| Sf. Gutt

Victor ánægður með frumraun sína

Victor Moses hefði ekki getað byrjað betur lánsferil sinn hjá Liverpool. Hann átti góðan leik í Swansea í gærkvöldi og skoraði líka fínasta mark. Nígeríumaðurinn er þar með kominn í flokk þeirra sem hafa skorað í sínum fyrsta leik með Liverpool. Victor hafði meðal annars þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.com eftir leik. 

,,Það er alltaf frábært að komast á markalistann. Þetta var alveg fínasta mark. Ég náði boltanum eftir mistök þeirra á miðjunni, lék inn á miðjuna, kom markmanninum úr jafnvægi og sendi boltann í markið."

,,Það var frábært að klæðast rauðu treyjunni, komast aftur út á völl og njóta þess að spila knattspyrnu. Það er alltaf það sem mestu máli skiptir."
 
,,Þetta var mjög góður leikur hjá okkur í dag og við erum ánægðir með úrslitin. Mér fannst úrslitin sanngjörn. Við hefðum getað náð öllum stigunum en þetta var ekki neitt auðveldur leikur fyrir okkur. Við vissum að það yrði erfitt að spila hérna. Það var sanngjarnt að ná stigi og við erum ánægðir með það."

Þó svo að sigur sé auðvitað alltaf betri en jafntefli þá eru líklega allir á því að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit. Liverpool er að minnsta kosti í fyrsta sæti í deildinni og það verður ekki betra fyrir okkur stuðningsmenn Rauða hersins.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan