| Sf. Gutt

Eldur og ís!

Það gengur jafnan mikið á þegar Liverpool og Machester United mætast og þeirra leikja er jafnan beðið með mikilli eftirvæntingu af stuðningsmönnum liðanna.

Kenny Dalglish segir að menn þurfi að halda yfirvegun sinni en á sama tíma berjast af eldmóði. Afmælisbarnið mælir sem sagt með eldmóði og ískaldri yfirvegun í bland.

,,Við vitum auðvitað að þessi leikur hefur mjög mikla þýðingu fyrir stuðningsmennina og alla þá sem tengjast félaginu. Margir hlakka til leikja við Manchester United en hver einasti leikur er mikilvægur og næsti leikur er alltaf sá mikilvægasti."

,,Það skiptir miklu í öllum leikjum að halda yfirvegun sinni og þá ekki bara gegn Manchester United. Það er ekkert erfitt að halda yfirvegun í svona leikjum en menn þurfa samt að hafa stjórn á grimmdinni og eldmóðinum og nota þessa þætti af skynsemi. Öll höfum við séð að það er fín lína á milli þess að fara í harða tæklingu og þess að brjóta af sér. Leikmenn vita að þeir fá gult eða rautt spjald ef þeir gera eitthvað heimskulegt. Þetta gildir um alla leiki."

Nokkrir leikmenn hafa verið reknir af velli í síðustu leikjum liðanna. Til dæmis var Liverpool einum færri strax í fyrri hálfleik þegar liðin mættust í endurkomuleik Kenny Dalglish í F.A. bikarnum. 

,,Við lentum í þessum vandræðum síðast þegar við mættum Manchester United með Steven og Nemanja Vidic hefur líka lent í sömu vandræðum í þessum leikjum. En við vitum að hann verður ekki með á sunnudaginn."

Kenny Dalglish stjórnar nú Liverpool í annað sinn gegn Manchester United frá því hann tók við liðinu í annað sinn í byrjun janúar. Kenny kom þá til Englands seint um kvöld fyrir leikinn sem Liverpool tapaði 1:0. Aftur stjórnar Kenny Liverpool gegn Manchester United.

,,Ég hafði auðvitað ekki neinn tíma til að vinna með leikmönnunum fyrir bikarleikinn því ég var á ferðalagi. Það var líka búið að undirbúa liðið vel en auðvitað fóru allar áætlanir út í veður og vind á fyrstu mínútu þegar vítið var dæmt. Svo var Steven rekinn út af og það er erfitt að reikna með slíku. Vonandi gerist ekkert svona á sunnudaginn."

Leikmenn og þjálfaralið Liverpool voru á fullu á Melwood í dag við undirbúning fyrir stórleikinn á sunnudaginn. Hér eru myndir frá æfingu dagsins.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan