| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool mætir West Ham á Anfield á morgun. Liðin eru hlið við hlið í deildinni og því útlit fyrir hörkuleik. Sannkallaðan 6 stiga leik. 

Brendan Rodgers ætti að geta stillt upp nokkuð sterku liði, fyrir utan Mamadou Sakho sem meiddist í leiknum gegn Chelsea á þriðjudaginn. Helst er reiknað með að Dejan Lovren taki stöðu Sakho í vörninni. Stóru tíðindin eru svo vitanlega þau að væntanlega verður Daniel Sturridge í hópnum í fyrsta sinn síðan í ágúst. 

West Ham byrjaði leiktíðina afar vel og var lengi vel á topp 4. Liðið situr sem stendur í 7. sæti deildarinnar með 36 stig eftir 22 leiki. Einu stigi og einu sæti fyrir ofan Liverpool. Í fyrri leik liðanna á Upton Park fóru lærisveinar Sam Allardyce með 3-1 sigur af hólmi í heldur döprum leik af hálfu okkar manna. Eina ljósið var glæsimark Raheem Sterling og kannski ekki síður tignarlegt hopp Mario Balotelli. Einhver bestu tilþrif Ítalans í Liverpool búningnum, sem er umhugsunarefni í sjálfu sér.

Það hefur heldur hallað undan fæti hjá West Ham að undanförnu og að sama skapi eru okkar menn í allt öðrum fasa en þeir voru 20. september, þegar liðin mættust í Lundúnum. Liverpool er ósigrað í síðustu sex leikjum í deildinni og allt annað að sjá til liðsins heldur en í haust.

Blessuð sagan er auðvitað í liði með Liverpool, eins og svo oft áður. West Ham hefur ekki unnið leik á Anfield síðan 1963. Tapað 30 sinnum og 11 sinnum gert jafntefli. Í síðustu 29 viðureignum liðanna á Upton Park hefur West Ham einungis skorað 7 mörk, þannig að sagan segir eiginlega að West Ham sé óhætt að kasta inn handklæðinu strax í dag. 

En sagan hjálpar okkur auðvitað ekki neitt á morgun. Leikmenn Liverpool eru sjálfsagt örþreyttir bæði andlega og líkamlega eftir viðureignina við Chelsea á þriðjudaginn og þar við bætist að West Ham liðið er á sínu besta skriði í manna minnum. 

Jafnvel þótt Daniel Sturridge komi eitthvað við sögu á morgun þá verður að teljast afar ólíklegt að hann láti mikið að sér kveða. Hann hefur verið frá í fimm mánuði og ekki óeðlilegt að það taki hann nokkra leiki að koma sér í form.

Ég er eiginlega skíthræddur við þennan leik. West Ham liðið er á ágætu róli, þótt vissulega sé ekki sami spretturinn á þeim og þegar við mættum þeim síðast. Liðið skorar mikið af skallamörkum, flest allra í deildinni (14) og það veit sá sem allt veit að okkar menn eru ekki þeir bestu þegar kemur að því að verjast í loftinu. Tala nú ekki um þegar Sakho er ekki með. Ég er hræddur um að það verði fremur andlaust Liverpool lið sem mætir til leiks á Anfield á morgun, en ég get ekki með nokkru móti fengið það af mér að spá Liverpool tapi. Niðurstaðan verður 1-1 jafntefli í bragðdaufum leik. 

YNWA!  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan