| Sf. Gutt

Þriðji markmaður á Wembley!

Nú er ljóst að Liverpool verður að nota þriðja markmann sinn í undanúrslitaleiknum við Everton á Wembley. Jose Reina fékk þriggja leikja bann þegar hann var rekinn af velli gegn Newcastle United á dögunum. Alexander Doni tók stöðu hans á móti Aston Villa og aftur í gærkvöldi gegn Blackburn Rovers. Hann var þó rekinn af velli í þeim leik og er kominn í þriggja leikja bann eins og Jose!

Glöggt mátti sjá að Alexander var miður sín þegar hann var rekinn af velli enda eðlilega búinn að reikna með að leika á Wembley í stórleiknum gegn Everton. Hann verður að fylgjast með þeim leik líkt og Jose Reina og þykir báðum súrt í broti svo ekki sé meira sagt. 

Brad Jones fór í markið í gærkvöldi þegar Alexander var rekinn af velli og byrjaði á að verja vítaspyrnu. Hann fékk þó á sig tvö mörk sem reyndar kom ekki að sök því Liverpool vann 2:3. Það verður því þriðji markmaður Liverpool sem mun standa í marki Liverpool á Wembley á laugardaginn. Hverjum hefði dottið það í hug fyrir rúmri viku. Brad var stuðningsmaður Liverpool í æsku og á ættir að rekja til borgarinnar. Þess vegna verður leikurinn á móti Everton líklega enn merkilegri fyrir hann. Vonandi á honum eftir að ganga allt í haginn!

   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan