| Heimir Eyvindarson

Svekkjandi tap á White Hart Lane

Liverpool tapaði fyrir Tottenham í kvöld í kaflaskiptum leik. Lokatölur urðu 2-1 og Gareth Bale átti þátt í öllum mörkunum.

Brendan Rodgers kom nokkuð á óvart með því að tefla fram óbreyttu byrjunarliði frá leiknum gegn Swansea á sunnudaginn. Það þýddi að Stewart Downing hélt stöðu sinni sem vinstri bakvörður þrátt fyrir að hafa verið frekar slappur í þeirri stöðu gegn Svönunum.

Tottenham byrjaði leikinn mun betur og okkar menn áttu í vök að verjast á fyrstu mínútum leiksins. Strax á fimmtu mínútu skapaðist hætta upp við mark okkar manna þegar Gareth Bale tók firnafast skot beint úr aukaspyrnu. Reina varð að slá boltann út í teig og eftir mikinn atgang náði Glen Johnson að lauma boltanum aftur fyrir endalínu og bægja hættunni frá.

Mínútu síðar átti Bale ágætt skot rétt framhjá marki Liverpool. Á 7. mínútu prjónaði Bale sig síðan í gegnum alla vörn Liverpool, sendi boltann fyrir markið á Aaron Lennon sem gat ekki annað en skorað, enda fáránlega illa dekkaður af vinstri bakverðinum Downing. Staðan 1-0 fyrir heimamenn.

Á 9. mínútu fór Luis Suarez illa með gott færi sem varð til upp úr engu. Hugo Lloris í marki Tottenham sá við honum, enda skotið alls ekki nógu gott.

Á 14. mínútu fékk Jordan Henderson síðan langbesta færi leiksins. Eftir gott samspil Enrique og Suarez og klúður hjá Lloris í marki Tottenham barst boltinn til Henderson sem hefði getað rennt honum í autt markið ef hann hefði verið nægilega ákveðinn. Henderson skorti hinsvegar algjörlega kjark og dug og virtist skíthræddur við Kyle Walker sem kom á ferðinni til þess að bjarga málunum. Máttleysisleg tilraun Henderson fór vel framhjá markinu. Virkilega illa farið með gott færi.

Tveimur mínútum síðar kom Henderson síðan örlítið við Clint Dempsey sem féll í jörðina með miklum tilþrifum. Phil Dowd dæmdi umsvifalaust aukaspyrnu sem Gareth Bale skoraði úr. Boltinn hafði viðkomu í Henderson þannig að Reina, sem kominn var í hitt hornið, kom engum vörnum við. Slysalegt mark. Staðan orðin 2-0 fyrir heimamenn og útlitið dökkt á White Hart Lane.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn komust okkar menn heldur meira inn í leikinn, án þess þó að skapa mikla hættu upp við mark andstæðinganna. Á 36. mínútu átti Liverpool ágæta sókn sem endaði með því að Gerrard spændi inn í teig. Þar féll hann eftir viðskipti við Kyle Walker og vildu margir stuðningsmenn að Phil Dowd dæmdi vítaspyrnu. Hann lét flautuna þó alveg vera í þetta skiptið.

Fyrri hálfleikur rann út og leikmenn Liverpool héldu til búningsherbergjanna með 2 mörk á bakinu.

Seinni hálfleikurinn spilaðist allt öðruvísi en sá fyrri. Liverpool var mun sterkara liðið á vellinum og sótti án afláts strax frá byrjun. Tottenham menn voru ekki eins beittir fram á við, enda hafa þeir væntanlega lagt meira kapp á að halda fengnum hlut fremur en að bæta í.

Það var þó ekki fyrr en á 70. mínútu sem okkar menn fengu alvöru færi. Þá fékk Enrique ágæta sendingu frá Johnson, en náði ekki að klára færið.

Tveimur mínútum síðar minnkaði Gareth Bale muninn fyrir Liverpool með skondnu sjálfsmarki. Ágæt sókn okkar manna endaði með því að Steven Gerrard skallaði að marki. Aaron Lennon hreinsaði frá á línu, en ekki vildi betur til en að hann hamraði boltanum í fésið á Bale sem stóð rétt fyrir framan hann. Bale lá óvígur eftir og boltinn í netinu. Staðan orðin 2-1. Smá vonarneisti fyrir okkar menn.

Á 80. mínútu hefði Luis Suarez síðan getað jafnað leikinn. Þá sýndi Daniel Agger óvænt tilþrif inni í teig heimamanna sem enduðu með því að hann kom boltanum fyrir markið með bakfallsspyrnu. Tilþrif Danans voru svo óvænt að bæði Hugo Llloris og varnarmenn Tottenham voru illa á verði þegar boltinn kom fyrir markið og Luis Suarez fékk því skyndilega algjört dauðafæri til þess að jafna leikinn. Úrúgvæinn ætlaði hinsvegar að rífa netmöskvana og þrumaði boltanum yfir.

Þrátt fyrir þunga sókn Liverpool á lokamínútunum rann leiktíminn út án þess að okkar mönnum tækist að jafna leikinn. Niðurstaðan í London 2-1 tap í leik þar sem allt of margir leikmenn Liverpool mættu hreinlega of seint til leiks.

Tottenham: Lloris,  Vertonghen, Dawson, Walker, Sandro, Caulker, Dembele (Huddlestone á 88. mín.), Dempsey (Gylfi Sigurðsson á 64. mín.), Bale, Lennon, Defoe. Ónotaðir varamenn: Friedel, Carroll, Naughton, Gallas, Dembele,

Mörk Tottenham: Lennon á 7. mín. og Bale á 16. mín.

Gult spjald:
Bale

Liverpool:  Reina, Johnson, Agger, Skrtel, Downing (Assaidi á 79. mín.), Allen, Henderson (Shelvey á 63. mín.), Gerrard, Jose Enrique, Sterling, Suarez.  Ónotaðir varamenn:  Jones, Wisdom, Carragher, Sahin, Suso.

Mark Liverpool: Bale, sjálfsmark á 72. mín.

Gul spjöld:
Skrtel og Enrique.

Dómari leiksins:
  Phil Dowd.

Áhorfendur á White Hart Lane:  36.162.

Maður leiksins: Luis Suarez fær nafnbótina að þessu sinni eins og svo oft áður. Það er samt sem áður afar erfitt að velja mann leiksins að þessu sinni. Allt of margir leikmenn Liverpool gerðu sig ítrekað seka um klaufaleg mistök í kvöld, en Suarez var eins og venjulega allt í öllu í sóknarleik Liverpool og hlýtur því heiðurinn.  

Brendan Rodgers:  ,,Ef við lítum fram hjá fyrstu fimmtán mínútum leiksins þá spiluðum við vel og hefðum verðskuldað að fá eitthvað út úr leiknum. Við verðum að fara að klára færin okkar betur og ná fram betri úrslitum."

Fróðleikur:

- Tottenham hefur gengið mjög vel með Liverpool undanfarin ár. Síðasti sigur Liverpool gegn Tottenham var á leiktíðinni 2009-2010. Þá sigraði Liverpool Tottenham á Anfield með tveimur mörkum frá Dirk Kuyt.

- Það þarf að fara aðeins lengra aftur í tímann til þess að finna útisigur á Tottenham, en Liverpool sigraði Lundúnaliðið síðast á White Hart Lane í síðasta leik tímabilsins 2007-2008. Þá sigraði Liverpool einnig 2-0, en í það skiptið skoruðu Voronin og Torres mörk okkar manna.

- Þrátt fyrir rýra uppskeru Liverpool í leikjum gegn Tottenham hin síðari ár er sagan enn okkur í hag. Liðin hafa nú mæst alls 158 sinnum. 47 sinnum hefur Tottenham unnið, 38 sinnum hefur orðið jafntefli og 73 sinnum hefur Liverpool farið með sigur af hólmi.

- Langflestir sigrarnir hafa þó komið á Anfield og verður að segjast eins og er að tölfræðin á White Hart Lane er ekki beysin. Þar hefur Tottenham sigrað 39 af viðureignum liðanna en Liverpool einungis 24.

- Eftir að Úrvalsdeildin kom til sögunnar hafa liðin mæst 21 sinnum á White Hart Lane. Liverpool hefur einungis unnið 5 leikjanna, Tottenham 11.

- Stærsti sigur Liverpool á Tottenham kom árið 1975 á Anfield. Þá sigraði Liverpool 4-0.

- Stærsti tapið kom hinsvegar í Lundúnum árið 1963. Þá sigraði Tottenham okkar menn 7-2.

- Leikirnir gegn Tottenham eru yfrleitt frekar fjörugir. Eftir að Úrvalsdeildin byrjaði hafa 112 mörk verið skoruð í 41 leik milli liðanna. Það er einungis í viðureignum okkar manna gegn Newcastle sem fleiri mörk hafa verið skoruð, eða 116 talsins.

- Þetta var í fyrsta sinn sem Andre Villas-Boas tekst að landa sigri gegn Liverpool. Þetta var í fjórða skipti sem Portúgalinn stýrir liði gegn Liverpool. Þann stutta tíma sem hann var með Chelsea á síðustu leiktíð mætti hann Liverpool tvívegis. Fyrri leikurinn var í deildinni 20. nóv. 2011. Þann leik vann Liverpool 2-1, með mörkum frá Maxi og Glen Johnson. Níu dögum síðar mættust liðin í deildabikarnum og aftur vann Liverpool og aftur skoraði Maxi! Hitt markið í þeim leik skoraði Martin Kelly. Báðir þessir leikir fóru fram á Stamford Bridge og hafa eflaust átt sinn þátt í því hversu stutt Portúgalinn staldraði við á þeim vígstöðvum.

- Í sumar mættust síðan Tottenham og Liverpool í æfingaleik í Bandaríkjunum, rétt eftir að Villas-Boas og Brendan Rodgers höfðu tekið við liðunum. Sá leikur endaði 0-0.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan