| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Ekki náðist toppsætið um síðustu helgi en það þýðir ekki annað en að leggja tapið fyrir Arsenal til hliðar, læra af því og komast aftur á sigurbraut. Það er eina leiðin ef Brendan Rodgers ætlar að hafa liðið sitt áfram í efri hluta deildarinnar. Þrátt fyrir tapið í toppslagnum þá stendur liðið býsna vel að vígi við topp deildarinnar.

Ef miðað er við gengi Fulham á síðustu vikum þá ætti Liverpool varla að geta fengið betri leik til að koma sér aftur á sigurbraut. Heimaleikur og gott gengi að baki á meðan flest hefur gengið tilvonandi gestum í móti. Það er því ekki annað hægt en gera þá kröfu að Liverpool vinni öruggan sigur og helst skori nokkur mörk eins og oft hefur tekist gegn lakari liðum á valdatíð Brendan Rodgers.

Það eru vissulega góðir leikmenn í liði Fulham og líklega er Dimitar Berbatov bestur og á góðum degi er hann til alls vís eins og liðið reyndar. Það hefur þó verið veikt fyrir þessar vikurnar og Martin Jol framkvæmdastjóri er undir miklu álagi. Þessa stöðu þarf Liverpool að notfæra sér líkt og gert var á móti Crystal Palace í síðasta mánuði. Byrja leikinn af krafti og gera út um hann.
 

Sóknarleikur Liverpool hefur verið mjög góður það sem af er leiktíðar og þeir Luis Suarez og Daniel Sturridge hafa farið á kostum. Sérstaklega er framganga Daniel athyglisverð og glæsileg þrenna hans í 1:3 útisigri á Fulham í vor var gott dæmi um hversu snarpur hann hefur verið fyrir framan markið frá því hann kom til Liverpool frá Chelsea í byrjun ársins. Þar gerði Brendan Rodgers frábær kaup og sannarlega ein af kaupum árins.

En það eru ekki bara sóknarmennirnir sem hafa verið sterkir. Steven Gerrard hefur verið magnaður á miðjunni og lykilmaður þótt hann sé ekki jafn atkvæðamikill og hann var á yngri árum. Það segir líka sína sögu um góða framgöngu Lucas Leiva og Jordan Henderson að þeir hafa báðir komist í landslið sín á nýjan leik núna það sem af er leiktíðar. Victor Moses og Raheem Sterling eiga eftir að finna sig en það á að vera hægt að gera kröfu til þeirra að leika betur og láta meira að sér kveða. Sóknarleikurinn yrði enn magnaðri fyrir vikið. Philippe Coutinho er mættur til leiks eftir meiðsli og hann þarf að taka upp þráðinn frá því á síðustu leiktíð þegar hann lék lykilhlutverk í sóknarleiknum. Sumir töldu liðið ekki leika jafn vel eftir að hann meiddist í haust. 

Það er því ekkert sem bendir til annars en að Liverpool vinni öruggan sigur á morgun. Liverpool tók Fulham í gegn 4:0 rétt fyrir jól í fyrra og ég ætla að spá marki betur. Liverpool vinnur 5:0. Luis heldur uppteknum hætti og skorar tvö mörk. Steven Gerrard skorar en ekki úr víti auk þess sem Jordan Henderson og Daniel Sturridge komast á markalistann. Sumir telja þetta ef til vill of vígalega spá en ég trúi ekki öðru en að Liverpool taki hressilega á því á Anfield Road á morgun. 

YNWA

Hér fjallar Brendan Rodgers um leikinn á blaðamannafundi. 

Hér eru leikmenn Liverpool að æfa sig á Melwood í gær. 
    
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan