| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Liverpool tekur á móti Englandsmeisturum Manchester City á Anfield í hádeginu á morgun. Eins og í öllum leikjum okkar manna þessa dagana er ansi mikið í húfi.

Liverpool er á góðri siglingu í deildinni þessa dagana og er raunar það lið í deildinni sem hefur staðið sig best á nýja árinu. Er enn ósigrað í Úrvalsdeild 2015. Þrátt fyrir það er liðið enn heilum 10 stigum á eftir City, enda var stigasöfnun okkar manna ekki mikil fyrir áramót. Englandsmeistararnir eiga enn bullandi sjéns á því að vinna deildina, eru í 2. sæti 5 stigum á eftir Chelsea. Lið City er líka það lið í deildinni sem getur státað af besta árangri á útivöllum í vetur. Liðið hefur einungis tapað einum leik að heiman, gegn West Ham í október. 

Liðin mættust á Etihad í lok ágúst og þá sigraði City nokkuð örugglega 3-1. Óþarfi að eyða frekari orðum í þann leik. Á Anfield hefur Liverpool hinsvegar gengið vel með bláklædda Manchester liðið, en það þarf að fara aftur til 2003 til að fletta upp á síðasta sigri Manchester City á Anfield. Þess má geta að Nicolas Anelka fyrrum leikmaður Liverpool skoraði 2 mörk fyrir City í þeim leik. 

Sú viðureign Liverpool og City sem okkur er líklegast í ferskustu minni er 3-2 sigurinn stórkostlegi á Anfield síðasta vor, en eftir þann sigur var Liverpool í lykilstöðu í Úrvalsdeildinni. 

Þegar sagan er skoðuð er sá leikur merkilegur fyrir fleiri sakir en þær að með sigrinum hafði Liverpool örlög sín í eigin höndum. Það kom líka í ljós að liðið getur illa án Jordan Henderson verið, eins og sást í Tyrklandi á fimmtudaginn. Henderson fékk rautt spjald á lokamínútunum í leiknum gegn City og var ekki með í viðureignunum örlagaríku gegn Chelsea og Crystal Palace. Ljóst er að liðið saknaði vinnusemi hans í þeim leikjum. 

Þá segir Daniel Agger fyrrum leikmaður Liverpool í dönskum fjölmiðlum í dag að hann hafi tekið endanlega ákvörðun um að yfirgefa Liverpool í sumar, þegar Brendan Rodgers setti hann á bekkinn í leiknum gegn City. 

En hvað um það. Hið liðna er liðið og ekki orð um það meir. Eitt af því liðna sem svo sannarlega væri gott að gleyma sem fyrst er leikurinn gegn Besiktas á fimmtudaginn. Ég ætla svosem ekki að eyða mörgum orðum í þann leik, en það er alveg ljóst að það er engin óskastaða að mæta Englandsmeisturunum svo skömmu eftir að hafa leikið 120 mínútur í ljónagryfjunni þar suðurfrá.

Brendan Rodgers er þrátt fyrir það öruggur með sig að vanda og segir að engin andleg þreyta eigi að sitja í leikmönnum. Þeir séu vissulega svekktir yfir því að vera dottnir út úr Evrópudeildinni en liðið muni ekki dvelja við þau vonbrigði. Hinsvegar segist stjórinn hafa áhyggjur af líkamlegu ástandi liðsins, enda hefur leikjaálagið verið ansi mikið að undanförnu.

Steven Gerrard og Lucas eru enn frá vegna meiðsla og ekki er enn víst hvort Sakho og Henderson verða orðnir leikfærir. Philippe Coutinho, sem fékk að vera heima og hvíla sig meðan liðsfélagarnir fóru til Istanbul, ætti hinsvegar að vera sprúðlandi ferskur og verður örugglega í byrjunarliðinu. Sama staðan ætti að vera á Lazar Markovic sem er í leikbanni í Evrópukeppnum.

Balotelli, fyrrum leikmaður City, gæti verið góður kostur í byrjunarliðið á morgun, en hann spilaði bara rúmar 80 mínútur gegn Besiktas. Daniel Sturridge spilaði aftur á móti fram í framlengingu og Raheem Sterling heilar 120 mínútur þannig að þeir gætu verið þreyttir, sérstaklega Sturridge sem er ekki enn kominn í almennilega leikæfingu. Þeir SAS félagar voru reyndar báðir svo hörmulega lélegir frammi á fimmtudaginn að það væri líklega bara fínt að láta þá byrja á bekknum á morgun. Svo er kannski stóra spurningin hvort Dejan Lovren, sem virðist hafa vaxið í áliti hjá stuðningsmönnum Liverpool við það að klúðra vítinu á fimmtudaginn, heldur sæti sínu í liðinu. Þá væntanlega á kostnað Emre Can sem virkaði ansi fótafúinn síðustu mínúturnar í Tyrklandi. 

Hvernig sem Rodgers stillir upp liðinu á morgun þá er alveg ljóst að þetta verður hörkuleikur. Með sigri er Liverpool í góðum málum á baráttunni um 4. sætið. jafnvel 2. sætið, ef út í það er farið. Með jafntefli eða tapi verður vissulega erfiðara að ná því marki, en alls ekki ómögulegt. Ég hef reyndar haldið því statt og stöðugt fram í allan vetur að Liverpool myndi ná a.m.k. 4. sæti í vor, þannig að ég fer ekki að breyta þeirri spá þótt ekkert stig fáist á morgun.

Það er kannski ekki raunhæft að ætla okkar mönnum að ná sigri gegn ríkjandi meisturum á morgun, eftir erfiðan leik á fimmtudaginn, langt ferðalag og alltof litla hvíld. Ég held hinsvegar að það verði ekkert mál hjá leikmönnum Liverpool að koma sér í rétta gírinn, þrátt fyrir að einhver þreyta sitji örugglega í mannskapnum. Ég ætla að vera óþægilega bjartsýnn og spá 3-1 sigri á morgun. Eigum við ekki að segja að Mario Balotelli fylgi góðu fordæmi Luis Suarez frá því á þriðjudaginn og setji tvö mörk á City og Dejan Lovren skori það þriðja. 

YNWA!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan