| Grétar Magnússon

Maxi yfirgefur Liverpool

Í dag var tilkynnt að Maxi Rodriguez muni ganga til liðs við Newell's Old Boys í heimalandi hans, Argentínu. Maxi kom til félagsins frá Atletico Madrid í janúar 2010 og skoraði 17 mörk í 73 leikjum fyrir félagið.  Hann skoraði til dæmis tvær þrennur á skömmum tíma vorið 2011, gegn Birmingham og Fulham og margir muna eftir mörkum hans gegn Chelsea á síðasta tímabili, í deild og Deildarbikar á Stamford Bridge.

Margir töldu að Maxi Rodriguez hefði átt að koma meira við sögu á síðasta keppnistímabili en hann lét jafnan að sér kveða þegar hann fékk tækifæri. Það lá í loftinu áður en Kenny Dalglish lét af störfum að Maxi myndi fara frá Liverpool í sumar og þá heim til Argentínu. Maxi hafði ekki leynt því að hann vildi enda feril sinn með Newell´s Old Boys en það er hans gamla félag. Brendan Rodgers sagði opinberlega, fyrir stuttu, að hann vildi hafa Maxi áfram en Arentínumaðurinn vildi fara heim og það gerði hann.  

Maxi skrifaði opið kveðjubréf til stuðningsmanna félagsins og má það finna á opinberri heimasíðu félagsins. Bréfið er hér fyrir neðan á íslensku en einnig má finna það hér.

Kæru stuðningsmenn, ég mun yfirgefa Liverpool FC í dag.

Áður en ég kom til liðs við félagið leit ég á það sem eitt það besta í heimi.  Eftir tíma minn hér get ég staðfest að þetta er ekki aðeins frábært félag heldur líka frábær fjölskylda.

Ég hef reynt að gefa allt mitt alla daga sem ég bar merki félagsins á brjósti.  Það hefur verið mikill heiður að verja skjöld félagsins í tvö og hálft ár.  Ég sný aftur heim með ferðatösku fulla af frábærum minningum, minningar um góða vini innan liðsins og einnig innan fjölskyldunnar sem vinnur hér hjá félaginu.  Takk kærlega fyrir stuðning ykkar.  Þið getið EKKI ímyndað ykkur hversu mikill heiður það er fyrir mig þegar Kop stúkan söng Maxi, Maxi Rodriguez runs down the wing for me da da da da dada....

Hasta la vista.

Maxi.

Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Maxi Rodriguez góðs gengis á ókomnum árum.

Hér eru allar helstu upplýsingar um Maxi Rodriguez á LFCHISTORY.NET.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan