| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Þá er komið að leik í níundu umferð Úrvalsdeildarinnar. Að þessu sinni heimsækja Hull City okkar menn á Anfield og verður flautað til leiks kl. 14:00 á morgun laugardag.

Engin ný meiðsli eru í herbúðum Liverpool eftir tapið slæma gegn Real Madrid á miðvikudaginn. Helst velta menn því fyrir sér hvort að Mario Balotelli haldi sæti sínu í byrjunarliðinu en alls óvíst er hvað Brendan Rodgers gerir, það kæmi að minnsta kosti ekki á óvart ef Fabio Borini fái tækifæri núna. Á meiðslalistanum eru sem fyrr Daniel Sturridge, Mamadou Sakho, Suso og Jon Flanagan.

Eitthvað eru Hull liðar meira meiddir en alls eru sjö leikmenn frá þeim á meiðslalistanum en tveir þeirra, Tom Huddlestone og Andy Robertson verða skoðaðir rétt fyrir leik og ákvörðun tekin hvort þeir verði með eða ekki. Að öðru leyti verða þeir Harper, Dawson, Jelavic, McGregor og Snodgrass ekki með.

Þegar staða liðanna í deildinni er skoðuð má sjá að okkar menn sitja í fimmta sæti deildarinnar, ótrúlegt en satt miðað við spilamennskuna það sem af er tímabili. Alls hefur náðst að safna saman 13 stigum. Hull City hafa staðið sig ágætlega á tímabilinu og eru í 11. sæti með 10 stig. Náðu þeir í góð úrslit gegn Arsenal á útivelli um síðustu helgi með 2-2 jafntefli. Það er því ljóst að leikmenn Steve Bruce, sem hefur iðulega verið naskur á góð úrslit gegn Liverpool, munu selja sig dýrt á Anfield og sækja til sigurs.

Síðast mættust þessi lið á Anfield í fyrsta leik ársins 2014 í Úrvalsdeildinni, nánar tiltekið á Nýársdag. Mörkin skoruðu leikmenn sem báðir eru horfnir á braut, Daniel Agger skoraði á 36. mínútu og Luis Suarez skoraði seinna mark leiksins á 50. mínútu. Það er óskandi að sömu úrslit líti dagsins ljós núna, að halda markinu hreinu væri kærkomið fyrir varnarmenn Liverpool, já og reyndar liðið í heild.

Leikmenn Hull hafa hingað til ekki sótt gull í greipar Liverpool á Anfield en í þau skipti sem liðin hafa mæst í Úrvalsdeildinni hafa Tígrarnir náð einu jafntefli, 2-2 árið 2008, síðustu tveir leikir hafa tapast. Liðin hafa ekki mæst oft í gegnum tíðina, alls 18 sinnum sem verður að teljast frekar lítið.

Það er sem fyrr vandi að spá fyrir um úrslit í leikjum okkar manna þessa stundina. Þrátt fyrir afspyrnu slakan leik gegn Q.P.R. um síðustu helgi náðist að taka þrjú stig úr þeim leik. Á miðvikudaginn gegn Real Madrid var svo bara við ofurefli að etja og var fyrsta mark spænska liðsins nóg til að drepa niður alla stemmningu hjá leikmönnum og stuðningsmönnum félagsins. Það er aðallega það sem maður er hræddur við, að liðið lendi undir því sjálfstraustið er það lítið að leikmenn virðast ekki höndla það. Auk þess er tölfræðin alls ekki með liðinu undir stjórn Rodgers þegar það lendir undir, sárafáum leikjum hefur verið snúið yfir í sigur og yfirleitt er raunin sú að lendi liðið undir, þá tapast leikurinn.

Það væri því vont ef Hull liðar myndu skora á undan en leikmenn Liverpool hljóta að mæta baráttuglaðir til leiks því deildin er að spilast þannig að lið sem við myndum líta á sem okkar helstu keppinauta eru líka að tapa stigum. Heimaleikir sem þessi eru því mjög mikilvægir í baráttunni.

Leikurinn verður í járnum, það er mín spá og Tígrarnir hans Bruce ná í stig að þessu sinni, 1-1 verður lokaniðurstaða leiksins. Það skal þó alls ekki afskrifa sigurmark heimamanna á ögurstundu, við sjáum til.

Fróðleikur:

- Liverpool hefur unnið síðustu tvo deildarleiki.

- Spili Philippe Coutinho leikinn verður það 60. leikur hans fyrir félagið í öllum keppnum.

- Sömuleiðis má gera ráð fyrir því að Raheem Sterling spili sinn 90. leik fyrir félagið í öllum keppnum á morgun.

- Liverpool hafa skorað 13 mörk í deildinni á tímabilinu.

Hér má sjá myndir frá undirbúningi liðsins fyrir leik helgarinnar.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan