| Sf. Gutt

Mikið áfall í titilbaráttunni!

Liverpool varð fyrir miklu áfalli í titilbaráttunni þegar Chelsea herjaði fram 0:2 sigur á Anfield. Nú stendur Liverpool allt í einu ekki lengur best að vígi í baráttunni. Það er þó ekki öll von úti enn.

Líkt og fyrir síðustu leiki þá var magnþrungin spenna fyrir leikinn. Þjóðsöngurinn var sunginn af miklum krafti og áhorfendur lögðu sig alla fram við að veita leikmönnum þann stuðning sem til þurfti að yfirstíga enn eina hindruna að Englandsmeistaratitlinum. 

Brendan Rodgers stillti upp sama liði og síðast. Daniel Sturridge kom á varamannabekkinn eftir meiðsli. Þrátt fyrir yfirlýsingar var ekki að sjá mikil veikleikamerki á liðinu sem Jose Mourinho sendi til leiks.
 
Chelsea byrjaði strax að tefja svo eftir var tekið en ógnaði samt fyrst, eftir fimm mínútur, þegar Ashley Cole átti óvænt skot utan vítateigs en Simon Mignolet varði með því að slá boltann frá. Svona fjórum mínútum seinna átti Glen Johnson fast skot við vítateginn eftir að Steven Gerrard hafði sent á hann úr horni en varnarmaður komst fyrir og úr varð annað horn. 

Á 11. mínútu sendi Luis Suarez yfir til vinstri á Philippe Coutinho sem fékk boltann stutt frá marki en skot hans fór í hliðarnetið. Á 14. mínútu gerði Liverpool hafða atlögðu eftir horn. Varnarmaður bjargaði við marklínuna en sóknin hélt áfram og Luis sendi fyrir á Mamadou Sakho en hann mokaði boltanum upp í stúku úr upplögðu færi. 

Það var hart barist úti um allan völl en það var ljóst að það yrði erfitt fyrir Liverpool að brjóta vörn Chelsea, sem lék frábærlega, á bak aftur. Við bættist að leikmenn Chelsea reyndu við hvert tækifæri að tefja og drepa niður allan hraða. Á 38. mínútu hefði Chelsea getað fengið víti þegar markskot fór í hendina á Jon Flanagan en ekkert var dæmt. Þremur mínútum seinna náði Liverpool loksins hraðri sókn sem endaði með því að Luis skaut rétt yfir frá vítateignum. 

Á lokamínútu hálfleiksins átti ungliðinn Tomas Kalas skalla framhjá úr fínu færi eftir horn. En þegar vel var liðið á viðbótartímann dundi ógæfan yfir. Steven missti boltann aðeins frá sér á miðjum vallarhelmingi sínum. Það var svo sem í lagi en svo slysalega vildi til þegar hann reyndi að ná boltanum að hann rann til og við það náði Demba Ba boltanum. Hann slapp einn í gegn, lék fram að vítateignum og renndi boltanum af öryggi undir Simon í markið. Algjört kjaftshögg og óheppni Steven Gerrard alveg skelfileg. Stuðningsmenn Chelsea gátu því sannarlega verið kátir þegar kom að leikhléinu. 

Síðari hálfleikur byrjaði á undarlegu atviki. Lucas Leiva virtist vera að komast í dauðafæri í vítateignum en hætti skyndilega við að elta boltann og Luis stoppaði líka og ekkert varð úr. Svo virtist sem Lucas teldi sig rangstæðan en annars var þetta allt mjög furðulegt.
 
Liverpool sótti linnulaust en það gekk ekkert að opna staðfasta vörn Chelsea sem taldi oftast mestan hluta liðsins. Kunnuglegt leikskipulag í stórleikjum hjá Jose. Það var ekki fyrr en á 59. mínútu að Liverpool náði loksins almennilegu markskoti. Joe Allen átti þá gott skot eftir horn utan vítateigs en Mark Schwarzer henti sér niður til vinstri og varði neðst í horninu. Hinu megin tók Andre Schurrle góða rispu og skaut svo föstu skoti utan teigs sem Simon varði að taka á við að verja. 

Brendan sendi Daniel Sturridge til leiks en hann komst aldrei inn í leikinn. Liverpool sótti og sótti en einu marktilraunirnar voru langskot sem Mark réði auðveldlega við. Steven átti tvö þeirra og reyndi allt sem hann gat til að bæta upp fyrir að hafa misst boltann þegar Chelsea komst yfir.

Allt var lagt í sölurnar undir lokin og á lokamínútunni náði Mark ekki boltanum eftir horn. Luis náði skoti sem stefndi í markið en Mark var mættur og sló boltann yfir. Á allra síðustu andartökunum komust varamennirnir Fernando Torres og Willian einir í gegn á móti Simon sem var einn til varnar. Fernando lék fram og lagði svo boltann á Willian sem skoraði í autt markið. Sigur Chelsea, sem gefur þeim svolitla möguleika á titlinum, var þar með innsiglaður. 

Liverpool átti ekki skilið að tapa leiknum og hræðileg óheppni Steven gaf Chelsea möguleika á að liggja í vörn í heilan hálfleik. En þegar upp var staðið þá náði Liverpool ekki að brjóta grjótharða vörn Chelsea á bak aftur. Manchester City vann Crystal Palace 0:2 síðdegis og er nú þremur stigum á eftir Liverpool með leik til góða en með betra markahlutfall sem Liverpool vinnur varla upp í tveimur leikjum. Vinni bæði Liverpool og Manchester City þá leiki sem eftir eru er líklegt að City vinni titilinn á markahlutfalli. Það yrði grátlegt en við sjáum hvað setur. Það getur jú ýmislegt gerst enn í þessum fimm leikjum sem liðin eiga eftir! Það er ekkert búið í knattspyrnunni fyrr en það er búið og Rauði herinn mun ekki leggja niður vopnin!

Liverpool: Mignolet, Johnson, Skrtel, Sakho, Flanagan (Aspas 81. mín.), Leiva (Sturridge 58. mín.), Gerrard, Allen, Sterling, Suarez og Coutinho. Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, Agger, Alberto og Cissokho.
 
Chelsea: Schwarzer, Azpilicueta, Ivanovic, Kalas, Cole, Mikel, Matic, Salah (Willian 60. mín.), Lampard, Schurrle (Cahill 77. mín.) og Ba (Torres 84. mín.). Ónotaðir varamenn: Van Ginkel, Ake, Hilario og Baker.

Mörk Chelsea: Demba Ba (45. mín.) og Willian (90. mín.)

Gul spjöld: Frank Lampard, Mohamed Salah, Fernando Torres og Ashley Cole.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 44.726.
 
Maður leiksins: Joe Allen. Hann var mjög duglegur á miðjunni og lagði sig allan fram. Að auki var hann sókndjarfari en stundum áður. 

Brendan Rodgers: Líklega komu þeir til að halda jöfnu og við náðum ekki að brjóta þá á bak aftur. En við lögðum allt í sölurnar í dag. Við reyndum að vera með boltann og við vorum liðið sem vildi vinna sigur í leiknum. En það var erfitt því þeir voru eiginlega með sex manna varnarlínu frá upphafi.

                                                                                  Fróðleikur

- Liverpool tapaði fyrsta deildarleik sínum á árinu.

- Síðasti tapleikur Liverpool var einmitt fyrir Chelsea á Stamford Bridge í síðasta leik síðasta árs.

- Liverpool náði ekki að skora í fyrsta sinn á árinu.

- Liverpool hafði fyrir leikinn unnið 11 leiki í röð.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal, af vefsíðu BBC, við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leikinn.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan