| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Það hefur verið þæfingur hjá Liverpool það sem af er leiktíðar. Toppliðið kemur í heimsókn um helgina og eins og alltaf þarf sigur. 

Síðustu heimsókn Chelsesa, sem enn hefur ekki tapað leik, fylgja sérstaklega slæmar minningar. Liverpool þurfti sjö stig út úr síðustu þremur leikjum sínum til að hýsa 19. Englandsmeistaratitilinn. Hræðilegt tap fyrir Chelsea gaf merki um að titillinn myndi ekki vinnast og það kom svo á daginn. Hver mun gleyma því þegar Steven Gerrard rann til? Hver mun gleyma því þegar Chelsea lá í vörn frá fyrstu mínútu? Hver mun gleyma því þegar Chelsea tafði frá fyrstu mínútu?

Segja má að þessi lið hafi hafst ólíkt að það sem af er leiktíðar. Chelsea hefur gengið allt í haginn. Liðið hefur ekki tapað leik og leiðir að sjálfsögðu deildna. Liverpool hefur gengið illa þó það sé svo sem ekki langt í fjórða Meistaradeildarsætið. Englandsmeistaratitilinn sem var svo nærri í vor hefur fjarlægst með hverri umferðinni og samt er nóvember rétt að hefja sitt skeið. Víst er liðið enn með í Deildarbikarnum en áframhald í Meistaradeildinni er í mikilli óvissu og gengi liðsins er einfaldlega ekki nógu gott. 


En hverju er um að kenna? Það eru margar ástæður fyrir því að svo illa hefur gengið. En þegar öllu er á botninn hvolft má segja að liðið hafi ekki skorað nógu mörg mörk og fengið of mörg á sig. Mjög einfalt! Svo hafa margir nefnt að vonbrigðin frá því í vor séu eins og þrumuský yfir öllum og öllu á Anfield. Það reynir virkilega á stjórnunarhæfileika Brendan Rodgers um þessar mundir og hann verður að fara að koma krafti í sína menn því deyfð hefur verið yfir mönnum í flestum leikjum. Sama hefur verið hverja Brendan hefur sent til leiks. Starf hans er örugglega ekki í hættu en Liverpool verður að halda í efstu liðin og verja stöðu sína fyrir þeim liðum sem næst á eftir koma. 


Það er hvergi veikan blett að sjá á liði Chelsea. Liðið er vel mannað, spilar vel og allt í fínasta lagi. Liverpool þarf líklega að ná sínum besta leik á leiktíðinni til að vinna sigur. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að svo fari. Liverpool nær að vinna 2:1. Fabio Borini og Raheem Sterling skora í sigri sem á eftir að gefa liðinu mikið! Jú, Chelsea hlýtur að fara að tapa og Liverpool hlýtur að fara að vinna!

Vissir þú?





Liverpool hefur ekki ekki unnið sigur á Chelsea í síðustu fjórum leikjum. Síðast vann Liverpool 4:1 á Anfield vorið 2012 í síðasta heimleiknum sem Kenny Dalglish stjórnaði Liverpool. Nokkrum dögum áður vann Chelsea Liverpool 2:1 í úrslitaleiknum um F.A. bikarinn. 

YNWA
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan