| Sf. Gutt

Spáð í spilin

Rafa snýr aftur! Reyndar eru Liverpool og Chelsea að fara að spila mikilvægan leik en það er aðallega rætt um endurkomu Rafael Benítez á Anfield Road þar sem hann var í hávegum hafður. Hann er svo sem ennþá í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Liverpool og víst er að honum verður vel tekið þegar hann gengur út á Anfield til að stjórna núverandi lærisveinum sínum. Jú, það verður undarlegt að sjá Rafa leggja á ráðin til að klekkja á Liverpool og það með Chelsea en þau voru mörg skiptin sem hann lagði á ráðin um að snúa einmitt það lið niður.


En hvað um leikinn sjálfan? Liverpool hefur ekki tekist að skora í síðustu tveimur leikjum þrátt fyrir að Rauðliðar hafi vaðið í færum. Fyrir þessa leiki hafði ekkert lið skorað fleiri mörk frá áramótum. Luis Suarez náði heldur ekki að skora í þessum leikjum og það hafði sitt að segja. En tölfræði um síðustu eitthvað og síðustu hitt skiptir litlu. Það er heildarstaðan sem skiptir öllu og þegar hún er skoðuð stendur Liverpool ekki nógu vel. að minnsta kosti ekki miðað við væntingar stuðningsmanna sinna!


Liklega eru stuðningsmenn Chelsea ekki heldur fullkomlega ánægðir með liðið sitt. Liðið hóf leiktíðina sem Evrópu- og bikarmeistari. Evrópubikarinn er löngu úr sögunni og bikarvarslan endaði um síðustu helgi þegar liðið tapaði 2:1 fyrir Manchester City í undanúrslitum. Þegar hér er komið við sögu snýst allt hjá Rafael Benítez um að ná sæti í Meistaradeildinni og svo er auðvitað möguleiki á að vinna Evrópudeildina. Nái hann þessum tveimur markmiðum getur hann farið frá Chelsea nokkuð sáttur miðað við allt sem á undan er gengið.

Liverpool mun vinna þennan leik. Chelsea hefur gengið upp og ofan í síðustu leikjum og Liverpool fer að skora. Liverpool vinnur 2:0. Luis og Steven skora. Rafa fær góðar móttökur á Anfield en ekkert annað að þessu sinni!

YNWA

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan