| Heimir Eyvindarson

Er Luis búinn að semja við Real Madrid?

Spænska blaðið Marca greinir frá því að Luis Suarez og umboðsmaður hans hafi átt í viðræðum við Real Madrid, án samþykkis Liverpool. Málið er litið alvarlegum augum á Anfield.

Marca þykir ágæt heimild þegar málefni Real Madrid eru annars vegar og því er það áhyggjuefni að blaðið skuli koma fram með fullyrðingar af þessu tagi. Sé frétt blaðsins rétt hefur Suarez gerst sekur um alvarlegt samningsbrot.

Forráðamenn Liverpool hafa sett sig í samband við Suarez og vilja að leikmaðurinn geri hreint fyrir sínum dyrum. Liverpool hefur ekki fengið svo mikið sem fyrirspurn um Suarez frá spænska liðinu og því koma þessi tíðindi Liverpoolmönnum í opna skjöldu.

Raunar hefur ekki borist eitt einasta boð í Suarez nú í sumar, þrátt fyrir að leikmaðurinn hafi gefið það í skyn í blaðaviðtölum að hann kynni að vera á förum frá Englandi. Hugsanlega fælir verðmiðinn áhugasama kaupendur frá, en Liverpool mun ekki vera tilbúið að láta þennan mikla markaskorara frá sér fyrir minna en 40 milljónir punda.

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan