| Heimir Eyvindarson

Ánægður með ferilinn hjá Liverpool!

Steven Gerrard leikur í dag sinn 600. leik fyrir Liverpool. Ferillinn hefur verið viðburðaríkur og titlarnir margir, þótt enn vanti einn í safnið. Fyrirliðinn er ánægður með árin hjá Liverpool.

Eftir fyrsta leik sinn fyrir aðalliðið, þegar Steven Gerrard var einungis 18 ára, varð hann fljótlega fastur maður í liðinu. Hann tók við fyrirliðabandinu 23 ára gamall og hefur unnið Meistaradeildina, UEFA bikarinn, FA bikarinn og Deildarbikarinn með Liverpool. Auk þess hefur hann spilað 99 landsleiki fyrir England. Hann er almennt talinn einn allra besti leikmaður LFC frá upphafi. Jamie Carragher segir að hann sé sá besti.

Steven hafði þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.com. „Mig dreymdi aldrei um að ég myndi spila svona marga leiki fyrir Liverpool. Ég er mjög stoltur af þessu og fjölskylda mín líka."

„Þegar ég var að byrja að fara á Liverpool leiki þá var John Barnes stóra hetjan mín. Það að vera búinn að spila fleiri leiki fyrir félagið en hann, Billy Liddell og Kenny Dalglish, sem allir hafa gefið félaginu svo ótrúlega mikið er eiginlega óhugsandi."

„Kannski næ ég Jamie Carragher einn daginn, en það er ekki það sem ég sækist eftir. Það sem er mikilvægast fyrir mig og Jamie er að við höfum fengið að leika hlutverk í sögu félagsins. Það vita allir hvað Liverpool er stórt og merkilegt félag og hvaða þýðingu það hefur fyrir fólk. Þess vegna eru það forréttindi fyrir okkur að fá að eiga smá hlut í sögu LFC."

„Ég reikna ekki með að nokkur muni nokkurn tíma ná Ian Callaghan og hans 857 leikjum fyrir félagið. Hann á það met svo sannarlega skilið og ég held að það verði aldrei slegið. En hver veit?"

„Ég myndi ekki skipta tíma mínum hjá Liverpool fyrir nokkuð annað. Þetta hefur verið frábær tími og magnað að fá að upplifa allt það sem ég hef fengið að upplifa með félaginu. Það eru algjör forréttindi."

„Ég hef breyst talsvert sem leikmaður frá því að ég byrjaði með aðalliðinu. Ég hef orðið að gera breytingar á mínum leikstíl til þess að gagnast félaginu betur og ná meiri stöðugleika í minn leik. Ég verð að segja að þegar ég byrjaði að spila í Úrvalsdeildinni þá var nóg að vera góður í fótbolta. Nú þarftu að vera enn betur þjálfaður og líkamlega sterkari. Deildin hefur orðið erfiðari líkamlega á þessum árum sem ég hef spilað."

„Fótboltinn hefur gefið mér mikið og hefur þroskað mig sem persónu. Ég er þakklátur fyrir það sem ég hef fengið að reyna í boltanum. Ég hef fengið mikinn og góðan stuðning frá fjölskyldunni. Pabbi hefur líklega verið stærsti áhrifavaldur minn."

„Fyrir mörgum árum sagði hann mér að maður fengi einungis það út úr ferlinum sem maður legði í hann. Það hefur hvatt mig til þess að leggja mig alltaf 100% fram. Pabbi hefur stutt mig gríðarlega og hann hefur fylgt mér hvert einasta skref allan þennan tíma. Enn þann dag í dag mætir hann á hvern einasta leik og hvetur mig áfram."

„Það hafa verið mörg stór og eftirminnileg augnablik á mínum ferli. Það að skrifa undir samning við LFC var eitt þeirra. Ég mun heldur aldrei gleyma símtalinu sem ég átti við föður minn eftir að ég lék minn fyrsta leik fyrir aðalliðið, það var ein besta stund sem ég hef upplifað í boltanum. Að heyra stoltið í rödd hans hreyfði virkilega við mér."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan