| Sf. Gutt

Stál í stál!

Grannliðin Liverpool og Everton leiddu saman hesta sína í 220. sinn. Ekkert var gefið eftir en liðin skildu jöfn án marka. Jamie Carragher lauk glímum sínum gegn Bláliðum í sínum 30. leik gegn þeim.

Brendan Rodgers hafði lið sitt óbreytt enda tóku þeir sömu piltar Newcastle United 0:6 í gegn í síðasta leik. Liverpool þurfti líka á mörkum að halda ef ætti að takast að komast upp fyrir Everton. Fyrir leik þökkuðu stuðningsmenn Liverpool Everton grönnum sínum stuðninginn í gegnum árin, í Hillsborough málinu, með mögnuðu myndverki í Kop stúkunni.

Athyglin fyrir leikinn beindist mjög að Jamie Carragher sem var að leika sinn síðasta leik á móti Everton. Leikurinn hófst af krafti eins og við var að búast og leikmenn tókust hressilega á. Dómarinn leyfði mönnum að takast á sem var gott. Liverpool ógnaði fyrst á 10. mínútu. Steven Gerrard sendi þá frábæra sendingu fram á Daniel Sturridge. Hann komst inn í vítateiginn en varnarmaður bjargaði. Sjö mínútum seinna slapp mark Liverpool naumlega. Eftir aukaspyrnu frá vinstri náði Marouane Fellaini að stýra boltanum að markinu en boltinn fór hárfínt framhjá.

Á 20. mínútu komst Daniel í skotstöðu en skot hans var mislukkað. Þar fór hann illa að ráði sínum því Philippe Coutinho var í góðri stöðu og hefði Daniel frekar sent boltann. Litlu áður skaut hann líka þegar hann hefði getað gefið á Jordan Henderson sem var vel staðsettur.

Á 30. mínútu sendi Stewart Downing fyrir frá hægri. Jordan fékk boltann vinstra megin í teignum og lagði hann út á Steven en varnarmaður komst fyrir skot hans á síðustu stundu. Tveimur mínútum síðar fékk Liverpool aukaspyrnu nokkru utan teigs. Steven tók hana en fast skot hans sveif framhjá vinklinum. Fimm mínútum fyrir leikhlé bjargaði Phil Jagielka með magnaði tæklingu þegar Philippe var nærgöngull í vítateignum. Það var því ekkert mark komið í vorsólinni þegar kom að leikhléi.

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn vel og á 48. mínútu komst Daniel inn í vítateiginn eftir frábæra sendingu frá Philippe. Hann reyndi að leika á Tim Howard en hann lokaði vel á Daniel og boltinn hrökk í burt. Sóknin hélt áfram og Daniel fékk boltann aftur en skot hans fór í hliðarnetið. Fyrsta færið var upplagt og Daniel hefði átt að reyna að skjóta strax í stað þess að reyna að leika á Tim. 

Á 56. mínútu fékk Everton horn frá hægri. Boltinn sveif yfir á fjærstöng þar sem Sylvain Distin skallaði í mark. En áður en boltinn fór í markið dæmdi dómarinn aukaspyrnu á Everton. Markið stóð því ekki og var ekki gott að segja á hvað dómarinn dæmdi en líklega dæmdi hann á leikmann Everton fyrir hindrun. Ekki var séð að það væri rétt en Everton slapp vel á Goodison Park í haust þegar löglegt sigurmark var dæmt af Luis Suarez. Reyndar hefði dómarinn getað flautað á Sylvian en hann ruddi Jamie Carragher um þegar hann skoraði. Hvað sem var þá stóð markið sem betur fer ekki. 

Þremur mínútum seinna komst Philippe í skotstöðu en laust skot hans fór beint á Tim. Hann líkt og Daniel fyrr í leiknum hefði betur litið í kringum sig og sent á einhvern í betri stöðu. Þegar um stundarfjórðungur var eftir stakk Daniel boltanum fram á Steven sem lék inn í vítateiginn og komst framhjá Tim en Sylvian komst fyrir skot hans sem stefndi í autt markið. Þarna var Steven óheppinn.

Þegar tíu mínútur voru eftir fékk Liverpool aukaspyrnu frá hægri. Steven sendi vel fyrir á Daniel Agger en skalli hans fór framhjá. Þar átti Daninn að gera betur. Nokkrum mínútum seinna braust Jose Enrique fram og sendi þvert fyrir markið en því miður var varamaðurinn Fabio Borini ekki kominn nógu snemma á svæðið og boltinn fór í gegnum allt og alla. 

Á 87. mínútu ógnaði Everton eftir langt hlé. Victor Anichebe átti þá skot utan vítateigs sem rakst í varnarmann og skaust hátt upp í loftið. Jose Reina var ekki alveg öruggur í markinu og það endaði með því að hann sló boltann í þverslána og þaðan fór hann aftur fyrir markið. Þegar dómarinn flautaði til leiksloka hafði ekkert mark verið skorað og því varð ekki haggað. Það stefnir því allt í að Liverpool endi fyrir neðan Everton annað árið í röð og það er ekki gott mál!   

Liverpool: Reina, Johnson, Carragher, Agger, Enrique, Leiva, Gerrard, Downing (Skrtel 79. mín.), Henderson (Borini 66. mín.), Coutinho og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Jones, Assaidi, Coates, Suso og Shelvey.
 
Gult spjald: Fabio Borini.
 
Everton: Howard, Coleman, Jagielka, Distin, Baines, Mirallas (Jelavic 75. mín.), Osman, Gibson, Pienaar, Fellaini og Anichebe. Ónotaðir varamenn: Mucha, Hibbert, Heitinga, Oviedo, Naismith og Duffy.

Gul spjöld: Leon Osman og Victor Anichebe.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 44.991.
 
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn var magnaður eins og svo oft á þessu keppnistímabili. Hann var úti um allan völl og átti margar glæsilegar sendingar. Hann var líka hættulegur uppi við mark Everton.  

Brendan Rodgers: Við vorum ekki upp á okkar besta í dag en í svona leikjum verða menn að berjast. Mér fannst þetta vera dæmigerður baráttuleikur. Við náðum ekki neinum gangi í spilið í fyrri hálfleik og fengum aðeins nokkur hálffæri. En síðari hálfleikurinn var mun betri. Við fengum nokkur færi til að skora. Mér fannst við óheppnir að skora ekki.


                                                                                 Fróðleikur.

- Þetta var í 220 sinn sem Liverpool og Everton mætast.
 
- Liðin mættust í 100. sinn á Anfield Road.

- Jamie Carragher var að spila sinn 30. leik gegn Everton.

- Grannliðin skildu jöfn í báðum leikjunum á þessari leiktíð.
 
- Liverpool hélt markinu hreinu í 15. sinn á leiktíðinni.

- Everton hefur ekki unnið á Anfield Road á þessari öld.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers af vefsíðu BBC.

Hér er viðtal við David Moyes af vefsíðu BBC.

Hér er viðtal við Jamie Carragher.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan