| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool ferðast til Kingston Upon Thames annað kvöld og mætir fjórðu deildar liðinu AFC Wimbledon í FA bikarnum.

AFC Wimbledon er fyrir margra hluta sakir merkilegt lið. Liðið er stofnað árið 2002 af óánægðum stuðningsmönnum Wimbledon FC, sem margir muna eftir -"The Crazy Gang"-, eins og liðið var jafnan nefnt, enda með Vinnie Jones og fleiri snillinga í sínum röðum. Liðið er eina knattspyrnuliðið sem tekur þátt í deildakeppni á Englandi sem er stofnað á þessari öld.

Gamla Wimbledon liðið, Wimbledon FC, var staðsett í suðvestur hluta Lundúnaborgar og allt frá því að lög um að áhorfendur á fótboltaleikjum mættu ekki lengur standa upp á endann voru sett í upphafi 10. áratugarins var félagið á hálfgerðum hrakhólum. Lengi vel deildi félagið heimavelli með nágrönnum sínum í Crystal Palace, en það gat ekki gengið endalaust.

Til að gera langa sögu stutta urðu miklir fjárhagserfiðleikar og vandræði með heimavöll til þess að árið 2002 var ákveðið að liðið færði sig um set til Milton Keynes, sem er í 70-80 km. fjarlægð frá London. Við þessa ráðstöfun urðu til tvö félög. Annarsvegar Milton Keynes Dons, sem er í raun gamla Wimbledon liðið, og hinsvegar AFC Wimbledon, sem var stofnað af óánægðum stuðningsmönnum Wimbledon FC, sem leist engan veginn á að þvælast lengst út í sveit á fótboltaleiki.

AFC Wimbledon er þessvegna alveg nýtt lið og getur ekki státað sig af því að hafa mætt Liverpool í FA bikarnum áður, en stærsta stund ,,The Crazy Gang" kom einmitt í úrslitum FA bikarsins árið 1988 þegar liðið lagði Liverpool að velli 1-0. Í þeim leik varð fyrirliði Wimbledon FC, Dave Beasant, fyrstur markvarða til þess að verja víti í úrslitaleik bikarkeppninnar. Vítið tók enginn aukvisi, sjálfur markahrókurinn John Aldridge.  

AFC Wimbledon hefur náð undraverðum árangri á skömmum líftíma sínum og hefur fært sig upp um fimm deildir á þeim fáu árum sem liðið hefur verið með í deildakeppninni á Englandi.

Liðið spilar heimaleiki sína á pínulitlum velli, Kingsmeadow í Kingston Upon Thames - sem er úthverfi London. Völlurinn tekur rúmlega 4000 manns í sæti og félagið deilir honum með utandeildarliðinu Kingstonian. Framkvæmdastjóri liðsins er fyrrum leikmaður Wimbledon FC, Neal Ardley, og honum til aðstoðar er Neil Cox sem lék á árum áður með Watford, Middlesborough og fleiri félögum.

Það er gaman að geta þess að þótt AFC Wimbledon hafi í sjálfu sér enga aðra tengingu við gamla Wimbledon FC liðið en nafnið og stuðningsmennina þá eru ekki síður skrautlegir karakterar í "nýja" Wimbledon liðinu en í gamla Crazy Gang liðinu. Tveir liðsmenn félagsins voru fyrr á þessu ári dæmdir fyrir þátttöku sína í getraunasvindli, sem teygir anga sína alla leið austur til Singapore, og síðan státar félagið af sterkasta leikmanninum í FIFA 15. Semsagt líkamlega sterkasta, ekki besta.

Sá kappi heitir Adebayo Akinfenwa og er 32 ára gamalt skrímsli. Hann er rúm 100 kíló að þyngd og tekur 180 kíló í bekk! Akinfenwa er striker og hefur skorað 7 mörk í 21 leik fyrir AFC Wimbledon. Hann þykir algjör skriðdreki á velli - en hefur milt og fallegt bros. Hann er ansi skrautlegur karakter og á til dæmis sína eigin fatalínu; Beast Mode on.

En víkjum þá sögunni að okkar mönnum. Það hefur fátt verið rætt undanfarna daga í fótboltaheiminum annað en fyrirhugað brotthvarf Steven Gerrard næsta sumar. Blaðamannafundur Brendan Rodgers í gær vegna leiksins við AFC Wimbledon snerist til dæmis svo að segja eingöngu um fyrirliðann.

Það verður verðugt verkefni fyrir Brendan Rodgers að fá leikmenn sína til þess að einbeita sér að fullu að verkefninu annað kvöld og taka athyglina frá Steven Gerrard og tilvonandi brottför hans. Það þarf ekki að fjölyrða um það að þegar í bikarkeppni er komið þá eru allir leikir úrslitaleikir og það þarf að mæta af fullum krafti í hvern einasta leik. Vitanlega gera leikmennirnir sér fulla grein fyrir þessari einföldu staðreynd, en það getur samt verið erfitt að finna rétta gírinn. Það þekkjum við stuðningsmenn Liverpool allt of vel.

Úrslitaleikurinn í FA bikarnum fer fram 30. maí n.k. Á afmælisdegi Steven Gerrard. Á spjallsíðum má sjá að stuðningsmenn Liverpool eru nú þegar farnir að láta sig dreyma um að fyrirliðinn ástsæli endi ferilinn á því að hefja FA bikarinn á loft á afmælisdaginn. Liðsfélagar Gerrard - og hann sjálfur - láta sig örugglega líka dreyma um það. Vissulega yrði það stórkostleg og viðeigandi kveðjustund, en það er löng leið þangað. Fyrst þarf að mæta á Kingsmeadow með hausinn skrúfaðan rétt á.

Það er því miður orðið nokkuð ljóst að Steven Gerrard nær ekki að vinna deildina með Liverpool og ekki vinnum við Meistaradeildina í ár, svo mikið er víst. Þá er FA bikarinn þriðji kosturinn, en Gerrard hefur aðeins einu sinni nælt í þann eftirsótta bikar. Það var vorið 2006, þegar Liverpool lagði West Ham að velli á Millenium Stadium, eftir framlengingu og vítakeppni. Fyrirliðinn fór á slíkum kostum í þeim leik að leikurinn er jafnan nefndur "The Gerrard Final".  Vonandi tekst okkar mönnum að komast skrefinu nær næsta "Gerrard Final" með góðri frammistöðu annað kvöld.

Það er ekki gott að segja hvernig Brendan Rodgers stillir upp liðinu gegn AFC Wimbledon á morgun. Sjálfsagt fá einhverjir kærkomna hvíld eftir jólatörnina, til dæmis Coutinho, Lallana og Sterling. Eins er alveg eins líklegt að Gerrard verði á bekknum til að byrja með. Reyndar er leikjaprógrammið næstu daga ekkert rosalega þétt, næsti leikur eftir þennan er á laugardaginn, gegn Sunderland, og svo er vika í næsta leik þar á eftir.

Það er alls ekki ólíklegt að ungu strákarnir Jordan Rossiter og Sheyi Ojo, sem hafa verið að banka á dyrnar að undanförnu, verði í hópnum annað kvöld og fái jafnvel að koma inn á ef leikurinn þróast okkur í hag.

Ég er ekki nema sæmilega bjartsýnn fyrir þennan leik. Ég held að þetta verði basl, en hafist að lokum. Ég spái 1-0 sigri, með marki frá Lambert seint og um síðir.

YNWA!
 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan