skyldusigur en enginn leikur er þannig í enska bikarnum eins og allir ættu að vita.

Spáin er svona að þessu sinni. 3-1 sigur verður niðurstaðan þar sem gestirnir skora fyrsta markið en lengra komast þeir ekki. Sigur í þessari keppni er eitthvað sem allir innan félagsins vilja ná og eitt skref verður stigið nær því takmarki á sunnudaginn kemur !

Fróðleikur:

- Sem fyrr er Steven Gerrard markahæstur leikmanna liðsins á tímabilinu með 10 mörk.

- Raheem Sterling hefur þó jafnað fyrirliðann en hann er einnig með 10 mörk á tímabilinu.

- Í bikarkeppninni hefur Gerrard skorað 2 mörk en þeir Raheem Sterling, Philippe Coutinho og Daniel Sturridge 1 mark hver.

- Þeir Jordan Henderson, Simon Mignolet, Philippe Coutinho, Lazar Markovic, Emre Can og Mamadou Sakho hafa allir spilað þá fjóra leiki sem búnir eru í keppninni til þessa.

- Liverpool hafa unnið FA bikarinn sjö sinnum í sögu félagsins.

- Síðasti bikar vannst árið 2006 eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni við West Ham.

- Síðast fór liðið í úrslit árið 2012 en tapaði þar fyrir Chelsea.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan