| Heimir Eyvindarson

Ég hef hugann hundrað prósent við leikinn

Kenny Dalglish fullvissar stuðningsmenn Liverpool um að lætin i kringum kæruna á hendur Luis Suarez og Liverpool muni ekki taka athygli hans frá leiknum við QPR í dag.

,,Eina sem þessi ákvörðun FA hefur breytt fyrir mig er að ég hef þurft að eyða dálitlum tíma í að svara spurningum fréttamanna um niðurstöðuna. Það er auðvitað truflun í sjálfu sér, en ekki nóg til þess að við vitum ekki lengur hvað við eigum að gera inni á vellinum eða á æfingasvæðinu."

,,Á móti QPR munum við gera það sem við höfum alltaf reynt að gera. Það er að gera okkar besta. Ég vona að í þetta skiptið bætist síðan smá heppni við. Hún hefur ekki alltaf verið með okkur í liði."

,,Ég hef ekki áhyggjur af því að koma leikmönnum í rétta gírinn fyrir leikinn. Það getur verið erfitt að rífa menn upp eftir leiki sem þeir spiluðu illa, en því var ekki fyrir að fara á mánudaginn. Það er vitanlega aldrei gaman að tapa, en frammistaða leikmanna á mánudaginn var ekki slæm. Ég held að það verði ekkert mál að koma þeim í gírinn fyrir þennan leik."

,,Við spiluðum nægilega vel gegn Fulham til þess að vinna leikinn. En við gerðum það ekki. Það var óheppni. En ég fer ekki að skammast í leikmönnum fyrir það. Það væri ekki nema liðið spilaði hvern einasta leik eins og það gerði gegn Tottenham að ég færi að ráðast í leikmennina. Staðreyndin er sú að það er eini leikurinn sem við höfum átt skilið að tapa. Við höfum spilað ágætlega í öllum hinum leikjunum og höfum verið óheppnir að skora ekki fleiri mörk og næla ekki í fleiri stig. Það er það sem við erum vonsviknir með. Ekki frammistöðuna inni á vellinum."

,,En við höldum ró okkar. Við vorum á góðri siglingu fyrir Fulham leikinn. Við misstum okkur ekki yfir því. Við missum okkur ekki heldur yfir einum slæmum úrslitum."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan