| Heimir Eyvindarson

Draumurinn lifir góðu lífi!

Liverpool steig í dag enn eitt mikilvæga skrefið í átt að langþráðum titli þegar liðið lagði Norwich á Carrow Road. Lokatölur urðu 3-2 fyrir okkar menn.

Brendan Rodgers þurfti að gera tvær breytingar á liðinu frá því í sigurleiknum gegn Manchester City á sunnudaginn, þar sem að Daniel Sturridge er að glíma við smávægileg meiðsl og Jordan Henderson fauk útaf í leiknum og fékk þriggja leikja bann.

Lucas Leiva og Joe Allen komu inn í liðið á þeirra kostnað. Luis Alberto var í leikmannahópi Liverpool, í fyrsta sinn frá því í febrúar og Mamadou Sakho hélt sæti sínu í vörninni, á kostnað Daniel Aggers.

Liverpool menn mættu mjög ákveðnir til leiks á Carrow Road og það voru ekki liðnar nema rétt rúmar þrjár mínútur af leiknum þegar gestirnir voru komnir með forystuna. Markið var ekki af verri endanum, en það gerði Raheem litli Sterling með þrumuskoti fyrir utan teig. Boltinn söng í markhorninu án þess að Ruddy í marki Norwich kæmi nokkrum vörnum við. Staðan 0-1 á Carrow Road.

Okkar menn slökuðu ekkert á eftir markið og héldu áfram að þjarma að vörn kanarífuglanna. Það leið ekki á löngu þar til pressan og baráttan borgaði sig. Á 11. mínútu var komið að Norwich bananum ógurlega Luis Suarez. Flanagan átti þá góða sendingu fram á Raheem Sterling, sem þeystist að teignum og gaf frábæra sendingu inn að markteig þar sem Suarez kom aðvífandi og afgreiddi boltann glæsilega í netið. Frábær sending og ekki síður frábært hlaup og afgreiðsla hjá Suarez. Staðan 0-2 og draumurinn á góðu lífi!

Eftir annað mark gestanna frá Bítlaborginni komust heimamenn aðeins betur inn í leikinn og fóru að skapa sér smá sjénsa. Á 16. mínútu fór Joe Allen á kostum í varnarvinnunni inni i teig Norwich og bægði frá hættu sem heimamenn sköpuðu trekk í trekk. Martin Skrtel stóð vaktina einnig af miklum krafti.

Joe Allen átti síðan gott skot að marki Norwich á 26. mínútu, en boltinn fór rétt fram hjá. Það sem eftir lifði hálfleiksins var meira jafnvægi milli liðanna, en lítið um hættuleg færi. Staðan í hálfleik í Norwich 2-0 fyrir gestina frá Liverpool. 

Síðari hálfleikur hófst af svipuðum krafti og hinn fyrri, en munurinn var sá að nú voru bæði lið með í leiknum. Á 48. mínútu bjargaði Skrtel málunum fyrir okkar menn þegar Hooper var kominn í góða stöðu og fáeinum andartökum síðar átti Suarez frábæra 50 metra sendingu fram á Coutinho sem lagði boltann fyrir Sterling sem skaut boltanum yfir frá vítateigshorni. Illa farið með gott færi.

Á 51. mínútu vildu heimamenn fá víti þegar Turner féllí teignum, en Marriner sá enga ástæðu til þess að dæma neitt. Rétt ákvörðun. Á 54. mínútu minnkuðu heimamenn síðan muninn með heldur slysalegu marki. Hár bolti kom þá inn í teiginn og Mignolet sló boltann beint fyrir fætur Hooper, sem þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að renna honum í markið. Staðan 1-2.

Á 57. mínútu komust Sterling og Suarez í ágæta stöðu í teig heimamanna, en Ruddy varði frá Suarez og náði að halda boltanum frá Sterling. Rúmri mínútu síðar var Úrugvæinn aftur á ferðinni þegar hann fíflaði varnarmenn Norwich frábærlega inn í teig og skaut síðan laglegu skoti rétt fram hjá markinu. 

Á 62. mínútu var síðan komið aftur að Raheem Sterling. Hann geystist þá fram völlinn með Suarez sér við hlið. Í stað þess að senda á Úrugvæann hélt Sterling áfram, sneri laglega á varnarmenn Norwich og skaut að marki gestanna með vinstri fæti. Boltinn fór í fætur Bradley Johnson varnarmanns Norwich og af honum skoppaði hann yfir varnarlausan Ruddy í markinu. Staðan orðin 1-3.


Á 68. mínútu bætti Mignolet að nokkru leyti fyrir mistökin í markinu, þegar hann varði gott skot Snodgrass í horn. Á 71. mínútu átti Redmond síðan hörkuskot að marki Liverpool sem hafnaði í hausnum á Skrtel og spýttist þaðan rétt fram hjá markinu. Upp úr horninu átti svo Norwich ágætan skalla rétt yfir markið.

Á 77. mínútu fór um stuðningsmenn Liverpool þegar heimamenn minnkuðu muninn í 3-2. Þar var Robert Snodgrass að verki með fallegum skalla. Þess ber að geta að varnarvinna Flanagan í markinu var afleit. Staðan 2-3 og óþarflega mikil spenna á Carrow Road.  

Það sem eftir lifði leiks var spennustigið hátt á vellinum og heimamenn voru óþarflega aðgangsharðir fyrir okkar smekk. Á 83. mínútu var Norwich hársbreidd frá því að jafna þegar varamaðurinn Van Wolfswinkel átti góðan skalla að markinu af stuttu færi. Sem betur fer var Mignolet vel á verði og tókst að afstýra hættunni með góðri vörslu.

Þegar tæpar 3 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma átti Suarez frábæra rispu inni í teig Norwich. Hann sneri af sér mann og annan og sendi boltann síðan á Lucas Leiva sem lét verja frá sér úr ákjósanlegu færi. Boltinn barst aftur til Brassans, en aftur sá Ruddy við honum. Lucas ekki sá hættulegasti upp við markið, frekar en fyrri daginn.

Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma flautaði André Marriner síðan leikinn af og leikmenn Liverpool fögnuðu gríðarlega mikilvægum sigri. Draumurinn lifir!

Norwich:  Ruddy, Martin, Whittaker, Olsson, Johnson, Howson, Fer (Murphy á 78. mín.), Turner, Snodgrass, Hooper (Van Wolfswinkel á 78. mín.) og Redmond. Ónotaðir varamenn:  Nash, Tettey, Bennett, Guitierrez og Bunn.

Mörk Norwich: Gary Hooper (54. mín) og Robert Snodgrass (77. mín.).

Gul spjöld: Robert Snodgrass, Michael Turner og Jonny Howson.

Liverpool:  Mignolet, Johnson, Skrtel, Sakho, Flanagan, Allen (Agger á 81. mín), Gerrard, Lucas, Sterling, Coutinho (Moses á 75. mín.) og Suarez.  Ónotaðir varamenn:  Jones, Touré, Alberto, Aspas og Cissokho.

Mörk Liverpool: Raheem Sterling (4. og 62. mín) og Luis Suarez (11. mín.).

Gul spjöld: Martin Skrtel og Jon Flanagan

Áhorfendur á Carrow Road:  26.857.

Maður leiksins:  Raheem Sterling hlýtur nafnbótina að þessu sinni. Hann skoraði stórkostlegt mark í byrjun leiksins og skoraði svo í rauninni aftur í síðari hálfleik, þótt það mark verði hugsanlega skráð á Bradley Johnson. Þá lagði hann glæsilega upp mark Luis Suarez í leiknum. Frábær leikur hjá drengnum, bæði í vörn og sókn.  

Brendan Rodgers:  ,,Það mikilvægasta var að ná í þrjú stig, einnig frammistaðan.  Við erum búnir að skora 96 mörk núna og okkar hugmynd er að ná 100 plús - það væri ótrúlegt afrek.  Markmiðið í upphafi tímabils var að komast í Meistaradeildina - það var alltaf ótrúlega erfitt en núna getum við ekki endað neðar en þriðja sæti."

,,Við förum í næstu þrjá leiki með það að markmiði að spila vel.  Við viljum halda áfram að berjast og horfum til Chelsea um næstu helgi - þar sem andrúmsloftið á Anfield verður magnað."

Fróðleikur:

- Liverpool hefur nú fimm stiga forystu á toppi Úrvalsdeildar, þegar þrír leikir eru eftir.

- Liverpool hefur enn ekki tapað leik á nýju ári og sigurinn í dag var hvorki meira né minna en 11. sigurinn í röð í deildinni.

- Raheem Sterling skoraði sitt fyrsta mark í deildinni á þessari leiktíð gegn Norwich, á Anfield í desember. Það var því kannski við hæfi að hann skyldi opna leikinn í dag með glæsimarki.

- Luis Suarez leiðist ekki að spila gegn Norwich. Hann hefur nú skorað 12 mörk gegn Kanarífuglunum í síðustu fimm leikjum, þar af sjö í síðustu þremur leikjum sínum í Norwich! Þetta eru einu leikir hans á Carrow Road.

- Aðeins þrír leikmenn Liverpool hafa skorað jafn mörg mörk eða fleiri gegn einu og sama félaginu. Steven Gerrard og Robbie Fowler hafa báðir gert 12 mörk gegn Aston Villa og Michael Owen hefur gert 13 mörk gegn Newcastle. 

- Liverpool liðið hefur nú skorað 96 mörk í deildinni á leiktíðinni og er 8 mörkum frá 103 marka meti Chelsea. 58 af þessum 96 mörkum hafa komið í fyrri hálfleik.

- Liverpool hefur nú unnið sex útileiki í deildinni í röð. Það er jöfnun á félagsmeti. Þá hefur liðið nú skorað í 25 deildarleikjum í röð, sem er einnig jöfnun á félagsmeti (2001 og 1933).TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan