| Heimir Eyvindarson

Ég veit að ég er ekki fyrsta val

Jamie Carragher veit að hann er ekki lengur fyrsta val stjórans. Hann segist njóta hverrar einustu mínútu sem hann fær að spila og vonast til þess að ná fleiri dollum í hús áður en ferlinum lýkur.

Jamie Carragher er einn dyggasti þjónn Liverpool liðsins hin síðari ár. Árum saman var hann kletturinn í vörninni sem sóknir andstæðinganna brotnuðu ósjaldan á og var einn allra mikilvægasti maður liðsins. Nú hefur hann misst sæti sitt í byrjunarliðinu til Martin Skrtel og Daniel Agger og fær þar að auki harða samkeppni á bekknum frá Sebastian Coates. Varafyrirliðinn segist þó vera sáttur við hlutskipti sitt.

,,Ég á þessa leiktíð og þá næstu eftir af samningnum. Það gefur mér vonandi tækifæri til þess að leika fleiri stórleiki og fá fleiri medalíur um hálsinn. Maður verður að nýta tækifærin meðan maður getur", segir Carra í viðtali við The Times.

Carragher hefur spilað mun minna á þessari leiktíð en undanfarin ár. Meiðsli Daniel Agger gerðu það þó að verkum að hann spilaði nokkuð mikið á síðustu vikum. Hann gerir sér grein fyrir því að það sér fyrir endann á ferlinum og spilatíminn verður minni og minni.

,,Ég verð hérna áfram ef ég má ráða, en Kenny ræður því auðvitað. Ekki ég. Þetta tímabil hefur verið öðruvísi fyrir mig. Ég hef ekki spilað jafn mikið og venjulega. En það hlaut að koma að þessu. Ætli ég nái ekki 30 leikjum í vetur, sem er kannski í lagi ef maður tekur tillit til þess að við erum ekki með í Evrópukeppni. En það verður Evrópukeppni á næstu leiktíð."

,,Ég veit að ég er ekki lengur fastamaður í liðinu, en ef einhver meiðist þá er ég tilbúinn að koma inn á og gera mitt besta. Ég mun alltaf reyna að gera félaginu gagn. Til þess er ég hér. Mér dettur ekki í hug að skipta um félag." 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan