| Grétar Magnússon

Jafntefli í nágrannaslag

Jafntefli var niðurstaðan í nágrannaslagnum við Everton í hádeginu á laugardag. Jöfnunarmark gestanna kom sem köld vatnsgusa í blálokin.

Brendan Rodgers gerði tvær breytingar frá síðasta deildarleik. Inn í byrjunarliðið komu þeir Adam Lallana og Lazar Markovic í stað Lucas Leiva og Fabio Borini. Athygli vakti að Mamadou Sakho var ekki á bekknum að þessu sinni og var Frakkinn ekki sáttur með þá ákvörðun. Sást hann yfirgefa Anfield fyrir leik í fússi, hann baðst svo seinna um daginn afsökunar á þessari hegðun sinni.

Leikurinn byrjaði eins og nágrannaslagir vilja oft byrja, nokkuð fjörlega. Aðeins voru liðnar tvær mínútur þegar Adam Lallana var felldur fyrir utan vítateig af Gareth Barry og hlaut Barry gult spjald réttilega að launum. Mario Balotelli tók spyrnuna en skaut í varnarvegginn. Sagan af Gareth Barry í þessum leik var alls ekki öll og á 8. mínútu skaut Raheem Sterling að marki fyrir utan vítateig og fór boltinn greinilega í hönd Barry inní teignum. Martin Atkinson dómari sá ekki ástæðu til að dæma vítaspyrnu og vildi meina að Barry hefði verið að skýla andliti sínu.

Heimamenn voru mun beittari í sínum aðgerðum og sóknarleikurinn virtist hafa tekið á sig aðeins betri mynd frá fyrri leikjum á tímabilinu og er það vel. Balotelli skaut að marki úr aukaspyrnu af um 40 metra færi en Howard markvörður gestanna varði í horn. Aukaspyrnan var dæmd eftir að Ítalinn hafði unnið boltann af Barry og sneri í átt að marki en Barry felldi hann. Margir vildu þarna meina að Barry hefði átt að fá sitt annað gula spjald því hreinn og klár ásetningur var í brotinu.

Adam Lallana var næstur til að reyna sig uppvið mark gestanna er hann skallaði að marki eftir hornspyrnu Gerrard en Howard var sem fyrr vel á verði í markinu. Flestar tilraunir gestanna við mark Simon Mignolet voru með skotum fyrir utan teig sem flest voru beint á Belgann. Romelu Lukaku átti kannski bestu tilraun Everton manna fyrir hlé er hann þrumaði að marki en Mignolet var rétt staðsettur. Um miðjan fyrri hálfleikinn þurfti reyndar Dejan Lovren að vera vel á verði inní vítateignum þegar Leighton Baines náði boltanum hægra megin í teignum og sendi fyrir markið, en enginn samherji hans var mættur í markteiginn til að setja boltann í markið og Lovren eins og fyrr sagði fyrstur til að átta sig.

Fátt markvert gerðist svo fram að hálfleik og staðan því markalaus þegar Atkinson flautaði til leikhlés. Heimamenn voru svo beittari eins og við var að búast þegar leik var haldið áfram. Raheem Sterling sendi flotta sendingu innfyrir á Markovic sem náði því miður ekki valdi á boltanum með varnarmann í sér og færið rann út í sandinn. Lovren átti svo skalla yfir markið eftir sendingu frá Sterling. Eftir um klukkustundar leik fór Markovic útaf fyrir Coutinho og fimm mínútum síðar kom fyrsta mark leiksins. Balotelli var felldur fyrir utan teig og nú ákvað fyrirliðinn að taka spyrnuna þar sem Balotelli hafði fengið að reyna sig fyrr í leiknum. Spyrnan var glæsileg, yfir varnarvegginn og boltinn hafnaði í netinu án þess að Howard, sem reyndar hafði hönd á bolta, næði að koma í veg fyrir mark.

Fagnaðarlætin voru mikil og verðskulduð forysta heimamanna orðin að veruleika. Skömmu síðar hefði Balotelli átt að setja boltann í markið eftir frábæra sendingu af hægri kanti frá Sterling en einhvernveginn tókst Howard í markinu að þvælast fyrir og hafnaði boltinn í slánni og fór svo yfir markið. Hornspyrna var engu að síður ekki dæmd því dómari eða línuvörður sáu ekki að boltinn fór í Howard.

Heimamenn bökkuðu kannski óþarflega mikið eftir þetta en gestirnir sköpuðu sér engin hættuleg tækifæri. Það var svo komið fram í uppbótartíma þegar Lovren skallaði fyrirgjöf frá marki. Phil Jagielka varnarmaður skaut boltanum viðstöðulaust að marki og hafnaði hann efst í fjær horninu. Óverjandi skot og sannkallað draumamark hjá miðverðinum, sem mun klárlega ekki skora svona mark aftur á sínum ferli.

Niðurstaðan 1-1 jafntefli og það mátti sjá á leikmönnum Liverpool að jöfnunarmarkið virkaði sem gríðarlegt áfall eftir að hafa verið mun betri í leiknum.

Liverpool: Mignolet, Manquillo, Lovren, Skrtel, Moreno, Gerrard, Henderson, Lallana, Markovic (Coutinho, 60. mín.), Sterling, Balotelli (Lambert, 88. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, José Enrique, Kolo Toure, Lucas, Suso.

Mark Liverpool: Steven Gerrard (65. mín.).

Gul spjöld: Alberto Moreno og Steven Gerrard.

Everton: Howard, Hibbert (Browning, 73. mín.), Baines, Jagielka, Stones, McCarthy, Besic (Eto'o, 80. mín.), Barry, Lukaku, Mirallas (McGeady, 31. mín.), Naismith. Ónotaðir varamenn: Robles, Alcaraz, Gibson, Osman.

Mark Everton: Phil Jagielka (90. mín.).

Gult spjald: Gareth Barry.

Dómari leiksins: Martin Atkinson.

Áhorfendur á Anfield: 44.511.

Maður leiksins: Fyrirliðinn Steven Gerrard hlýtur nafnbótina að þessu sinni. Hann skoraði frábært mark og var gríðarlega sterkur á miðjunni að þessu sinni. Sýndi hann gott fordæmi með leik sínum og gaf tóninn fyrir aðra leikmenn.

Brendan Rodgers: ,,Við fengum ekki það sem við áttum skilið. Það var ljóst að við vorum mun betra liðið í leiknum. þegar maður fær svo mark á sig svona seint í leiknum sýnir það bara og sannar hversu óheppnir við vorum í dag. En ég er svo sannarlega stoltur af leikmönnum mínum. Mér fannst ákefðin í leik okkar vera nær því sem hún hefur áður verið hvað best. Taktískt séð vorum við einnig mjög góðir. Við vörðumst vel. Við náðum forystunni, hefðum líklega átt að skora tvö mörk auk þess í leiknum og áttum líka að fá vítaspyrnu."

Fróðleikur:

- Steven Gerrard skoraði sitt 10. mark gegn Everton á ferlinum.

- Þetta var annað deildarmark fyrirliðans á tímabilinu.

- Philippe Coutinho spilaði sinn 50. deildarleik fyrir félagið.

- Liverpool sitja í 13. sæti deildarinnar eftir 6 umferðir með 7 stig.

Hér má sjá myndir úr leiknum.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan