| Heimir Eyvindarson

Aftur 3-0 tap!

Liverpool steinlá 3-0 fyrir Galatasaray í Tyrklandi í kvöld. Milan Baros skoraði tvö marka Tyrkneska liðsins.

Liverpool liðið á vissulega góðar minningar frá Istanbul, en kvöldið í kvöld fer svo sannarlega ekki í sögubækurnar. Að minnsta kosti ekki fyrir baráttuvilja, samstöðu og hugrekki eins og maíkvöldið góða 2005.

Reyndar tók enginn leikmaður Liverpool í kvöld þátt í úrslitaleiknum í Istanbul 2005, en í liði Galatasaray var einn leikmaður sem spilaði 85 mínútur fyrir Liverpool í þeim eftirminnilega leik. Milan Baros. Hann átti eftir að fara illa með okkar menn.

Kenny Dalglish stillti upp ungu liði og fremur varnarsinnuðu. Að minnsta kosti á pappírunum. Til að mynda voru fimm leikmenn í liðinu sem hafa spilað sem bakverðir! Líklega kom þó mest á óvart að Philipp Degen skyldi vera í byrjunarliðinu og að nýju mennirnir, Henderson, Adam og Downing komu ekkert við sögu.

Heimamenn byrjuðu leikinn með látum og strax á fyrstu mínútu fékk Baros dauðafæri sem hann klúðraði til allrar hamingju. En 7 mínútum seinna var hann aftur dauðafrír fyrir framan mark okkar manna eftir skelfilega varnarvinnu og þá urðu honum ekki á nein mistök. Staðan orðin 1-0.

Galatasary var miklu betra liðið í upphafi leiksins og til marks um það er að fyrsta umtalsverða færi Liverpool kom ekki fyrr en á 30. mínútu, en þá skallaði Andy Carroll yfir markið af stuttu færi eftir aukaspyrnu Jonjo Shelvey.

Sex mínútum síðar fékk Martin Kelly síðan ævintýralega gott færi eftir skalla frá Kyrgiakos en á ótrúlegan hátt tókst honum ekki að koma boltanum í netið. Þremur mínútum síðar skoraði Milan Baros annað mark Galatasaray eftir mikla pressu. Liverpool 2-0 undir í Istanbul eftir 39 mínútur. Kunnugleg staða!

Í lok fyrri hálfleiksins lifnaði örlítið yfir leik okkar manna en það dugði ekki til. Staðan 2-0 fyrir heimamenn í leikhléi.

Í síðari hálfleik var Liverpool liðið örlítið skárra en samt sem áður var afskaplega lítið að gerast í leik okkar manna. Mikið óöryggi var á vörninni og algjört andleysi í sókninni. Okkar menn fengu þó nokkur ágæt færi. Það besta líklega á 64. mínútu þegar Aquilani var nálægt því að skora eftir góðan undirbúning Dirk Kuyt.

Á 85. mínútu rak Svíinn Johan Elmander síðan síðasta naglann í kistu okkar manna þegar hann skoraði þriðja mark heimamanna með glæsibrag.

Lokatölur í Istanbul 3-0 fyrir Galatasaray og ljóst að okkar menn líta ekki vel út þessa dagana. Á það ber þó að líta að Dalglish hefur gefið mörgum minni spámönnum tækifæri í æfingaleikjum sumarsins og engin ástæða til að örvænta þótt illa hafi farið í tveimur síðustu leikjum.

Liverpool: Doni (Jones 45. mín.), Flanagan, Kelly (Ayala 79. mín.), Kyrgiakos, Robinson (Aquilani 45. mín.), Insua, Degen (Kuyt 45. mín.), Poulsen (Wisdom 82. mín.), Shelvey (Spearing 70. mín.), Cole, Carroll (Coady 82. mín.).

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan