| Heimir Eyvindarson

Frægur fyrir leik

Þór Bæring Ólafsson útvarpsmaður á K100 og ferðafrömuður hjá Gaman Ferðum er mikill poolari. Hann heldur reyndar líka með Leyton Orient, en það er önnur saga.

Þór Bæring hefur kynnst stemningunni á Anfield af eigin raun, enda hefur hann skipulagt ófáar ferðirnar þangað með fyrirtæki sínu Gaman Ferðum. Hann segir (eins og reyndar allir viti bornir menn) að stemningin á Anfield sé engu lík.

Þór hefur lengi haldið með Liverpool, en hefur jafnframt vakið mikla athygli í sparkheiminum fyrir að halda með þriðju deildar liði Leyton Orient, en þeir eru ekki margir Íslendingarnir sem halda með því ágæta liði. Ást hans á Leyton hefur þó í engu breytt ást hans á Liverpool. 

Þór Bæring er frægur fyrir leik að þessu sinni.

Hvenær byrjaðir þú að halda með Liverpool?
Ég byrjaði að fylgjast með Liverpool þegar ég var bara smá putti. Jón Óli, stóri bróðir, er maðurinn á bakvið þennan áhuga minn á Liverpool en hann er mikill stuðningsmaður liðsins. Hann var meðal annars einn af stofnendum Liverpool klúbbsins á Íslandi á sínum tíma og fyrsti formaður klúbbsins.

Hvaða leikmaður í Liverpool sögunni er í mestu uppáhaldi hjá þér?
Ian Rush er minn maður. Varð þess heiðurs aðnjótandi að hitta hann fyrir nokkrum árum. Algjör eðaldrengur þar á ferðinni.

Hver er í mestu uppáhaldi af núverandi leikmönnum liðsins?
Það er eitthvað við Martin Skrtel. Algjör nagli.

Ef þú mættir kaupa einn leikmann að eigin vali til Liverpool, hvern myndirðu þá kaupa?

Ég held að það sé málið að kaupa Steven Gerrard frá LA Galaxy.

Hvernig fer leikurinn gegn Burnley á morgun?
Ég held að þetta verði eitthvað basl. Það virðist oft vera þannig með Liverpool að það gengur vel á móti þessum "stóru" liðum en síðan detta þeir niður á móti svokölluðum "minni" liðum. Það er bara þannig í enska boltanum að allir leikir eru erfiðir. Það er ekkert gefið í þessu. Það er líka það sem gerir þennan enska bolta svona skemmtilegan. Eigum við ekki að segja 3-2 fyrir Liverpool. Sigurmarkið kemur með skalla frá Skrtel á lokamínútu leiksins eftir hornspyrnu.

Í hvaða sæti endar Liverpool í vor?
Þetta verður mikil barátta milli Liverpool, Arsenal, Manchester United og Tottenham um þriðja og fjórða sætið í deildinni. Ég held samt á endanum að Liverpool endi í fjórða sætinu.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan