| Sf. Gutt

Ágóðaleikur fyrir Steven á morgun!

Liverpool mætir gríska liðinu Olympiakos á Anfield á morgun í ágóðaleik fyrir Steven Gerrard. Tilkynnt var á vordögum að Liverpool F.C. hefði ákveðið að veita Steven Gerrard ágóðaleik fyrir dygga þjónustu. Olympiakos þáði boð um að vera mótherji Liverpool í leiknum. Mótherjavalið kemur til af því að Steven skoraði eitt eftirminnilegasta mark sitt fyrir Liverpool gegn gríska liðinu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á leiðinni til Istanbúl. Liverpool þurfti tveggja marka sigur, þegar liðin mættust þann 8. desember 2004, og Steven skoraði lokamarkið í 3:1 sigri eins og sjá má hér að neðan. Leikurinn fór strax og verður alla tíð í þjóðsagnasafni Liverpool. 

 

Steven Gerrard ákvað strax að allur ágóði af leiknum myndi renna til góðgerðarmála í gegnum góðgerðarsamtök hans Steven Gerrard foundation. Leikurinn hefst þegar klukkuna vantar stundarfjórðung í hádegið. Hægt er að horfa á leikinn á Stöð2 sport2 ef rétt er vitað.

Víst er að mikið verður um dýrðir á Anfield Road á morgun en sjálfur vill Steven lítið gera úr viðburðinum. Venjulega eru ágóðaleikir með þeim hætti að sá sem leikurinn er fyrir býður fjölda leikmanna sem hafa leikið með honum á ferlinum og svo er ekki tekist alvarlega á í sjálfum leiknum. Steven vill þó ekki hafa þennan hátt á. Hann hefur sagt að leikurinn eigi að vera hluti af undirbúningi Liverpool fyrir komandi leiktíð og það verði tekið á því!



Þó er búið að staðfesta að þeir Robbie Fowler og Jamie Carragher taki þátt í leiknum. Báðir æfðu á Melwood í morgun. Meira en næsta víst er að þeim félögum verður vel tekið í Musterinu. Ekki er útilokað að einhverjir fleiri fyrrum leikmenn Liverpool skjóti óvænt upp kollinum. Það verður því svolítið gaman í bland við alvöruna sem Steven vill hafa í leiknum. Búast má við að uppselt verði á leikinn.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um feril Steven Gerrard hjá Liverpool, 630 leiki og 159 mörk, og öll afrek hans með félaginu. Hann er af mörgum kominn á þann stall að vera talinn besti leikmaður í sögu félagsins. Hvort sem hann er það eða ekki er ekki spurning um að Steven verðskuldar ágóðaleikinn fyrir allt það sem hann hefur gert innan vallar og eins utan fyrir félagið okkar. Mörk og magnaðir sigrar eru eitt en hollusta hans hefur líka verið ómetanleg!!!

Hér má skoða umfjöllun Liverpool Echo um Steven í tilefni af leiknum.

Hér má sjá myndir af æfingu Liverpool í morgun af vefsíðu Daily Mail.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan