| Sf. Gutt

Hefði kannski farið öðruvísi!

Liverpool byrjaði leikinn gegn Chelsea í gærkvöldi frábærlega og byrjunin lagði grunn að 4:1 sigri. Jonjo Shelvey, sem var varamaður á Wembley, segir að hugsanlega hefði farið öðruvísi þar ef liðið hefði byrjað jafn vel og á Anfield Road. Jonjo hafði meðal annars þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.tv. eftir leikinn. 

,,Liðið lék frábærlega og við byrjuðum leikinn virkilega vel. Ef við hefðum byrjað svona vel á laugardaginn hefði sagan kannski orðið önnur og við hefðum náð F.A. bikarnum líka."

Jonjo skoraði glæsilegt mark gegn Chelsea með skoti lengst utan af velli eftir að Ross Turnbull, markmaður Chelsea, hafði mistekist að sparka almennilega frá marki sínu.

,,Ég er rosalega ánægður með að skora mitt fyrsta mark í Úrvalsdeildinni og það var sérlega gaman að gera það á Anfield. Ég sá að markmaðurinn hitti boltann ekki almennilega og ég fékk hann á hægri fótinn. Ég heyrði áhorfendur kalla á mig að skjóta og hugsaði því ekki það? Ég hitti boltann fullkomlega og hann söng í netinu."

,,Það hefur gengið upp og niður í heimaleikjunum og við höfum ekki náð að refsa liðum jafn oft og við vildum. En það er afrek að vinna Chelsea, sem er að fara í úrslitaleikinn í Meistaradeildinni, 4:1 í einum af síðustu leikjum leiktíðarinnar."

Jonjo átti stórfínan leik á miðjunni en hann hefur spilað vel í þeim leikjum sem hann hefur fengið tækifæri í upp á síðkastið. Það er greinilegt að það býr mikið í þessum strák sem Rafael Benítez keypti á síðustu vikum valdatíðar sinnar.

,,Ég held að þetta hafi verið einn besti leikur minn með Liverpool. Það er gaman að spila og eftir því sem maður fær að spila meira öðlast maður betri tilfinningu fyrir leikæfingu og snerpunni sem til þarf. Mér finnst að ég hafi sýnt að ég eigi skilið að spila aftur og vonandi fæ ég annan leik á sunnudaginn. Mér finnst persónulega að ég hafi staðið mig þokkalega. Ég fór á lán og naut þess að spila með Blackpool. Ég kom aftur og hef gert tilkall til sætis í liðinu. Vonandi næ ég að festa mig í sessi á næstu leiktíð."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan