| Sf. Gutt

Spáð í spilin

Það var erfitt að sætta sig við brottfallið úr Evrópudeildinni. Sumir myndu kannski segja að það skipti litlu að vera áfram með í þeirri keppni. En allar keppnir skipta máli og það er alltaf ákveðin stemmning í hverri bikarkeppni fyrir sig. Síðasta sunnudag fögnuðu stuðningsmenn og leikmenn Swansea á Wembley eftir að hafa unnið Deildarbikarinn. Fyrir réttu ári voru stuðningsmenn Liverpool og leikmenn í þeirra sporum.

Ég get vottað af eigin reynslu á Wembley að það er engu líkt að fagna titilsigrnum. Öllum öðrum nema einum hef ég fagnað hér heima á Íslandi og það er svo sem sama hvar maður er þegar titlum Liverpool er fagnað. Íþróttir snúast um að vinna leiki og keppnir og því fleiri keppnir sem hægt er að vinna því betra. Hvert lið hefur öruggan aðgang að þremur keppnum á Englandi og svo er spurning um að komast í Evrópukeppni. Liverpool á nú í harðri baráttu um að vinna sér Evrópusæti á þessari leiktíð og sem stendur er ekkert fast í hendi í þeim efnum. Það má því ekkert út af bera til vors og nú eru bara deildarleikir eftir og því ætti að vera hægt að leggja allt í hvern einasta!

Næst á dagskrá er stutt rútuferð til Wigan. Wigan er í grunninn eitt þessara minni liða sem stóru liðin eiga að vinna en það er ekki alltaf svo. Reyndar er bara gaman þegar minni liðin stríða þeim stærri. Að minnsta kosti þegar það er ekki á kostnað Liverpool. Fyrst eftir að Wigan komst upp í efstu deild vann Liverpool alltaf en nú mætti segja að Wigan væri komið með eitthvað tak á Liverpool. Að minnsta kosti hefur Wigan ekki tapað í síðustu fjórum leikjum gegn Liverpool og á síðustu leiktíð gerðu þeir sér lítið fyrir og unnu í fyrsta sinn á Anfield. Liverpool hefur heldur ekki unnið í Wigan frá því 2007 ef rétt er munað. Hver man ekki eftir leiknum þar á síðustu leiktíð? Leikmenn Liverpool sýndu Luis Suarez stuðning með bolunum góðu eða illræmdu fyrir leik. Liverpool átti svo að vinna en Charlie Adam mistókst að koma vítaspyrnu í markið og ekkert mark var skorað.  

Brendan Rodgers leiðir Liverpool til leiks undir kvöld á morgun. En var möguleiki á að Roberto Martinez væri í hans sporum? Jú, líklega eða hvað? Að minnsta kosti ræddi John Henry við hann í vor eftir að Kenny Dalglish vék. Eftir ráðningu Brendan sagði Tom Warner að Brendan hafi verið sá maður sem eigendur Liverpool vildu fá og Norður Írinn var ráðinn en ekki Spánverjinn. Hvað veit maður?

Wigan hefur átt erfitt uppdráttar síðustu vikur nema hvað liðinu hefur vegnað vel í F.A. bikarnum sem er heldur óvenjulegt. Slkt gengi í deildinni lagaðist snarlega um síðustu helgi þegar liðið vann 0:3 í Reading. Wigan hefur jafnan farið í gang á útmánuðum og nú er Góa hafin. Ég held samt að Liverpool nái loksins að vinna Wigan. Liverpool hefur leikið vel í síðustu leikjum og nú er komið að sigri í Wigan. Hann verður harðsóttur og ekki nema 1:2.

YNWA

Hér má sjá leikmenn Liverpol æfa sig á Melwood í gær.     

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan