| Sf. Gutt

Af Króötum

Nú er um fátt meira rætt á landinu okkar en Króata. Af því tilefni kynnum við stuttlega eina Króatann sem hefur leikið með Liverpool. Um er að ræða Igor Biscan sem kom til Liverpool í desember 2000 frá Dinamo Zagreb. Hann lék með Liverpool þar til hann gekk til liðs við Panathinaikos sumarið 2005. Þar lék Igor í tvö ár þangað til hann fór aftur til Dinamo Zagreb en þar lauk hann ferlinum í fyrra. Svo öllu sé haldið til haga þá var Igor í láni hjá Samobor leiktíðina 1997/98.

Igor gekk illa að festa sig í sessi framan af ferli sínum hjá Liverpool og stuðningsmönnum Liverpool fannst hann ekki hafa mikið til að bera. Gerard Houllier flakkaði líka nokkuð með hann í stöðum og lék hann bæði sem miðvörður og bakvörður.  

En á leiktíðinni 2003/04 náði Igor loksins að verða fastamaður og lék hann 39 leiki. Á fyrstu leiktíð Rafael Benítez 2004/05 spilaði Igor líka mikið og hann lék lykilhlutverk sem varnarsinnaður miðjumaður í nokkrum Evrópuleikjum á leiðinni í úrslitaleikinn um Evrópubikarinn. Hann var varamaður en kom ekki inn á þegar Liverpool vann AC Milan í Istanbúl. Hann fór frá félaginu þá um sumarið.

Igor tók þátt í fjórum titilsigrum með Liverpool. Hann varð Deildarbikarmeistari, Skjaldarhafi og Stórbikarmeistari árið 2001. Hann vann svo Deildarbikarinn aftur árið 2003. Króatinn þótti duglegur og hlífði sér hvergi en átti til að gera slæm mistök. Igor lék 118 leiki með Liverpool og skoraði þrívegis.  

Igor lék 17 landsleiki fyrir Króata og skoraði eitt mark. 

Hér má lesa allt um feril Igor Biscan á LFCHISTORY.NET.

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan