| Heimir Eyvindarson

Alonso vonar að Liverpool komist áfram

Xabi Alonso fyrrverandi leikmaður Liverpool vonar að Liverpool komist upp úr riðli sínum í Meistaradeildinni. Það væri draumi líkast að fá að spila á Anfield aftur, segir Spánverjinn.

Xabi Alonso lék 210 leiki fyrir Liverpool á sínum tíma og var afar vinsæll meðal stuðningsmanna félagsins. Hann yfirgaf Liverpool sumarið 2009 og gekk þá í raðir Real Madrid, þar sem hann lék allt þar til í lok ágúst á þessu ári þegar tilkynnt var um félagaskipti hans til þýsku meistaranna í Bayern Munchen.

Alonso var í læknisskoðun hjá Bayern þegar dregið var í riðla Meistaradeildarinnar í ár. Hann segist ekki geta neitað því að hafa verið dálítið svekktur þegar hann sá að Real Madrid og Liverpool drógust í sama riðil.

„Ég verð að viðurkenna að ég var smá svekktur, því mig hefur alltaf langað til þess að spila aftur á Anfield. Ég á svo ótrúlega margar góðar minningar þaðan og ég veit að það yrði stórkostlegt að fá að spila þar aftur."

„Ég hef samt ekki enn gefið upp vonina. Ég vona að Liverpool komist áfram upp úr riðlinum, þá er möguleiki að Bayern og Liverpool mætist á seinni stigum keppninnar. Það væri draumur."

„Ég man að fyrir nokkrum árum spiluðum við í Real Madrid á móti Manchester United í Meistaradeildinni. Það var tilfinningaþrungið kvöld fyrir Christiano Ronaldo að koma á sinn gamla heimavöll. Ég get ímyndað mér að það yrði líka mjög tilfinningaþrungið fyrir mig að spila gegn mínu gamla félagi á Anfield. Ég vona að ég fái að upplifa það. Það væri frábært að fá að koma á Anfield og sjá stuðningsmennina aftur og þakka þeim fyrir allt sem þeir hafa gefið mér."

„Það hefur verið erfitt að fylgjast með gengi Liverpool undanfarin ár. Ég hef fundið til með mínum gömlu félögum og þessvegna gladdist ég mjög þegar liðið tryggði sér loksins aftur sæti í Meistaradeildinni s.l. vor. Vonandi er liðið að komast á rétta braut, því það á svo sannarlega heima í deild þeirra bestu"


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan