| Sf. Gutt

Vörninni lokið!

Vörn Liverpool á Deildarbikarnum sem vannst á síðustu leiktíð lauk með skelli í kvöld. Lærisveinar Brendan Rodgers lögðu meistarana 1:3 á Anfield og verða þau úrslit að teljast áfall.

Brendan Rodgers, framkvæmdastjóri Liverpool, breytti liði sínu töluvert frá grannaslagnum á sunnudaginn eins og við var búist. Hann vildi þó hafa vaðið fyrir neðan sig og hafði sína tvo bestu menn, Steven Gerrard og Luis Suarez, til taks á varamannabekknum. Þrátt fyrir breytingar mátti telja lið Liverpool nokkuð sterkt.

Liverpool hóf leikinn heldur betur en án þess að skapa sér nokkur færi og þegar á leið voru það gestirnir sem náðu undirtökum. Um miðjan hálfleikinn náði Pablo Hernandez skoti en Jamie Carragher bjargaði. Michu ógnaði svo en aftur kom varnarmaður til hjálpar. Á 29. mínútu kom Liverpool loksins almennilegu skoti á markið. Stewart Downing átti þá langskot sem Gerhard Tremmel þurfti að hafa fyrir að verja. Rétt á eftir átti Jonathan De Guzman gott færi en skot hans fór yfir.

Það var svo á 34. mínútu að fyrsta markið kom. Chico Flores stökk þá manna hæst og skallaði í mark eftir hornspyrnu. Strax á næstu mínútu fékk Joe Cole upplagt færi til að jafna en laflaus skalli hans úr góðu færi fór beint á markmanninn.

Brendan Rodgers sagði fyrir leikinn að hann hafði mikinn hug á að halda Deildarbikarnum sem lengst í vörslu Liverpool. Hann brást við stöðu mála með því að senda þá Steven Gerrard og Luis Suarez á vettvang strax eftir leikhlé. Samed Yesil og Joe Cole viku af velli. Liverpool hóf síðari hálfleik af krafti og eftir tvær mínútur eða svo var sókn Swansea brotin á bak aftur. Joe Allen lagði boltann á Jonjo Shelvey en hann skaut rétt yfir frá vítateignum. Á 50. mínútu hefði Liverpool átt að jafna. Jonjo sendi góða sendingu fyrir markið á Luis en hann skallaði yfir úr upplögðu færi. 

Leikur Liverpol batnaði en sem fyrr létu mörk á sér standa. Það mátti engu muna á 64. mínútu þegar Steven átti hörkuskot utan teigs sem Gerhard varði. Hann sló boltann í stöng og þaðan hrökk hann út á Stewart en hann hitti ekki markið úr dauðafæri. Þremur mínútum seinna var gerð hörð atlaga að marki Liverpool. Brad Jones varði glæsilega í tvígang og svo bjargaði Jamie á síðustu stundu.

Á 72. mínútu gekk mikið á við mark Swansea en hættunni var bægt frá og úr varð skyndisókn sem vörn Liverpool átti engin svör við. Þrír leikmenn Swansea sluppu í gegn og Nathan Dyer skoraði af stuttu færi. Þarna snerist allt við á punktinum. Naumlega bjargað við mark Swansea og svo skoruðu þeir sjálfir! Deildarbikarmeistararnir lögðu ekki árar í bát og fimm mínútum seinna svöruðu þeir. Steven tók aukaspyrnu frá vinstri og hitti beint á Luis Suarez sem skallaði laglega í mark.

Aðeins tveimur mínútum seinna munaði litlu að Swansea bætti við forystu sína en Brad varði frá Michu með ákveðnu úthlaupi. Rétt á eftir átti Stewart langskot hinu megin en markmaður Swansea varði. Hann hélt þó ekki boltanum en enginn leikmaður Liverpool var til að hirða frákastið. 

Liverpool sótti nú linnulaust og víst lögðu menn allt í sölurnar. Fimm mínútum fyrir leikslok hnoðaði Luis sér framhjá tveimur eða þremur varnarmönnum og náði skoti sem Gerhard varði neðst í horninu. Þar munaði litlu að Liverpool næði að jafna. Það tókst ekki og í viðbótartíma stráðu Svanirnir meira salti í sár Liverpool. Enn var vörn Liverpool í tætlum og Jonathan De Guzman skoraði af stuttu færi. Það var kannski fátt um varnir vegna mikils sóknarþunga Liverpool í von um að jafna. Vörn Liverpool á Deildarbikarnum, sem vannst undir leiðsögn Kenny Dalglish á síðustu leiktíð, var þar með á enda og það er ömurleg staðreynd!

Liverpool: Jones, Henderson, Carragher, Coates, Robinson, Allen, Shelvey, Cole (Gerrard 46. mín.), Downing, Yesil (Suarez 46. mín.) og Assaidi (Sterling 65. mín.). Ónotaðir varamenn: Ward, Suso, Skrtel og Wisdom.
 
Mark Liverpool: Luis Suarez (77. mín.). 

Gult spjald: Jamie Carragher.

Swansea City: Tremmel, Chico (Monk 59. mín.), Richards, Williams, Tiendalli, Hernandez (Routledge 76. mín.), Britton, Ki, Dyer, de Guzman og Michu. Ónotaðir varamenn: Cornell, Graham, Shechter, Agustien og Davies.
 
Mörk Swansea: Chico Flores (34. mín.), Nathan Dyer (72. mín) og Jonathan Guzman (90. mín.).

Gult spjald: Ashley Williams.

Áhorfendur á Anfield Road: 37.521.
 
Maður leiksins: Brad Jones. Það er kannski merkilegt að kjósa markmann sem fékk á sig þrjú mörk sem besta mann en hann átti ekki sök á mörkunum og varði nokkrum sinnum frábærlega.  

Brendan Rodgers: Á heildina litið fannst mér betra liðið vinna. Við fengum nokkuð af færum en við verðum að klára þau. Við getum ekki kvartað yfir neinu.

                                                                     Fróðleikur

- Luis Suarez skoraði níunda mark sitt á leiktíðinni.

- Þetta var 30. mark hans fyrir Liverpool í 66 leikjum.

- Þessi lið höfðu einu sinni áður leikið saman í Deildarbikarnum og þá vann Liverpool.

- Þetta er í fyrsta sinn sem Swansea kemst í átta liða úrslit í Deildarbikarnum.

- Jonjo Shelvey lék sinn 50. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fimm mörk.

- Markmaðurinn Danny Ward var í fyrsta sinn í aðalliðshóp Liverpool. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpool.com. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan