| Sf. Gutt

Steven segir Luis þann besta!

Liverpool fer til Manchester í dag og mætir Rauðu djöflunum. Í framlínu liðanna eru þeir menn sem hafa skorað flest mörk í deildinni það sem af er leiktíðar. Mikið hefur verið rætt um hvor sé betri Luis Suarez eða Robin Van Persie. Steven Gerrard er ekki í nokkrum vafa.

,,Ég tel að Suarez og Van Persie, eins og þeir eru að spila núna, séu tveir bestu leikmenn deildarinnar. Van Persie er leikmaður í fremmstu röð og mér finnst mjög gaman að horfa á hann en Luis er besti sóknarmaður sem ég hef nokkurn tíma leikið með. Af hverju? Horfiði bara á hann spila. Ímyndaðu þér að þú værir varnarmaður og ættir að gæta hans."
 
,,Hann býr yfir öllum þeim hæfileikum sem til þarf ekki satt? Hann getur skorað frábær mörk, potað inn af stuttu færi og ef hann snýr á þig inni í vítateignum ertu kominn í vandræði. Hann er baráttuhundur og vill ekki einu sinni tapa þegar hann er á æfingu. Luis uppfyllir allt það sem mér finnst að leikmaður þurfi að hafa til að bera. Hann hefur verið ótrúlegur á þessu keppnistímabili."

Robin Van Persie er búinn að skora 16 mörk á leiktíðinni en Luis Suarez 15. Nú er að sjá hvor bætir við í dag. Það gæti skipt sköpum hvor þeirra skorar meira. En hvernig sem það verður þá vill Steven Gerrard frekar hafa Luis Suarez með sér í liði.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan