| Sf. Gutt

Kveðjur úr Musterinu

Það voru kannski ekki flutt óskalög sjúklinga á Anfield en víst er að einum sjúklingi hefur hlýnað um hjartaræturnar núna laugardaginn fyrir páska! Þegar tæpur stundarfjörðungur var til leiksloka, gegn Birmingham, hófu stuðningsmenn Liverpool að syngja nafn Gerard Houllier framkvæmdastjóra Aston Villa og var vel tekið undir. 

Ástæða þessa söngs er sú að Frakkinn dvelur nú á sjúkrahúsi en þangað var hann fluttur um miðja síðustu viku eftir að hafa fundið fyrir verkjum í brjóstholi. Hermt er að honum líði eftir atvikum vel og hann mun ekki þurfa í aðgerð. Ekki er vitað hvort lasleiki hans núna tengist beint veikndum hans árið 2001 þegar mikil aðgerð á ósæð bjargaði lífi hans.
 
Alls óvíst er hvort Gerard Houllier getur komið aftur til starfa hjá Aston Villa það sem eftir er leiktíðar. Í forföllum hans stýrir Gary McAllister, fyrrum leikmaður hans hjá Liverpool, liðinu. Svo vill til að Liverpool og Aston Villa leiða saman hesta sína á Villa Park í síðustu umferð deildarkeppninnar í næsta mánuði.

Gerard Houllier þykir mjög vænt um Liverpool og stuðningsmenn félagsins. Hann hefur aldrei dregið neina dul á það og kom það vel í ljós eftir leik Liverpool og Villa á Anfield í desember. Hann sagði þá gott að tapa fyrir Liverpool eða þannig! Sú yfirlýsing hans féll ekki í góðan jarðveg hjá stuðningsmönnum Villa enda vann Liverpool öruggan sigur 3:0.

Kenny Dalglish, framkvæmdastjóri Liverpool sendi Gerard Houllier kveðjur á blaðamannafundi núna fyrir páskana. ,,Það sama gildir um hann og aðra að heilsan skiptin mestu. Við óskum honum alls góðs og ég er viss um að hann er í góðum höndum."
 
Hér má sjá þegar áhorfendur á Anfield sýndu Gerard Houllier stuðning á laugardaginn. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áhorfendur senda Gerard kveðjur á sjúkrabeð. Myndverkið GH sem Kop birti eftir að Gerard veiktist 2001 verður lengi í minnum haft. Svona gerist bara á Anfield! 

Við vonum að Gerard Houllier nái fullri heilsu og Liverpool klúbburinn á Íslandi sendir honum bestu batakveðjur.





   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan