| Heimir Eyvindarson

Frægur fyrir leik

Útvarpsmaðurinn, skemmtikrafturinn og sjarmatröllið Sóli Hólm er gallharður stuðningsmaður Liverpool. Hann er ekkert sérlega bjartsýnn fyrir leik Liverpool og Chelsea, sem fram fer á laugardaginn. 

Hvenær byrjaðir þú að halda með Liverpool og afhverju?
Það hefur líklega verið í kringum 1990. Ástæðan var einföld: Siggi eldri bróðir minn var Poolari sem og allt frændaliðið þannig að það kom aldrei annað til greina. Það var samt ekki fyrr en c.a. 1995-96 sem ég fór að fylgjast með af einhverju viti.

Hver er þinn uppáhalds Liverpool leikmaður allra tíma?
Robbie Fowler sennilega. Af því að hann var svo sjóðandi þegar ég fór að fylgjast með. Michael Owen átti stað í hjarta mínu þegar hann sprakk út en nú er sá staður búinn að færast frá hjartanu og nær endaþarmsopinu.

Hver er í mestu uppáhaldi af núverandi leikmönnum liðsins?
Stevie G. er náttúrlega númer eitt. Sterling og Henderson koma trúlega í kjölfarið. Sturridge ætti að vera ofar á listanum, en ég er orðinn þreyttur á þessu meiðslabrasi.

Ef þú mættir kaupa einn leikmann að eigin vali til Liverpool, hver yrði þá fyrir valinu? 
Að því gefnu að hann hefði á annað borð áhuga á því að koma þá yrði það besti leikmaður heims í dag, Christiano Ronaldo. Þó ég viti auðvitað að hann myndi aldrei koma til LFC. Aguëro væri líka æðislegur í framlínunni. Þá myndum við skora svo mörg mörk að vörnin skipti engu máli. 

Hvernig fer leikurinn gegn Chelsea á laugardaginn?
Eins og staðan er í dag þegar þetta er ritað, rétt fyrir leik Real Madrid og Liverpool, þá er fátt sem bendir til þess að við vinnum Chelsea. En ef heilladísirnar eru góðar við okkur þá er aldrei að vita nema við grísum á eitthvað.

Í hvaða sæti endar Liverpool í vor?
Ég er farinn að óttast um meistaradeildarsætið. Vonandi verður það samt annaðhvort 4. eða 8. sætið.

Hver er lausnin við markaþurrð liðsins?
Einföld lausn: Spila með tvo fokking framherja. Eins og meiðslastaðan er í dag vil ég hafa ítalskt framherjapar. Borini og Balotelli. 


 
 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan