| Sf. Gutt

Sigurgangan stöðvaðist

Eftir fjóra sigurleiki í röð stöðvaðist sigurgangan gegn Wigan í 1:1 jafntefli á Anfield. Þetta var slakasti leikur Liverpool undir stjórn Kenny Dalglish. Liðið náði sér aldrei á strik hvernig sem á því stóð.

Það var mikil bjartsýni ríkjandi í sólinni á Anfield Road enda fjórir sigurleikir að baki. Bjartsýnin minnkaði svo sem ekkert þótt það fréttist að Steven Gerrard gæti ekki leikið með vegna meiðsla.

Það kom þó fljótlega í ljós, eftir að leikur hófst, að ekki var jafn mikill kraftur í mönnum Kenny Dalglish og í síðustu leikjum. Luis Suarez var þó vel vakandi og greinilega tilbúinn í slaginn. Á upphafsmínútunum hefði hugsanlega verið hægt að dæma víti eftir að varnarmaður virtist koma honum úr jafnvægi en dómarinn dæmdi ekki og las þess í stað yfir Luis. Hann bókaði þó Luis ekki sem hann hefði átt að gera ef hann teldi vera um leikaraskap að ræða. Ekki síðustu mistök dómarans það.

Færi létu standa á sér og leikmenn Wigan veittu harða mótspyrnu frá upphafi. Það var ekki fyrr en á 19. mínútu sem Liverpool náði loks almennilegu markskoti. Dirk Kuyt átti þá skot utan teigs sem Ali Al Habsi varði. Hann hélt ekki boltanum en náði honum í annarri tilraun. Hann kom á hinn bóginn engum vörnum við á 24. mínútu. Martin Kelly átti þá góða rispu upp hægra megin og sendi fyrir. Boltinn barst yfir á teiginn vinstra megin þar sem Fabio Aurelio lék laglega á varnarmann og sendi fyrir markið. Varnarmaður skallaði frá en boltinn fór beint á Raul Meireles sem tók hann á lofti og þrumaði í markið! Enn eitt glæsimarkið hjá þeim portúgalska og nú virtist leiðin að fimmta sigrinum greið!

Tveimur mínútum eftir markið var heppnin með Wigan. Luis fékk boltann utan við vinstra vítateigshornið. Þar lék hann glæsilega á einn áður áður en hann skrúfaði boltann í átt að fjærhorninu. Ali kom engum vörnum við en boltinn hafnaði því miður í stöng og fór þaðan út. Glæsileg tilþrif hjá Luis en lánið var ekki með honum. Líklega hefði mark þarna gert út um leikinn. Eftir þetta gerðist ekki mikið fram til leikhlés. Liverpool hafði þokkaleg tök á leiknum en leikmenn Wigan færðu sig heldur upp á skaftið eftir því sem á leið.

Wigan ógnaði strax í upphafi síðari hálfleiks eftir fyrirgjöf frá vinstri en Martin Skrtel bjargaði áður en Hugo Rodallega kom skoti á markið. Á 54. mínútu varð Liverpool fyrir áfalli þegar Raul varð að fara af velli en hann var hálfveikur. David Ngog kom í hans stað en hann sást ekki í leiknum.

Eftir að Raul fór af velli datt leikur Liverpool niður og Wigan jafnaði á 65. mínútu. Steve Gohouri stýrði þá boltanum í markið af stuttu færi efrir fyrirgjöf frá hægri. Hann var rangstæður en ekkert var dæmt. Yfirsjón og svo tók dómarinn líka hugsanlega mark af Liverpool þegar hann flautaði seint aukaspyrnu á Wigan þegar Maxi Rodriguez var kominn einn í gegn. 

Enn varð dómaranum á, þegar þrettán mínútur voru eftir, þegar hann rak ekki Gary Caldwell af velli þegar hann braut á Luis rétt við vítateiginn. Gary var rétt áður búinn að fá gult spjald. Luis tók aukaspyrnuna sjálfur en fínt skot hans fór í þverslá. Liverpool sótti látlaust undir lokin en illa gekk að opna sterka vörn Wigan. Fabio átti fast skot rétt yfir þegar þrjár mínútur voru eftir og á lokamínútunni átti Martin Skrtel skalla yfir. Jafntefli varð niðurstaðan og Wigan verðskuldaði það en lánið var ekki með Liverpool þegar á þurfti að halda.

Liverpool: Reina, Kelly, Carragher, Skrtel, Johnson, Rodriguez, Leiva, Meireles (Ngog 54. mín.), Aurelio, Suarez og Kuyt (Jovanovic 73. mín.). Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Pacheco, Kyrgiakos, Wilson og Poulsen.
 
Mark Liverpool: Raul Meireles (24. mín.).

Gult spjald: Jamie Carragher.
 
Wigan Athletic: Al Habsi, Gohouri, G. Caldwell, Alcaraz, Figueroa, N´Zogbia, Watson (McArthur 72. mín.), McCarthy, Diame, Moses (Cleverley 67. mín.) og Rodallega. Ónotaðir varamenn: Pollitt, Di Santo, S. Caldwell, Gomez og Stam.
 
Mark Wigan: Steve Gohouri (65. mín.).

Gul spjöld: Steve Gohouri, Antolin Alcaraz og Gary Caldwell.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.609.

Maður leiksins: Luis Suarez. Luis var hinn sprækasti og hann lofar sannarlega góðu. Hann var áræðinn og duglegur í sókninni og aðeins tréverkið, stöng og slá, kom í veg fyrir að hann skoraði. Það má mikið vera ef Luis á ekki eftir að verða lykilmaður þegar fram líða stundir.   
 
Kenny Dalglish: Það voru auðvitað vonbrigði að ná ekki stigunum þremur. En okkur hefði kannski tekist það með svolítilli heppni og það þó við höfum ekki leikið eins vel og undanfarið. Við verðum bara að hressa okkur við og halda áfram.   
 

                                                                               Fróðleikur

- Raul Meireles skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni. 

- Hann hefur skorað mörkin fimm í síðustu sex leikjum. 

- Wigan Athletic hefur aðeins einu sinni unnið Liverpool.

- Liverpool hefur ekki unnið Wigan í síðustu þremur leikjum liðanna.

- Jose Reina fékk á sig mark í fyrsta skipti í 463 mínútur. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér er viðtal við Kenny Dalglish.

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan