| Sf. Gutt

Ein stærsta stundin á ferlinum!

Steven Gerrard hefur tekið þátt í mörgum stórleikjum og afrekað margt eftirminnilegt á einstökum ferli sínum. Hann segir þó að ágóðaleikurinn á móti Olympiakos hafi verið ein stærsta stundin á glæsilegum ferli sínum og þá er nú mikið sagt. Steven hafði meðal annars þetta að segja eftir leikinn í dag.
 
,,Allt gekk fullkomlega. Við unnum góðan sigur, það reyndi vel á okkur, við fengum mikið úthaldslega út úr leiknum og stuðningsmennirnir voru frábærir. Ég verð að færa, öllu Olympiakos liðinu og starfsfólki þess, innilegar þakkir fyrir að koma hingað og spila af alvöru við okkur. Þetta var góð prófraun fyrir okkur."

Áhorfendur mættu vel á Anfield en alls borguðu 44.362 áhorfendur sig inn á leikinn. Fyrirliðinn var hylltur af þeim í Musterinu fyrir og eftir leikinn. Steven segir að stuðningsmenn Liverpol hafi alltaf reynst sér frábærlega.

,,Stuðningsmennirnir hafa alltaf reynst mér frábærlega frá því ég spilaði minn fyrsta leik. En að ganga út á völlinn með litlu dætrunum mínum, sem skipta mig mestu máli af öllu, var alveg á borð við að vinna stórtitlana sem ég hef unnið með félaginu. Þetta allt var mjög tilfinningaþrungið og ég naut hverrar einustu mínútu."

Steven Gerrard átti sannarlega skilið að fá ágóðaleik eftir allt það sem hann hefur gert fyrir Liverpool. Leikurinn var eftirminnilegur fyrir Steven sjálfan en aðrir eiga líka eftir að njóta leiksins en þó á annan hátt. Allur ágóði af leiknum mun renna óskiptur til góðra málefna í gegnum stofunina sem Steven Gerrard rekur í eigin nafni og styrkir aðallega börn og unglinga sem eiga erfitt uppdráttar. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan