| Heimir Eyvindarson

Góður sigur á Bournemouth

Liverpool tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum deildabikarsins, með góðum 3-1 sigri á Bournemouth. Liverpool mun mæta Chelsea í undanúrslitunum.

Brendan Rodgers gerði 3 breytingar á liðinu frá tapinu gegn Manchester United á sunnudaginn. Kolo Toure kom inn fyrir meiddan Glen Johnson og Lazar Markovic og Lucas Leiva komu inn fyrir Alberto Moreno og Joe Allen. Brad Jones hélt sæti sínu í markinu og bæði Borini og Sakho voru í hópnum, eftir langa fjarveru. Rétt eins og á sunnudaginn stillti Rodgers upp þriggja manna vörn í einskonar 3-4-3 leikkerfi.

Fyrri hálfleikur var fjörlegur og Liverpool liðið ágætlega sprækt sóknarlega. Það voru þó heimamen sem áttu fyrsta almennilega færið, en þá skaut Wilson rétt framhjá af stuttu færi eftir að hafa farið illa með varnarmenn Liverpool. 

Skömmu síðar átti Lallana fínt skot sem Boruc í marki Bournemouth varði vel og á næstu mínútu stukku varnarmenn heimamanna í bunkum fyrir þrumufleyg Steven Gerrard rétt utan teigs. 

Á 20 mínútu kom svo fyrsta markið. Það skoraði Raheem Sterling eftir frábæra 52 sendinga sókn Liverpool. Eftir frábær tilþrif Lallana úti á kanti sendi Markovic háan bolta á fjærstöng þar sem Henderson skallaði á Sterling sem var búinn að stinga varnarmenn Bournemouth af. Sterling fleygði sér fram og skallaði boltann laglega í hornið framhjá Boruc. Staðan orðin 0-1 fyrir gestina.

Sjö mínútum síðar skoraði Markovic svo glæsilegt mark. Aðdragandi marksins var sá að Coutinho hljóp inn í teig og náði skoti á markið úr þröngri stöðu. Boruc varði og boltinn barst út í teiginn þar sem Markovic lagði hann viðstöðulaust innanfótar í hornið, óverjandi fyrir Boruc. Staðan 0-2. Sendingar Liverpool áður en kom að skoti Coutinho voru 30. Þolinmæðin þrautir vinnur allar.

Aðeins mínútu síðar fékk Bournemouth dauðafæri hinum megin, en Kermorgant sópaði boltanum himinhátt yfir markið. 

Á 40. mínútu átti Sterling frábæra rispu upp völlinn og alla leið inn í teig heimamanna, en þar tókst Boruc að hirða boltann af tám hans.

Staðan í hálfleik 0-2 fyrir Liverpool og yfirburðir okkar manna talsverðir.

Strax á 6. mínútu síðari hálfleiks var Liverpool búið að skora og í raun gera út um leikinn. Kolo Toure átti góða sendingu út úr vörninni fram á Lallana, sem sendi frábæra sendingu á Sterling. Ungstirnið, sem misnotði fjölmörg færi gegn Manchester United á sunnudaginn, sýndi frábæra takta þegar hann fíflaði varnarmenn Bournemouth og renndi boltanum síðan af miklu öryggi í fjærhornið. Frábærlega gert hjá Sterling og útlitið bjart hjá okkar mönnum.

Hafi einhver trúað því ennþá eftir frammistöðu Brad Jones gegn United, að hann væri svarið við markmannsvandræðum Liverpool, þá held ég að hann hafi alveg slökkt allar slíkar vonir á 57. mínútu. Þá átti Dan Gosling laflaust og hundlélegt skot á mitt markið sem lak í gegnum Jones og í netið. Ömurleg frammistaða hjá Ástralanum og skyndilega kviknaði von í brjóstum heimamanna.

Næstu mínútur leiksins sótti Bournemouth án afláts og á 69. mínútu munaði svo að segja engu að Gosling minnkaði muninn í eitt mark þegar hann átti glæsilegt skot í stöngina framhjá grafkyrrum Jones.

Á 67. mínútu hefði Raheem Sterling síðan hæglega getað gert út um leikinn. Hann fékk þá boltann í mjög góðu færi eftir skemmtilega sókn, en renndi honum þó nokkuð langt framhjá. Illa farið með gott færi.

Síðustu mínútur leiksins voru fremur tíðindalitlar og niðurstaðan á suðurströndinni í kvöld góður 1-3 sigur.

Strax eftir leikinn var dregið í undanúrslitin og þar mun Liverpool mæta Chelsea heima og heiman.

Liverpool: Jones, Toure, Skrtel, Lovren (Sakho á 46. mín.), Henderson, Lucas, Gerrard (Borini á 89. mín.), Lallana, Coutinho (Can á 74. mín.), Sterling, Markovic. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Manquillo, Moreno, Lambert.

Mörk Liverpool: Sterling á 20. og 51.mín., Markovic á 27. mín.

Bournemouth: Boruc, Elphick, Francis, Cargill, Ritchie, Smith,O´Kane (Pitman á 81. mín.), Gosling, Stanislas (Fraser á 54. mín.), Kermorgant (Arter á 53. mín.), Wilson. Ónotaðir varamenn: Camp, Daniels, Cook, McDonald. 

Mark Bournemouth: Gosling á 57. mín.

Áhorfendur á Goldsands Stadium: 11,343.

Maður leiksins: Að mínu mati voru Markovic, Lallana og Sterling bestu menn Liverpool í kvöld. Sterling fær nafnbótina að þessu sinni. Hann skoraði tvö góð mörk og skapaði mikla hættu í hvert sinn sem hann fékk boltann.

Brendan Rodgers: Það hefur tekið okkur langan tíma að finna taktinn á þessari leiktíð. Það sáust batamerki á sóknarleik okkar á sunnudaginn, við sköpuðum okkar færi þá og við héldum því áfram í kvöld. Ég trúi því að við séum smátt og smátt að komast í rétta gírinn. Bournemouth er gott lið og það þurfti virkilega góða frammistöðu til þess að slá þá út. Ég er ánægður með mína menn.  

Fróðleikur:

-Mark Lazar Markovic í kvöld var fyrsta mark hans fyrir Liverpool. 

-Þetta er aðeins í annað sinn á síðustu 7 leiktíðum sem Liverpool kemst í undanúrslit deildabikarsins. Í hitt skiptið fór Liverpool alla leið, en það var tímabilið 2011-2012 þegar Liverpool lið Kenny Dalglish landaði deildabikarnum á Wembley.

-Bournemouth hefur aldrei unnið Liverpool. Sem betur fer breyttist það ekki í kvöld.

-Mörk Raheems Sterling í kvöld voru fyrstu mörk hans fyrir Liverpool frá því í september mánuði. 

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

-Hér má lesa viðtal við Brendan Rodgers, af sömu síðu. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan