| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool ferðast til Lundúna annað kvöld og mætir þar Tottenham liði Andre Villas-Boas. Liverpool hefur gengið fremur illa með Tottenham að undanförnu, en ágætlega með Villas-Boas.

Liverpool hefur nú leikið 8 leiki í röð án taps í Úrvalsdeildinni og ýmislegt bendir til þess að liðið sé að ná sér á strik, eftir erfiða byrjun undir stjórn Brendan Rodgers. Það sama má kannski segja um Tottenham, en gengi liðsins frá því að Villas-Boas tók við stjórastöðunni af Harry Redknapp hefur verið undir væntingum. Rétt eins og Liverpool hefur aðeins unnið einn sigur í deildinni í nóvember, en sá sigur kom einmitt í síðasta leik þegar Lundúnaliðið vann sannfærandi sigur á grönnum sínum í West Ham.

Liverpool hefur gengið illa með Tottenham undanfarin ár og það þarf að fara aftur til leiktíðarinnar 2009/2010 til að finna Liverpool sigur, en þá sigraði Liverpool Lundúnaliðið 2-0 á Anfield með mörkum frá Dirk Kuyt. Liverpool hefur síðan ekki unnið Tottenham á White Hart Lane síðan á leiktíðinni 2007/2008, en þá var Andriy Voronin meðal markaskorara Liverpool!

Liverpool hefur hinsvegar ekki gengið illa með hinn nýja stjóra Tottenham, Portúgalann Villas-Boas, en á stuttum ferli sínum með Chelsea á síðustu leiktíð mætti hann Liverpool tvisvar og tapaði í bæði skiptin. Þannig að kannski er vonarglæta í spilunum fyrir okkar menn.

Liverpool hefur einu sinni mætt Tottenham eftir að Brendan Rodgers og Villas-Boas tóku við liðunum, en það var í Bandaríkjunum í sumar. Þá skildu liðin jöfn í tilþrifalitlum og markalausum leik. Portúgalinn á því enn eftir að fagna sigri á Liverpool. Vonandi fer hann ekki að taka upp á því á morgun.

Tottenham vann sannfærandi sigur í síðasta leik sínum í deildinni og hugsanlega er liðið komið á beinu brautina eftir rysjótt gengi í upphafi leiktíðar. Við Liverpool menn erum líka að vonast til þess að batamerkin sem sést hafa á liðinu í undanförnum leikjum séu til marks um að betri tímar séu í vændum. Með sigri annað kvöld annað kvöld færist liðið í næsta sæti á eftir Tottenham, með 19 stig, einu stigi minna en Lundúnaliðið.

Andre Wisdom verður að öllum líkindum orðinn leikfær, en hann fór af velli vegna meiðsla í leiknum gegn Young Boys í Evrópudeildinni. Það verður því að teljast líklegt að hann taki stöðu Glen Johnson í hægri bakverðinum og Johnson verði vinstri bakvörður á kostnað Stewart Downing sem átti ekki sinn besta dag í þeirri stöðu gegn Swansea á sunnudaginn.

Lucas Leiva spilaði 60 mínútur með varaliðinu á föstudaginn, en Brendan Rodgers hefur gefið það út að hann muni ekki spila með aðalliðinu fyrr en í desember. Liverpool þarf því væntanlega að þrauka að minnsta kosti næstu tvo leiki án krafta hans.

Auk Lucasar eru Fabio Borini, Martin Kelly og Samed Yesil allir frá vegna meiðsla. Tottenham liðið verður án Emmanuel Adebayor, sem tekur út leikbann á morgun. Þá eru Scott Parker, Assou-Ekotto og Younès Kaboul allir meiddir.

Vissulega hafa sést nokkur batamerki á leik Liverpool að undanförnu. Leikmenn virðast vera orðnir öruggari í sínum leik og vera farnir að ná betri tökum á leikstíl nýja stjórans. Það er hinsvegar enn á brattann að sækja og það verður að segjast alveg eins og er að sóknarþungi Liverpool er ekkert svakalegur, nema þegar Luis Suarez er í stuði. Sem betur fer er sá ótrúlegi leikmaður oftast nær í góðu stuði og hefur svo sannarlega haldið okkur á floti sóknarlega það sem af er.

Á pappírnum verður að segjast eins og er að Tottenham er með sterkara lið en Liverpool. Við sem þekkjum Liverpool liðið vitum þó vel að oftar en ekki er það þannig hjá okkar mönnum að því sterkari sem andstæðingurinn er, þeim mun betur leikur Liverpool. Vonandi tekst okkar mönnum að gíra sig upp annað kvöld og taka að minnsta kosti eitt stig gegn Villas-Boas og hans mönnum.

Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn og spá 2-1 sigri Liverpool í stórskemmtilegum fótbolltaleik.

YNWA!






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan