| Heimir Eyvindarson

Við getum vel unnið á Emirates

Liverpool hefur aldrei unnið Arsenal á Emirates Stadium en Kenny Dalglish er staðráðinn í því að breyta því í dag.

,,Ég set úrslit aldrei í sögulegt samhengi. Ég held til dæmis að fyrir leikinn gegn WBA hafi verið ansi langt síðan við töpuðum fyrir þeim, en við töpuðum nú samt. Þótt sagan segi að við höfum ekki unnið Arsenal á Emirates þá breytir það engu. Afhverju ættum við ekki að geta unnið þá?"

,,Fyrri úrslit breyta engu. Maður kemst hvorki lönd né strönd ef maður einblínir alltaf á hvernig hlutirnir hafa verið. Maður verður að fókusera á hvernig maður vill að hlutirnir verði."

,,Við komum til með að mæta í þennan leik af sama krafti og við mættum í leikinn gegn Manchester City á mánudaginn, þannig vil ég að menn mæti í alla leiki. Ég ætla ekki að sitja hér og útskýra hvaða leikaðferðum við ætlum að beita. Það munum við sýna inni á vellinum. Við leggjum áherslu á nokkur aðalatriði og ef okkur tekst að vinna eftir því plani þá eru okkur allir vegir færir. Við gerðum það á móti City og vonandi tekst okkur að endurtaka þann góða leik í dag."

,,Arsenal er frábært fótboltalið, það er engin spurning. Fyrir mánuði síðan voru þeir í baráttu á fjórum vígstöðvum, núna er Úrvalsdeildin eina keppnin sem þeir geta mögulega unnið. En þetta er oft spurning um heppni. Þeir voru frekar óheppnir með mótherja í sumum keppnum. Manchester United sló þá út úr einni keppni og Barcelona úr þeirri næstu. Þú getur alveg lent á léttari andstæðingum í útsláttarkeppnum, en svona er fótboltinn. Núna fókusera leikmenn Arsenal á Úrvalsdeildina og það gerir verkefni dagsins ekki auðveldara fyrir okkur."

,,Ég dreg enga dul á það að mér finnst Arsenal skemmtilegt lið. Þar innanborðs eru margir góðir leikmenn og liðið spilar skemmtilegan bolta. Við vitum að leikurinn í dag verður gríðarlega erfiður, enda er liðið ennþá í baráttu um Englandsmeistaratitilinn. En við þekkjum liðið vel og munum gera okkar besta til þess að bæta okkar stöðu í deildinni í dag."

,,Við vitum ekkert hvort okkur tekst að komast í Evrópukeppni á næsta tímabili. Það eina sem við getum gert er að vinna sem flesta leiki, helst alla, og sjá hverju það skilar okkur þegar upp er staðið. Ef okkur tekst að komast í Evrópukeppni þá tekst okkur það. Ef það tekst ekki þá bara tekst það ekki. Það þýðir ekki að fást um það. Við sjáum allavega ekki lengra fram í tímann en að Arsenal leiknum í dag. Við ætlum að leggja allt í sölurnar þar."







 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan