| Heimir Eyvindarson

Eitt stig í Wales tryggði toppsætið

Liverpool og Swansea gerðu 2-2 jafntefli í ansi kaflaskiptum og skrautlegum leik á mánudagskvöld. Jonjo Shelvey kom við sögu í öllum mörkum leiksins!

Brendan Rodgers stillti upp örlítið breyttu liði frá síðasta deildarleik. Daniel Agger var ekki í hópnum, vegna lítilsháttar meiðsla sem hann varð fyrir á leið á æfingu á sunnudaginn! Mamadou Sakho tók sæti Danans og var þar með í byrjunarliðinu í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool. Annar nýliði, Victor Moses, var einnig í byrjunarliðinu. Iago Aspas varð því að gera sér að góðu að sitja á bekknum. 

André Wisdom var í stöðu hægri bakvarðar í fjarveru Glen Johnson, sem er meiddur, og Kolo Toure byrjaði á bekknum þannig að Martin Skrtel, sem stóð sig með mikilli prýði gegn Manchester United hélt sæti sínu í hjarta varnarinnar.

Leikurinn byrjaði vægast sagt illa því það voru einungis liðnar tæpar tvær mínútur þegar fyrrum leikmaður Liverpool, Jonjo Shelvey, var búinn að koma heimamönnum yfir. Eftir klafs í teignum barst boltinn til Shelvey sem afgreiddi hann laglega yfir Mignolet og í þaknetið. Fyrsta markið sem Liverpool fær á sig í deildinni á þessari leiktíð staðreynd. Staðan 1-0 í Swansea.  

Einungis tveimur mínútum bætti Jonjo Shelvey okkar mönnum markið upp. Hann fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi Swansea og lenti í vandræðum með að koma honum frá sér. Daniel Sturridge sá hvað verða vildi og stakk sér aftur fyrir varnarmenn heimamanna. Það hlaup borgaði sig, því Shelvey ákvað í sömu andrá að senda boltann til baka á Vorm í markinu. Boltinn fór beint á Sturridge sem var kominn einn fyrir og markamaskínan átti ekki í nokkrum vandræðum með að koma honum í netið. Staðan orðin 1-1 eftir tæplega fjögurra mínútna leik!

Eftir markið náði Liverpool góðum tökum á leiknum og var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik. Á 25. mínútu varði Vorm frábærlega skalla frá Sturridge eftir góðan undirbúning Victor Moses. Á 37. mínútu skoraði Moses síðan sjálfur gott mark, eftir aðra feilsendingu frá Jonjo Shelvey. Hann komst inn í sendingu Jonjo við miðjuna, lék upp að vítateginum og skoraði með góðu skoti neðst í hornið. Sannarlega óskabyrjun hjá Moses. Staðan orðin 1-2 og útlitið gott fyrir okkar menn og fyrrum liðsmaður Liverpool búinn að leggja upp bæði mörkin fyrir gamla liðið sitt.
 
Í seinni hálfleik snerist blaðið hinsvegar við. Leikmenn Swansea komust betur og betur inn í leikinn og eins og svo oft áður misstu okkar menn taktinn í seinni hálfleik. Það er sannarlega áhyggjuefni fyrir Brendan Rodgers og ráðgjafa hans. 

Á 50. mínútu sparkaði Ashley Williams Coutinho nokkuð gróflega niður og var heppinn að uppskera einungis gult spjald fyrir. Brotið var hreinn og klár ásetningur. Fjórum mínútum síðar fór Coutinho af velli, greinilega kvalinn í öxlinni. Það kom síðan í ljós í dag að hann þarf að fara í aðgerð og verður líklega frá fram undir lok októbermánaðar. Það er vissulega skarð fyrir skildi, enda hefur Brassinn farið frábærlega af stað.

Á 64. mínútu jafnaði Swansea metin. Þá skoraði Michu gott mark eftir laglegan skalla frá Jonjo Shelvey. Staðan orðin 2-2 og Jonjo búinn að skora eitt og leggja hin þrjú upp. Ótrúlegur leikur! 

Það sem eftir lifði leiks voru heimamenn mun meira með boltann og okkar menn mega þegar upp er staðið  teljast heppnir að hafa fengið stig út úr leiknum. Meðal annars má þakka Simon Mignolet fyrir það. Hann varði oft vel og verður ekki sakaður um mörkin. Á 87. mínútu varði Belginn til dæmis frábærlega skot frá De Guzman. Liverpool náði loks hættulegri sókn á síðustu andartökum leiksins og litlu munaði að mark yrði úr. Niðurstaðan 2-2 jafntefli í kaflaskiptum leik þar sem allt púður var úr okkar mönnum í síðari hálfleik.

Liverpool: Mignolet, Wisdom (Toure á 69. mín.), Skrtel, Sakho, Enrique, Gerrard, Leiva, Coutinho (Aspas á 55. mín.), Henderson, Moses (Sterling á 81. mín.) og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Jones, Kelly, Alberto og Ibe.

Mörk Liverpool: Sturridge á 4. mínútu og Moses á 37. mínútu.

Gul spjöld: Lucas Leiva, Andre Wisdom og Jordan Henderson.

Swansea: Vorm, Williams, Rangel, Flores, Davies, Britton, Shelvey, Dyer (De Guzman á 46. mín.), Routledge, Michu og Bony (Pozuelo á 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Tremmell, Tiendalli, Amat, Canas og Vasquez.

Mörk Swansea: Jonjo Shelvey á 2. mínútu og Michu á 66. mínútu. 

Gul spjöld: Jonjo Shelvey og Ashley Williams. 

Áhorfendur á Liberty Stadium: 20.752.

Maður leiksins: Það er erfitt að gera upp á milli Martin Skrtel og Simon Mignolet. Belginn kemur afskaplega sterkur inn í markinu og fyllir skarð Pepe Reina mjög vel, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Slóvakinn fær hinsvegar heiðurinn að þessu sinni. Hann fylgdi eftir góðum leik sínum gegn Manchester United á dögunum og hefur nú gefið Brendan Rodgers nýtt lúxusvandamál þegar kemur að því að velja miðvedrði í liðið. Skrtel hafði raunar enn meira að gera í þessum leik en gegn Manchester United, kannski fyrst og fremst vegna þess að félagi hans í miðverðinum, hinn nýi Mamadou Sakho, virtist alls ekki tilbúinn og oftar en ekki kom Skrtel til bjargar eftir misheppnuð hlaup og tæklingar Frakkans. 

Brendan Rodgers: Við spiluðum vel í 65 mínútur, þá náði Swansea tökum á leiknum. Ég er vonsvikinn yfir því hvernig við slökuðum á klónni, en að sama skapi er ég ánægður með að við skyldum ná að hanga á jafnteflinu. Úr því sem komið var. Við eigum ennþá langt í land, en það var margt jákvætt í okkar leik. 

                                                                                             Fróðleikur:

- Stigið sem liðið náði í Swansea gerir það að verkum að liðið er enn á toppi deildarinnar. Nú með 10 stig eftir 4 leiki.

- Daniel Sturridge hefur skorað í fjórum fyrstu deildarleikjum Liverpool á tímabilinu. Það þarf að fara allt aftur til ársins 1987 til þess að finna Liverpool striker sem hefur afrekað það, en þá var John Aldridge í góðum gír fyrir okkar menn. Sællar minningar. 

- Steven Gerrard var í dag fyrirliði Liverpool í 400. sinn.

- Daniel Sturridge er nú búinn að skora sex mörk á leiktíðinni.

- Victor Moses skoraði í fyrsta leik sínum með Liverpool.

- Mamadou Sakho lék sinn fyrsta leik með Liverpool.

- Jonjo Shelvey átti þátt í öllum mörkum leiksins. Það er afrek út af fyrir sig.

Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér má lesa viðbrögð Brendan Rodgers eftir leikinn.

Hér má horfa á viðtal við Brendan sem tekið var eftir leik. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan