| Sf. Gutt

Hæstánægður með bikarinn!

Kenny Dalglish, framkvæmdastjóri Liverpool, var skiljanlega hæstánægður með fyrsta bikarsigur Liverpool í sex ár. Hann hrósaði sínum mönnum, mótherjunum frá Wales og stuðningsmönnum Liverpool. Hann hafði meðal annars þetta að segja eftir leik á Wembley. 

,,Við erum hæstánægðir með að hafa unnið bikar. Þetta var erfiður leikur fyrir okkur og mér fannst Cardiff vera félaginu sínu til mikils sóma. Þeir reyndu allt sem þeir gátu. Jafnvel eftir að Dirk skoraði í framlengingu, og þeir voru orðnir dauðþreyttir, lögðu þeir sig alla fram."

,,Það varð að gera út um leikinn á einhvern veg og vítaspyrnukeppni er aðferðin. Við vorkennum Anthony Gerrard sem misnotaði úrslitavítið sem færði okkur bikarinn. Allir knattspyrnumenn vorkenna þeim sem lenda í svona en við erum auðvitað gríðarlega ánægðir með að hafa unnið bikar."
 
,,Við höfum verðskuldað sigur í öllum leikjum okkar í keppninni. Við erum búnir að spila vel og komast í gegnum erfiða leiki og leikurinn í dag var virkilega erfiður því þeir voru erfiðir mótherjar. Malky getur verið stoltur af starfi sínu og fólkið í Cardiff getur verið stolt af framlagi liðsins."

,,Okkar fólk er í skýjunum með fyrsta bikar sinn í sex ár og þess vegna var þetta mjög góður dagur fyrir okkur. Við munum halda áfram að leggja hart að okkur og sjá hverju það skilar. Við erum núna hér vegna þeirrar vinnu sem allir, og ekki bara ég, hafa lagt á sig. Eigendurnir, stuðningsmennirnir og leikmennirnir hafa lagt sitt af mörkum. Eftir því sem samstaðan er meiri þess öflugri verðum við."

,,Dagurinn í dag er uppskera mikillar vinnu fjölda fólks sem innir af höndum öll þau störf sem þarf að vinna hjá knattspyrnufélaginu. Það gildir engu hvort um er að ræða eiganda, stjórnarformann, leikmann eða vallarstarfsmann. Allir hafa lagt sig alla fram með það að markmiði að færa félagið fram á veginn. Við erum þó ekki hættir þó að við höfum unnið til verðlauna í dag. Við ætlum ekki að láta staðar numið heldur halda ótrauðir áfram. Besti möguleikinn fyrir okkur til að gera svo er að halda áfram að gera það sem við gerum best og það er að standa saman."


,,Mér fannst stuðningsmennirnir vera alveg ótrúlegir. Þeir nutu þess virkilega að vera hér, komu til að eiga góða dagstund og úrslitin fullkomnuðu þetta fyrir þá. Við fengum frábæran stuðning í dag og það sama má segja um stuðningsmenn Cardiff. Það hefur verið skemmtilegt fyrir fólk að sitja og horfa á leikinn. Stemmningin var frábær."

,,Þetta hefur mjög mikla þýðingu fyrir fjölda fólks og knattspyrnufélagið stendur fyrir fólk. Allt sem við erum að reyna að gera miðast að því að gera fólkið eins ánægt og hægt er. Í dag tókst það. Vonandi bætir það fyrir þá daga sem okkur hefur ekki tekist vel upp."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan