| Grétar Magnússon

Jafntefli gegn Sunderland

Leikmenn Liverpool heimsóttu Sunderland í síðasta leik laugardagsins 15. september.  Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en margir þekkja þó handritið að sögunni sem skrifuð var í leiknum.

Eins og svo oft áður fengu Liverpool menn fleiri færi og hornspyrnur og skutu í markramman en þurftu að sætta sig við að vinna ekki leikinn.

Áður en leikurinn hófst hituðu leikmenn Liverpool upp í treyjum með númerinu 96 aftan á til minningar um fórnarlömb, fjölskyldur og eftirlifendur Hillsborough slyssins en eins og allir vita kom sannleikurinn loks í ljós í vikunni.  Sunderland sýndu einnig stuðning sinn í verki en þeir flögguðu fánum sínum á leikvanginum í hálfa stöng og skilaboð voru birt á tveimur stórum sjónvarpsskjám á vellinum til stuðnings.

En að leiknum.  Brendan Rodgers gerði tvær breytingar á liðinu sem lék gegn Arsenal fyrir tæpum tveim vikum síðan en þeir Martin Kelly og Jonjo Shelvey komu inn fyrir þá Jose Enrique og Nuri Sahin sem settust á bekkinn.  Oussama Assaidi var í fyrsta sinn í leikmannahópnum, hann sat einnig á bekknum.

Leikmenn Liverpool voru í leit að sínum fyrsta sigri í deildinni og þeir byrjuðu betur er Shelvey átti skot framhjá eftir aðeins fjórar mínútur.  Luis Suarez reyndi einnig að hitta markið er hann lék upp völlinn og skaut rétt fyrir utan vítateig en boltinn fór framhjá.

Eftir 18 mínútur pressaði Fabio Borini varnarmann Sunderland vel er hann reyndi að skalla boltann aftur til markmanns síns.  Borini náði skoti að marki en Mignolet í markinu varði, boltinn barst út til Shelvey og hann reyndi viðstöðulaust skot sem fór framhjá.  Þar hefði Shelvey átt að gera betur því Suarez var aleinn inná miðjum vítateig og hefði líklega skorað hefði hann fengið boltann.

Áfram héldu gestirnir að gera sig líklega, Shelvey sendi inná vítateig á Suarez sem tók boltann á brjóstkassann og lagði hann fyrir Borini.  Ítalinn skaut að marki en Mignolet varði vel.

Á 29. mínútu var svo skrifaður kafli sem menn þekkja alltof vel.  Sunderland lögðu af stað í sína fyrstu alvöru sókn í leiknum og Gardner gerði vel úti hægra megin er hann lék framhjá Suarez og svo Glen Johnson og inná vítateig.  Þar sendi hann fyrir markið og fyrstur til að mæta á boltann var Steven Fletcher sem gat ekki gert annað en að skora.  Eitt skot á mark Liverpool og boltinn í netinu. Gestirnir héldu áfram að reyna að skora en engin marktæk færi litu dagsins ljós áður en dómarinn flautaði til hálfleiks.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri og Liverpool menn voru hættulegri.  Shelvey átti langskot sem Mignolet varði auðveldlega og ekki löngu síðar þrumaði Glen Johnson í þverslána eftir góðan leik upp vinstri vænginn og hlaup inní vítateig.  Þarna héldu margir að boltinn myndi nú ekki fara yfir línuna í marki Sunderland.

Sunderland menn náðu áttum um miðjan seinni hálfleik og héldu boltanum ágætlega á milli sín án þess þó að skapa neina alvöru hættu uppvið mark Pepe Reina.  Mikil hætta skapaðist svo uppvið mark Sunderland er Raheem Sterling sendi boltann fyrir markið og varnarmenn heimamanna náðu ekki að hreinsa frá marki, Shelvey fékk boltann og lagði hann inná miðjan vítateiginn þar sem Steven Gerrard skaut að marki.  Boltinn fór vitlausu megin við stöngina og því má segja að úrvalsfæri hafi farið forgörðum.  Margir voru nú endanlega sannfærðir um að leikmenn Liverpool myndu ekki skora mark í leiknum.

Færin fóru nú að verða fleiri hjá gestunum, Martin Skrtel skallaði beint á Mignolet eftir að skot frá Gerrard skoppaði af varnarmönnum.  Á 71. mínútu náðist svo að brjóta ísinn og var markinu vel fagnað.  Raheem Sterling fíflaði varnarmann Sunderland úti hægra megin og sendi fyrir markið, þar var Suarez mættur en hann náði ekki til boltans, heppnin var með honum því boltinn skoppaði aftur til hans frá varnarmanni og eftirleikurinn var auðveldur !

Eftir þetta voru gestirnir hættulegri en náðu þó ekki að skora sigurmarkið.  Næst því komst Jonjo Shelvey er hann lék inná vítateig og náði skoti að marki en því miður var það beint á Mignolet í markinu. Þegar upp var staðið var jafntefli niðurstaðan, það er vissulega skárra en að tapa leiknum en sigur hefði klárlega getað orðið að veruleika líka.

Athygli vakti að þegar um tólf mínútur voru eftir fékk Jose Reina einn úr þjálfaraliðinu til að færa sér nýja skó. Hann skipti svo um skó en hvers vegna hann vildi skipta um skó er ekki gott að segja. Ekki hafði mikið reynt á fótabúnaðinn í síðari hálfleik því Jose var að mestu áhorfandi!  

Sunderland:  Mignolet, Rose (Campbell, 72. mín.), Gardner, O'Shea, Cuellar (Bramble, 46. mín.), Cattermole, Larsson, Colback, McClean, Fletcher (Saha, 86. mín.) og Sessegnon.  Ónotaðir varamenn:  Westwood, Kilgallon, Meyler og Ji Dong-Won.

Mark Sunderland: Steven Fletcher 29. mín.

Gult spjald:  Sebastian Larsson.

Liverpool:  Reina, Kelly, Skrtel, Agger, Johnson, Allen, Gerrard, Shelvey, Sterling, Suarez og Borini (Downing, 64. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Jones, Enrique, Carragher, Sahin, Henderson og Assaidi.

Mark Liverpool:  Luis Suarez 71. mín.

Gul spjöld:  Luis Suarez og Martin Skrtel.

Áhorfendur á Stadium of Light:  41.997.

Dómari leiksins:  Martin Atkinson.

Maður leiksins:  Raheem Sterling fær útnefninguna að þessu sinni en hann var sífellt ógnandi í framlínunni og átti þátt í jöfnunarmarkinu.

Brendan Rodgers:  ,,Ég er búinn að greina frammistöðuna og mér fannst við vera mjög góðir.  Mér fannst sköpunargáfan og hreyfanleikinn vera góður og við náðum upp góðu tempói og takt í leik okkar. Við lentum undir og erum vonsviknir með markið.  Þetta var lélegt mark frá okkar sjónarhorni og það var gegn gangi leiksins.  Í seinni hálfleik sýndum við góð viðbrögð - við héldum áfram að gera það sem við vorum að gera í fyrri hálfleiknum en spiluðum hraðar og vorum beittari."

                                                                        Fróðleikur:

- Þetta var fyrsti leikur Sunderland á heimavelli á leiktíðinni en fyrr á leiktíðinni hafði fyrirhuguðum fyrsta heimaleik þeirra verið frestað vegna ausandi rigningar.

- Þetta var fyrsta mark liðsins í deildinni sem ekki kom eftir fast leikatriði.

- Luis Suarez skoraði sitt annað deildarmark á leiktíðinni.

- Luis hefur alls skorað þrívegis á móti Sunderland.

- Liðin gerðu einnig 1-1 jafntefli í fyrra en þá á Anfield.

- Liverpool hefur ekki unnið Sunderland í síðustu þremur leikjum liðanna.

- Oussama Assaidi var í fyrsta sinn í leikmannahóp félagsins en hann sat á bekknum allan tímann.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan